23.03.1937
Neðri deild: 25. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í C-deild Alþingistíðinda. (1853)

94. mál, rafmagnsveita Reykjavíkur og sala á rafmagnstækjum

*Flm. (Pétur Halldórsson):

Herra forseti! Ég þarf ekki að hafa mörg orð við 1. umr. til þess að gera grein fyrir efni þessa frv. Það er flutt eftir eindreginni ósk bæjarstjórnar Rvíkur og miðar að því, að gera mönnum aðgengilegt að kaupa sér rafmagnsáhöld, þegar Sogsvirkjunin tekur til starfa væntanlega næsta haust. Það fer fram á það, að rafmagnsveita Rvíkur fái heimild í eitt ár til að gera ráðstafanir til þess, að selja megi þessi tæki ódýrt, þannig að það verði til að hvetja alla þá, sem ná til Sogsvirkjunarinnar, til að hraða því, að virkjunin nýtist sem fyrst og bezt, og auk þess sem þetta yrði gagnlegt fyrir þá, sem koma til með að nota rafmagn frá Sogsvirkjuninni, mundi þetta einnig spara innflutning á kolum og jafnvel olíu að því skapi, sem tækin kæmu því til vegar, að Sogsvirkjunin yrði nýtt sem allra fyrst. Þessi tilgangur frv. er vitanlega skýr, og ég efast ekki um, að allir hv. þdm. vilji vinna að þessu. Það, sem kynni að geta verið því til fyrirstöðu, er, að tekjur ríkissjóðs af þessum varningi falla niður, þegar þessar vörur eru fluttar til landsins, en mér finnst það réttlætis- og hagsmunamál fyrir alla aðilja, ef hægt er að afla þessara tækja bæði fljótt og ódýrt fyrir næsta ár.

Ég vil svo óska, að frv. verði vísað til hv. fjhn. og 2. umr.