03.04.1937
Neðri deild: 30. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í C-deild Alþingistíðinda. (1825)

93. mál, hraðfrysting fisks

Sigurður Einarsson:

Hv. þm. Barð. var eitthvað í gær að beina því vinsamlega til mín, að ég þyrfti að leita mér lækninga. En ég sé ekki betur en að ég megi ráðleggja þessum hv. þm. að leita sér lækninga, ef hann getur ekki skilið jafnauðskilið mál eins og frystihúsmálið á Patreksfirði. Ég sagði, eins og flestir dm. munu hafa heyrt og skilið, nema hv. þm. Barð., að Patreksfirði vari þannig í sveit komið, að hann lægi bezt við allra vestfirzkra kauptúna til starfrækslu frystihúss. Ef hv. þm. hefir ekki heyrt þetta, þá er honum nokkur vorkunn, en hann tók fram, að hann hefði ekki skilið það, og þá er honum ekki við bjargandi.