03.04.1937
Neðri deild: 30. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í C-deild Alþingistíðinda. (1816)

93. mál, hraðfrysting fisks

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Fyrir stuttu síðan var stofnaður með framlagi úr ríkissjóði fiskimálasjóður, sem stjórnað er af n., sem kölluð er fiskimálan. Þessum sjóði var ætlað að styrkja ýms nýmæli til hagsbóta fyrir sjávarútveginn, og hefir gert það; m. a. mun úr sjóðnum hafa verið varið miklu fé til þess að styrkja hraðfrystihús. Ég geri ekki ráð fyrir, að ágreiningur verði um það, að nauðsynlegt sé að styðja að því, að hraðfrystihús geti komizt upp, eftir því sem markaður fyrir hraðfrystan fisk kann að aukast eða vera fyrir hendi. Ég geri þess vegna ekki ráð fyrir, að ágreiningur verði um, að rétt sé að styrkja þessi hraðfrystihús, og mér finnst eðlilegt, að þau séu styrkt að ¼ kostnaðarverðs, eins og talað er um í þessu frv. Það er hliðstætt því, sem mjólkurbú hafa verið styrkt, og virðist það eðlilegt. En mér fyndist, að eðlilegast væri að halda því skipulagi áfram, sem byrjað hefir verið á, að efla fiskimálasjóðinn og láta þessa fjármuni koma úr honum sem styrk til hraðfrystihúsanna. En einkum er það 1. gr. frv., sem ég hefi við að athuga. Hún er um það, að ríkisstj. heimilist að ábyrgjast lán til þessara húsa, er nemi allt að 3/4 kostnaðarverðs. Nú vitum við það, að mönnum er ákaflega tamt að bera alstaðar fyrir sig ábyrgð ríkissjóðs, og þetta er orðið svo áberandi, að menn gera ráð fyrir því, að ekkert sé hægt að gera nema með ábyrgð ríkissjóðs. Nú verð ég að segja það sem mína skoðun, að ef ríkissjóður leggur fram 1/4 af kostnaðarverði húsa og véla, og á þeim stöðum, sem hraðfrystihúsin eru byggð, yrði lagt fram t. d. allmikið í vinnu, eins og reynslan hefir sýnt að hefir verið gert, þar sem slík hús hafa verið byggð, þá finnst mér að þessar eignir, hraðfrystihúsin, séu það vel veðhæf, að ekki þurfi fyrirfram að gera ráð fyrir því, að ómögulegt sé að fá lán út á þau. Og reynslan hefir verið sú, að til þessara hraðfrystihúsa hafa fengizt lán, án þess að ríkið ábyrgðist þau, hvað þá heldur, ef fastákveðið væri til þeirra framlag frá ríkinu, er næmi 1/4 af kostnaðarverði, auk framlags heima fyrir, sem þá yrði mismunandi, eftir því hverjar ástæður eru. Ég lít þannig á, að þessi 1. gr. eigi að fellast niður. Ég held, að óhætt sé að gera ráð fyrir því, að hægt verði að útvega lán út á þessi hús. Og ég verð að segja það, að ef þær stofnanir, sem lána fé til útgerðar, hættu aldrei meiru til, þá væri öllu vel borgið. Ég held, að þessi lán væru minni áhættulán heldur en mörg önnur lán, sem til útgerðarinnar eru veitt, eftir að búið er að ganga frá fjárhag frystihúsanna með einhverjum ríkisstyrk.

Ég held, þó að ég sé samþykkur efni 2. gr. frv., um að 1/4 kostnaðarverðs eigi að koma sem styrkur til þessara húsa, að það sé vafasamt, hvort eigi að setja það í sérstök lög, hvort það ætti ekki heldur að koma inn í aðra löggjöf, sem til er, um styrk til útgerðarinnar, lögin um fiskimálanefnd. En það er ekki neitt höfuðatriði, ef menn eru sammála um, að þessi styrkur sé veittur. Ég held líka, að setja þyrfti ákvæði um það, að þessi styrkur yrði ekki greiddur hraðara heldur en ákveðið væri af þeim, sem hefir yfirstjórn fiskimálanna, eða í fjárlögum. Það liggur í augum uppi, að ómögulegt er að skylda fiskimálasjóð eða ríkissjóð að greiða á einu ári til fjölda frystihúsa. Það er komin sú venja á með mjólkurbúin, að greiðsla til þeirra fer eftir því, hvað mikið er veitt til þeirra á fjárlögum, Þannig er hægt að ákveða, hvað mörg mjólkurbú komi til greina í hvert skipti.

Niðurstaðan ef þessu verður því sú, að ég er því meðmæltur, að hraðfrystihúsin fái þennan styrk, en ég tel hinsvegar, að ákvæði 1. gr. sé óþarft. Svo tel ég vafasamt að setja um þetta nýja löggjöf, og réttara væri að fella þetta inn í löggjöfina um fiskimálasjóð og fiskimálanefnd.