16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í C-deild Alþingistíðinda. (1834)

93. mál, hraðfrysting fisks

*Thor Thors:

Ég vil þakka hv. sjútvn. fyrir það, að í aðalatriðum hefir hún tekið þessu máli vel. N. var sammála um að afgr. málið til hv. d., enda þótt nokkur ágreiningur sé meðal einstakra nm. um einstök atriði frv. Hv. þm. Ísaf. hefir að nokkru leyti gert grein fyrir sínum ágreiningi, og sömuleiðis flokksbróður hans. hv. 6. landsk. Ég skal láta þessi ágreiningsatriði bíða til 3. umr., en ég vil aðeins segja fáein orð út af því, sem hv. 6. landsk. sagði. Hann sagði, að sér fyndist það verulegur galli á frv., að ekki væri gert ráð fyrir, hvernig afla skuli þess fjár, sem veita á í þessu skyni. Það er ekki svo gott fyrirfram að áætla, hvað mikið fé þarf til þessa; það fer vitanlega eftir því, hversu margar umsóknir berast og hvað hæstv. ríkisstj. álítur nauðsynlegt til þess að reisa þessi hús, svo að fé til þessara fyrirtækja yrði að koma sem fjárveiting eftir á. Annars skal ég láta þess getið, að það er ekkert kappsmál fyrir okkur flm., hvort féð er veitt beint úr ríkissjóði eða fiskveiðasjóði, en annars mun þetta heyra undir ríkisstj., og við leggjum áherzlu á, að það sé ríkissjóður, sem hafi með úthlutun þessa fjár að gera, hvort sem það verður veitt beint úr ríkissjóði eða úr fiskveiðasjóði.

Ég þykist sjá fram á, að málið muni ná fram að ganga til 3. umr. og verði þar frekar rædd einstök atriði þess. Ég skal lýsa yfir því fyrir hönd okkar flm., að við erum reiðubúnir til þess að semja um allar skynsamlegar brtt. við þetta mál, því að við leggjum höfuðáherzluna á það, að málið nái fram að ganga í lagaformi á þessu þingi, svo að landsmenn geti vita, hvers þeir mega vænta í sambandi við þessi fyrirtæki, og við leggjum þeim mun meiri áherzlu á, að málið nái nú fram að ganga, þar sem vitað er, að dragnótaveiði verður heimiluð, og þess má vænta, að mikið verði unnið að dragnótaveiði nú þegar næsta sumar.