30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í C-deild Alþingistíðinda. (1798)

91. mál, hampspuni

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Ég held, að hv. 1. þm. Rang. hljóti að hafa annaðhvort mistalað sig eða haft hæpnar heimildir, þegar hann sagði að hið háa verð, sem væri á vörum frá Veiðarfæragerðinni, stafaði af óhagstæðum innkaupum á hampi, Þetta getur ekki staðizt, því að Veiðarfæragerðin hefir aldrei flutt inn hamp.

Þá vil ég benda á það, að óunninn hampur, sem fluttur var til landsins, nam að verðmæti 9000 kr. 1933, 16000 kr. 1934, 75000 kr. 1935 og 130000 kr. 1936. Hampiðjan, sem í fyrsta skiptið vinnur garn 1935, hleypir verðmæti hampsins svo upp. Það er og eftirtektarvert, að það ár er í fyrsta skipti á innflutningsskýrslunum óunninn hampur frá Afríku og Filippseyjum. Á sama tíma, sem Hampiðjan byrjar að framleiða garn, minnkar verðmæti innflutts botnvörpugarns úr 181 þús. kr. 1933 niður í 40 þús. kr. 1936. Þetta sýnir að h.f. Hampiðjan er fullkomlega samkeppnisfær á þessum markaði.

Þá sagði hv. þm. Vestm., að Norðmenn væru ekki samkeppnisfærir við Ítali á þessu sviði. Ég skal engan dóm leggja á það, en sé það rétt, að Norðmenn séu ekki samkeppnisfærir við Ítali, þá þykir mér það skrítið, að þeir menn, sem útgerð stunda, skuli árið 1933 fá flutt inn færi frá Noregi fyrir 660 þús. kr. af 880 þús. kr., sem innflutningur á þessari vöru nam að verðmæti, árið 1934 frá Noregi fyrir 384 þús. kr. af 509 þús. kr. innflutningi alls og 1935 300 þús. kr. af 400 þús. kr. innflutningi alls. Það er undarlegt, ef þeir menn, sem þessa vöru hafa keypt, hafa einmitt hitt á það land, sem ekki er samkeppnisfært í þessari framleiðslu, og skipt svona mikið við það í öll þessi ár. Annaðhvort er það, að hv. þm. Vestm. hefir ekki rétt fyrir sér, eða það sýnir, að enginn af öllum þeim mönnum, sem flytja inn þessa vöru, fylgist með, hvar hentugast er að gera þessi innkaup.

Ég skal benda á það, að þegar hf. Hampiðjan fór að flytja inn hamp 1935, lækkaði verð á hampi, af því að hann var keyptur beint og ekki þurfti að borga tvöfalda fragt fyrst frá framleiðslulöndunum til Noregs og síðan frá Noregi og hingað, Það sjá því allir. hvert hagræði er í að losna við þessa millifragt og vinna úr hampinum hér í landinu sjálfu. Ég vil þess vegna út af því, sem hv. 1. þm. Rang. sagði, að sá sparnaður og aukin vinna, sem af því leiddi, að framleiða þessar vörur í landinu, komi ekki til neinna nota, gera grein fyrir þeim mismun, sem er á að kaupa hráefnið í þær þrjár tegundir garns, netagarn, límþráð og trollgarn, eða kaupa það unnið. Miðað við núverandi verð kostar tonnið af netagarni 4 þús. kr., en hampurinn, sem í það fer, kostar ekki nema 2200 kr. Mismunurinn á þessari einu tegund nemur því 1800 kr. Meðalinnflutningurinn hefir undanfarið numið 50 tonnum. Mismunurinn, sem þar er um að ræða, nemur því 90 þús. kr. Ef við tökum límþráðinn, þá kostar tonnið af honum 2900 kr., en hampurinn, sem þarf til þess að vinna tonn, kostar ekki nema 1800 kr.; mismunurinn er því 1100 kr. Flutt hafa verið inn 200 tonn síðastl. 3 ár. Það er því 220 þús. kr., sem munar á þessari tegund garns. Tonnið af saumagarninu kostar 2850 kr., en hampurinn, sem í það fer, 1350 kr. Mismunurinn er 1500 kr. Meðal innflutningur hefir verið 50 tonn, og mundu því á þessari tegund sparast 75 þús. kr. Ef allur sá spuni, sem þarf til þess að samsvara meðalinnflutningi á þessum þremur tegundum síðastl. 3 ár, væri framkvæmdur hér á landi, mundi við það sparast 385 þús. kr. Þetta er svo stór upphæð, að þó að þurfi vélar og hús, sem samanlagt mundu kosta 200 þús. kr., myndi sparast mikið strax á fyrsta ári, ef verksmiðjan næði þessum viðskiptum. Hinsvegar liggur í augum uppi, eins og hv. 6. þm. Reykv. tók fram, að hvorki línu-, neta- eða kaðlagerðin er skyldug að kaupa af Hampiðjunni, heldur geta þessi fyrirtæki eftir sem áður keypt garn annarsstaðar frá. Þess vegna á h.f. Hampiðjan sjálf mest á hættu, ef hún reynist ekki samkeppnisfær, hvað snertir verð og gæði.

Það, sem um er að ræða, með þessu frv., er, hvort á að styðja að því, að þetta fyrirtæki, hf. Hampiðjan, fái vernd gegn því, að annað samskonar fyrirtæki rísi hér upp og gera bæði óstarfhæf, vegna þess að ekki er meiri þörf fyrir þessar vörur í landinu en eitt fyrirtæki gæti fullnægt. Um annað er ekki beðið.

Ég lít þannig á, að óttinn við hækkað verð sé ekki á rökum reistur, m. a. vegna þess, að það eru útgerðarmenn, sem framleiða þetta handa sjálfum sér. Þess vegna er aðalatriðið að geta framleitt vöruna sem ódýrasta og bezta, en hitt er þeim aukaatriði, hvaða arð þeir fá af sínum hlut í fyrirtækinu.