23.03.1937
Neðri deild: 25. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í C-deild Alþingistíðinda. (1854)

94. mál, rafmagnsveita Reykjavíkur og sala á rafmagnstækjum

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Á þessu stigi málsins vil ég aðeins láta þess getið út af ummælum hv. 1. flm., að þegar þetta mál var til meðferðar í bæjarstjórn Rvíkur, þá flutti Sjálfstfl. þar till., sem mun hafa gengið í mjög líka átt og þetta frv. Hinsvegar flutti ég f. h. Alþfl. till., sem var nokkuð á aðra lund, en afgreiðslu þeirrar till. lauk þannig, að Alþfl. var ekki viðstaddur atkvgr., því að þessi fundur í bæjarstjórninni var haldinn kl. 6 að morgni í svartasta skammdeginu, eins og menn muna. Ég vil geta þess, að þarna kom fram álit meiri hl. í bæjarstjórn Rvíkur, en við höfðum nokkra sérstöðu í þessu máli, þótt við vildum vitanlega, að gert yrði af löggjafans hálfu allt, sem unnt væri, til þess að greiða fyrir því, að notkun rafmagnstækja, eftir að Sogsvirkjunin væri

komin til framkvæmdar, gæti orðið sem almennust. Hinsvegar virðist mér við lauslega athugun á frv., að fleira komi til athugunar í sambandi við það. Ég vil spyrja hv. 1. flm., hvað hann á við í 1. gr., þar sem talað er um rafmagnstæki, hvort hann á við potta og pönnur og fleiri þess háttar rafmagnstæki, því að mér er kunnugt um, að það er ekki hvað sízt nauðsynlegt að greiða fyrir því, að menn geti fengið með góðum kjörum slík tæki, sem óhjákvæmileg eru í sambandi við suðu á rafmagni, en þetta er ekki skýrt fram tekið í 1. gr. frv. Hinsvegar minnist ég þess, að í till. okkar alþýðuflokksmanna í bæjarstjórn var kveðið á um þetta.

Í öðru lagi virðist mér það ekki heldur ljóst í frv., hvort líka sé átt við lampa í þessari tímabundnu heimild. Enda þótt ég ætli ekki að fara að ræða einstakar gr. frv., þá vil ég geta þess í sambandi við 2. gr., að ég álít það mikinn ljóð á frv., að þar er tekið fram, að tækin skuli aðeins selja gegn staðgreiðslu. Ef virkilega er meiningin að greiða fyrir, að almenningur geti eignazt þessa hluti, þá álít ég, að það sé einmitt nauðsyn að tryggja það, að fólk, sem bágast á með að afla sér þeirra vegna fjárhagsörðugleika, eigi kost á að fá þá með afborgunum. — Mér þótti rétt að vekja athygli á þessum atriðum þegar við 1. umr., en vænti þess hinsvegar að fá tækifæri til að athuga þessi og önnur atriði frv. nánar.