02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í C-deild Alþingistíðinda. (1784)

89. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Jón Pálmason:

Það er ekki neitt undarlegt, þó að nokkrar umr. verði um frv. slíkt sem þetta, því að við stöndum hér frammi fyrir einu höfuðvandamáli okkar þjóðfélags, því að þannig er nú komið, eins og ég vék að í minni fyrri ræðu, að allt fjármálalíf er að komast í reglulegt öngþveiti.

Hv. 6. landsk., flm. þessa frv., játaði það, sem ég gat um, að komið væri það ástand víðsvegar á landinu, að á undanförnum árum hefði ekki verið hægt að leggja útsvör á tekjur, af því að þær hefðu ekki verið til, heldur á eign. Það er auðséð, hversu okkar skattapólitík er komin út í mikla vitleysu, þegar farið er að taka meiri eða minni hl. af hinum opinberu gjöldum af eign, af því að engar tekjur eru fyrir hendi.

Hv. 6. landsk. vildi halda því fram, að það kæmi kauptúnahreppunum og bæjarfélögunum ekki að neinu haldi, þó að ríkissjóður stæði af fasteignaskattinum og tekju- og eignaskattinum að meira eða minna leyti, af því að tekju- og eignaskattur væri víða enginn til. Þetta á sér stað um einstaka sveitahreppa í landinu, en á sér naumast stað um kaupstaðahreppana. Og þó að þetta eigi sér stað um tekju- og eignarskattinn, gildir það ekki um fasteignaskattinn, því að hann er eins og við vitum, gjald af matsverði allra fasteigna og hlýtur því að vera talsverð upphæð í öllum sveitarfélögum. Þess vegna liggur miklu nær, að fasteignaskatturinn sé algerlega látinn ganga til þarfa sveitar- og bæjarfélaganna, en að ríkið leggi á tolla í þess stað. Hitt nær frá mínu sjónarmiði engri átt, að fara að tvískipta tollálöguvaldinu. Og ef sveitarfélögin færu að leggja á tolla, myndi það í þessu tilfelli verða þannig í framkvæmdinni, að kaupstaðahreppunum væri frjálst að tolla vörur til þess að láta sveitahreppana borga þau gjöld, sem þar er um að ræða.

Þar sem hv. 6. landsk. vék að því, að ástandið í kaupstöðunum væri mjög slæmt vegna samvinnul. frá 1921, þá var margt rétt í því. Það eru miklu minni tekjur fyrir þá hreppa, sem hlut eiga að máli, að taka gjald af verzlunum, heldur en ef það hefði verið einstaklingsverzlanir. En þó að um það mál, hvernig greiða skuli gjöld af samvinnnufélagsverzlunum, hafi verið deilt, og sumir vilji halda því fram, að þau útsvör, sem félögin borgi, séu ekki neitt, þá er það ekki rétt. Þau munu flest hafa borgað allhá útsvör, þótt þau vitanlega myndu verða hærri, ef frjálst væri að leggja á félög eins og verzlanir einstakra manna. Það, sem þarna er helzt um að ræða sem hlutdrægni, er, að það er bundið við föst %, sem hægt er að leggja á eignir þeirra félaga, sem hlut eiga að máli. Getur komið til mála að breyta eitthvað l. um álagningarvald hreppa, hvað þetta snertir.

Þá var hv. 6. landsk. að afsaka þetta frv. með því, að það væri ekki eins hættulegt og útlit væri fyrir, því að þetta væru aðeins heimildarákvæði. Hvað halda menn, að standi á bak við þetta? Láta menn sér detta það í hug, að það sé ekki nokkuð sama, þó að þetta heiti heimildarákvæði, þar sem því hefir verið lýst yfir, að ekki væri hægt að komast af án þessarar tollaaukningar. Þessi heimild myndi því nálega í öllum tilfellum verða notuð, ef hún yrði gefin.

Í þessu sambandi vil ég taka það fram, að frá mínu sjónarmiði er það hin mesta fjarstæða að gefa, eins og í þessu frv. er farið fram á, heimild til þess að leggja gjald á útfluttar vörur, því að það er ekkert annað en framleiðsluskattur, sem að mínu áliti er sá vitlausasti skattur, sem hægt er að taka. Útflutningsskattur kemur þannig niður, að sá verður að borga mest, sem mest flytur út, hvort sem það er um einhvern hagnað að ræða eða ekki. Það hafa því komið fram háværar raddir um, að réttast væri að afnema allt útflutningsgjald. Og öllum þeim, sem lita vilja á þetta mál hlutdrægnislaust, hlýtur að vera það ljóst, að þetta er skattur, sem alls ekki á að liðast í þessu þjóðfélagi. Það er þess vegna furðulegt, að þessi hv. þm., sem er fulltrúi fyrir sjávarútveginn, sem er nú í því ástandi, sem hann er, skuli leyfa sér að fara fram á, ekki einasta, að lagt verði gjald á allar aðfluttar vörur, heldur líka, að lagt verði gjald á útfluttar vörur.

Fleira skal ég svo ekki um þetta ræða. Ég ætla, að menn hafi séð, hver afstaða mín er til þessa máls. Hún er ákveðin, og á þá leið, að ríkið hafi tollaálöguvaldið og taki sínar aðaltekjur með tollum af aðfluttum vörum, en sveitar- og bæjarfélögin hafi hinsvegar rýmra svið til þess að taka sínar tekjur með beinum sköttum, en ef þeim er skipt, að leggja þá á í einu lagi og skipta þeim síðan milli þeirra aðilja, sem hlut eiga að máli.