07.04.1937
Efri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

13. mál, Kreppulánasjóður

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Í framhaldi af því, sem ég sagði við 2. umr., hefi ég lagt fram á þskj. 221 brtt. við brtt. á þskj. 147. Efni brtt. minnar er í stuttu máli það, að það eru gerðar breyt. á því, hvernig verja á fé, sem eftir er í kreppulánasjóði, til lánveitinga samkv. till. á þskj. 147, en þar er gert ráð fyrir því, að þau sveitarfélög, sem ekki fengu lán úr sjóðnum árið 1936, skuli koma fyrst, en í mínum brtt. er ætlazt til þess, að fyrst komi til afgreiðslu lánabeiðnir frá bæjarfélögum, sem ekki fengu fullnægjandi afgreiðslu hjá sjóðnum 1936. Ástæðan til þessara brtt. er sú, að það liggja fyrir fullkomnar upplýsingar frá stjórn kreppulánasjóðs um það, að allir hreppar, sem um lán sóttu, hafi fengið nokkurnveginn fullnægjandi afgreiðslu, þó að það hafi skort á, ekki hjá einstökum hreppsfélögum, heldur stærri héruðum, að þau hafi fengið lán til að breyta skuldum, sem þau standa í vegna bygginga læknisbústaða og sjúkraskýla og annars þessháttar, en í b-lið till. á þskj. 147 er gert ráð fyrir heimild til lánveitinga í þessu skyni.

Hinsvegar er svo ástatt um suma bæina, að þeir fengu ekki fullnægjandi lán, eins og t. d. Hafnarfjörður, ekki einu sinni það, sem um var beðið, og auk þess ber þess að gæta, að enda þótt haldið væri, þegar lánin voru tekin, að þau mundu verða fullnægjandi, þá hefir það sýnt sig, að sumum er full þörf á viðbótarlánum, og það er enginn vafi á því, eins og árferðið hefir verið síðustu árin, að það er meiri þörf á lánveitingum í þessu efni í kaupstöðum en í sveitum, og einmitt vegna þessara staðreynda ber ég fram þessar brtt. á þskj. 221.

Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta, en get að öðru leyti vísað til þess, sem ég sagði við 2. umr., og vænti ég þess, að hv. d. geti fallizt á þetta.

Að vera að bjóða þeim sveitarfélögum lán, sem ekki hafa áður sótt um þau og ætla má, að geti komizt af án þeirra, tel ég óþarft með öllu.