30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í C-deild Alþingistíðinda. (1804)

91. mál, hampspuni

Sigurður Einarsson:

Þegar mál eins og þetta er til umr., þá er ekki ástæða til að láta það liggja í láginni, að það eru margir, sem fást við framleiðslu og þurfa að kaupa vörur til sinna nota, og það einkum framleiðendur sjávarafurða, sem hafa kvartað undan því, að hin innlenda iðnaðarframleiðsla væri dýrari en útlend, eins og hv. 1. þm. Rang. tók sérstaklega fram, að ástæða væri til að óttast um, að hún væri ekki eins haldgóð og sú vara, sem fæst á erlendum markaði. Um veiðarfæragerðina er þetta sérstaklega vitað, þar sem fyrir gjaldeyrisnefnd hafa hvað eftir annað legið kvartanir um, að hún seldi vörur sínar dýrari en hægt var að að fá þær annarsstaðar. Þó að gjaldeyriserfiðleikar okkar séu miklir, þá má samt ekki taka svo mikið tillit til þeirra, að farið verði að íþyngja atvinnuvegunum á þann veg, að gefa innlendum iðjurekendum færi á því, að beita hóflausri einokun um verð og gæði. — Ég ætla að víkja nokkrum orðum að því, sem hv. þm. Hafnf. sagði, en hann er kominn inn á sömu Hraut og hv. 6. þm. Reykv, í þessu máli. Hv. þm. Hafnf. segir, að samkeppnin sé að drepa þessa litlu iðju. Þess vegna er farið fram á einkaleyfi handa þessu fyrirtæki, en svo segir hv. þm. Hafnf.. ásamt hv. 6. þm. Reykv., að það sé ekki á færi Alþingis að koma í veg fyrir, að þessi iðnrekstur verði settur á stofn, og svo bætir hv. þm. Hafnf. því við, að þetta fyrirtæki muni sennilega komast upp, enda þótt ekkert einkaleyfi fáist. Ef þetta er rétt, þá get ég ekki betur séð en að þetta frv. sé alveg óþarft, ok þetta fyrirtæki verði að lata sér nægja þá einkaleyfisaðstöðu, sem felst í takmörkun innflutningsleyfa og þeirri tilhneigingu gjaldeyrisnefndar, að lita í þau horn, þar sem fyrir er innlend framleiðsla. Hugsum okkur, að Hampiðjan nyti þessarar einkaleyfisaðstöðu, án þess að hafa 10 ára einkaleyfi í lögum frá þinginu, og svo vildi það reynast, að þessu fyrirtæki tækist ekki að komast nálægt því, sem unnt er að fá sambærilega vöru fyrir annarsstaðar að því er snertir verð og vörugæði, þá er ekki, þrátt fyrir hugsanlega tilhneigingu gjaldeyrisnefndar til að ívilna fyrirtækinu, lagavernd fyrir því, að landsmenn gætu ekki keypt þessa vöru annarsstaðar. En að því er hnigið ef þetta frv. yrði að lögum. Ég vil ekki gera lítið úr því, sem hv. 1. þm. Rang. sagði, að það mundi verða skoðað sem mjög sterk bending til gjaldeyrisnefndar að nota sér það með tilliti til innflutningsleyfa fyrir þær vörur, sem hér um ræðir, ef frv. þetta yrði að lögum. En aftur á móti geri ég ekkert úr því, þótt hv. þm. Ak. vitni í bréf, sem hv. inn. hefir fengið frá Hampiðjunni, þar sem aðstandendur fyrirtækisins lýsa yfir því, að þeir muni jafnan reka fyrirtækið á samkeppnisgrundvelli. Frv. sjálft felur ekki í sér neina tryggingu fyrir því, að þetta verði nokkurntíma annað en yfirlýsing ein.

Ég vil svo að lokum minna á það, að bátaútvegsmönnum, og yfirleitt öllum, sem slíka vöru kaupa, þykir sér enginn búhnykkur með því gerður, ef þetta frv. verður að lögum, því að þótt það sé vitanlega sjálfsögð skylda að hlynna að innlendum iðnaði, og mikil þörf fyrir gjaldeyri, má þó ekki bæta eitt böl þannig, að bíða við það annað meira, sem stefnt er að með því, að gera frv. þetta að lögum.