30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í C-deild Alþingistíðinda. (1791)

91. mál, hampspuni

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Iðnn. flytur frv. þetta eftir beiðni h/f Hampiðjunnar hér í bænum. Fyrirtæki þetta byrjaði að starfa hér um áramótin 1934–'35. Það hefir eingöngu flutt inn óunnin harðtrefja hamp, og unnið úr honum botnvörpugarn. Nú á það vélar fyrir um 120 þús. kr. Á fyrsta starfsári flutti verksmiðjan inn óunninn hamp fyrir 65800 kr., en seldi unnið botnvörpugarn fyrir um 160 þús. kr. Mismunurinn, um 94 þús., voru því vinnulaun, sem annars hefðu verið greidd út úr landinu í erlendum gjaldeyri. 1936 flutti verksmiðjan aftur inn harðtrefja hamp fyrir 120 þús. en seldi botnvörpugarn fyrir 223 þús. króna. Mismunurinn varð því það árið um 103 þús. kr.

Á þessum tveimur árum hefir því mismunurinn á innfluttum hampi og seldu unnu garni numið um 197 þús., sem mest eru vinnulaun, greidd innlendu fólki, og því um leið sparaður gjaldeyrir.

Eins og ég tók fram í upphafi máls míns, þá hefir félagið hingað til unnið úr harðtrefja hampi, en hyggst nú að færa út kvíarnar og fara að vinna úr mjúktrefja hampi, og fái það þetta umbeðna einkaleyfi, þá mun það bæta við sig einni vélasamstæðu, sem mun kosta um 200 þús. króna með húsum. Hér er því ekki um svo litlar upphæðir að ræða. Ef athugaðar eru hagskýrslur síðustu ára, þá kemur í ljós, að hampurinn í garn það, sem notað hefir verið í veiðarfæri, er 385 þús. ódýrari en garnið, en það er aftur sú upphæð, sem sparast í erlendum gjaldeyri við tilsvarandi veiðarfæranotkun, ef vinnsla alls þess hamps, sem í veiðarfæri þarf, fer fram innanlands.

Til þess að félag þetta treystist að ráðast í frekari framkvæmdir en orðið er, þá telur það sig þurfa að fá einkaleyfi til þessarar iðju um nokkurt árabil, til þess að fá vissu fyrir því, að einhver annar fari ekki líka að vinna að hampspuna, því að þá yrði verkefnið ekki nægiIegt, en af því myndi aftur leiða það, að álagning á framleiðsluvöruna yrði að verða meiri, til þess að fyrirtækið gæti borið sig. Og jafnvel mætti þá búast við því, að garnið yrði dýrara hér en annarsstaðar.

Þá vil ég vekja athygli á því, að þó að hér sé farið fram á einkaleyfi til þess að kemba og spinna garn, þá er ekki um að ræða einkaleyfi til sölu á garni. Reynist hið innlenda garn því ekki vel, standist ekki samkeppnina um verð og gæði við hið erlenda, þá verður að sjálfsögðu flutt inn erlent garn, sem keppir við hið innlenda. En til þess held ég, að þurfi ekki að koma, því að sú reynsla, sem fengin er á hinu innlenda garni, er á þann veg, að það er af þeim, sem bezt til þekkja, talið fullkomlega samkeppnisfært, bæði hvað verð og gæði snertir. Að svo verði og framvegis, er tryggt með því, að í fyrirtæki þessu eiga bæði skipstjórar og útgerðarmenn, en það eru einmitt þeir mennirnir, sem kunna bezt skil á þessum hlutum. Þá má og benda á það, að verði frv. þetta að lögum, og allt garn unnið í landinu sjálfu, sem til útvegsins þarf, þá myndi verða miklu þægilegri aðstaða fyrir línu- og netagerðir. Þær gætu milliliða- og umstangslaust snúið sér til Hampiðjunnar með öll innkaup sín. — Eins og ég tók fram í upphafi máls míns, þá hefir iðnn. orðið sammála um að flytja frv. þetta, og væntir því, að það fái greiðan gang í gegnum þingið. N. telur, að svo fremi sem frv. verður samþ. og hampiðjan eykst, eftir því sem líkur eru fyrir, þá getur hér orðið um að ræða aukna atvinnu fyrir 30–40 manns.