30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í C-deild Alþingistíðinda. (1800)

91. mál, hampspuni

*Jóhann Jósefsson:

Það er rétt, að væri ekki von á því, að innflutnings- og gjaldeyrisn. notaði sér þetta frv., verði það að lögum, til þess að neita um innflutning á garni og öðru slíku, sem þarf í færi og net, væri siður ástæða til þess að vera á móti þessu frv. En við vitum, að innflutnings- og gjaldeyrisn. hagar sér svo, að þess vegna er það talsvert varhugavert að ýta undir þá aðferð, sem hún hefir gagnvart atvinnuvegunum, Innflutnings- og gjaldeyrisn. virðist blína á það, að erlendan gjaldeyri þurfi fyrir það, sem flutt er inn af veiðarfærum, en ekki fyrir það, sem framleitt er í landinu sjálfu.

Ég skal ekki orðlengja um þetta mál, en ég vildi samt sem áður leiðrétta það, sem hv. 2. þm. N.-M. var að snúa út úr því, sem ég sagði. Ég hélt því fram, og stend við það, að Ítalir spinna þráðinn svo ódýrt, að Norðmenn hafa ekki séð sér fært að keppa við þá í því efni. Ég héIt því ennfremur fram, að þeir keyptu þráðinn í færin og netin að mestu leyti frá Ítalíu, en spynnu hann ekki sjálfir. Hv. þm. bar á okkur útgerðarmenn rataskap út af þessu, af því að það er vitað, að útgerðarmenn hafa á undanförnum árum keypt færi frá Noregi, en ekki nema Iítið frá Ítalíu. En hv. þm. verður að gera sér ljóst, að þótt búið sé að spinna þráðinn, er veiðarfærið ekki tilbúið, og að það getur verið hagkvæmara að búa til veiðarfærið á öðrum stað en þráðurinn er spunninn. Það er, sem verkskiptingin leiðir í ljós, að einn þáttur í framleiðslunni getur verið miklu ódýrari í einu landi en öðru, þótt endanlega framleiðslan á iðnaðarvörunni fari ekki fram í því sama landi, heldur sé hún flutt hálfunnin til einhvers annars lands og þar lagt smiðshöggið á hana, og þannig er það með þessar fiskilínur. Norðmenn hafa aldagamla æfingu í því, að snúa færi og ríða net til fiskveiða í norðurhöfum, en það er ekki svo að skilja, að þeir hafi ekki getað spunnið þráðinn, heldur er það bara miklu dýrara en í framleiðslulandi hampsins, sem er Ítalía. Hv. frsm. upplýsti það, að Hampiðjan hafi ekki reynt sig á því, að vinna úr mjúkum hampi, heldur aðeins haft harðari lamp, Manilla og Sísal, og það er óséð, hvernig framleiðslunni reiddi af, þegar farið yrði að framleiða netagarn og efni í fiskilínur. Ég hefi nú bent á þessa staðreynd, og það getur hv. frsm. gert upp við sjálfan sig, hvort honum finnst líklegt, að Hampiðjan hér geti unnið miklu ódýrara en Norðmenn, og fyrst það borgar sig ekki hjá þeim, að spinna þennan hamp, hvort það muni þá borga sig hjá okkur. En það, sem ég óttast, eins og svo margir aðrir, er, að mismunurinn komi eingöngu niður á þeim, sem eiga að nota vörur þessarar iðngreinar. Hv. frsm. las upp nokkrar tölur um innflutning á garni, hvað verðið væri á netagarni hingað komnu, og hvaða verð væri á efni, sem þyrfti í netagarn, og talaði um mismun þar á milli. Ég ætla að taka einn póst úr upplestri hans. Hann sagði, að til landsins hefði flutzt á síðasta ári netagarn, sem kostaði 4000 kr. tonnið, en efni í sama tonn hefði ekki kostað nema 2200 kr., og að mismunurinn á efninu og garninu hefði verið 90000 kr. Hvað sannar þetta? Hv. þm. hefir enga sönnun fyrir því, að það verði ódýrara en 90000 kr., þegar efnið í þetta verður flutt inn og spunnið hér. Mér virðist, að ef hv. þm. hefir ætlað að sanna nokkuð með þessum tölum. þá hefði hann átt að sýna fram á, sem hann ekki gerði, fyrir hvaða verð Hampiðjan gæti gert þetta, og eins, að hún gæti gert það jafn vel úr garði og úr hinum útlenda þræði. Vegna þess að hv. þm. hefir ekki tromp á hendinni til þess að sýna fram á þetta, er þessi töluupplestur hans út í bláinn og sannar ekki neitt.