23.03.1937
Neðri deild: 25. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í C-deild Alþingistíðinda. (1855)

94. mál, rafmagnsveita Reykjavíkur og sala á rafmagnstækjum

*Emil Jónsson:

Án þess að ég ætli að blanda mér inn í meginmál frv., þá tel ég rétt að benda á eitt atriði, sem mér finnst skipta nokkru máli. Á síðasta þingi var samþ. heimild fyrir ríkisstj. til að leggja fram nokkurt fé til stofnunar verksmiðju til að framleiða tæki þau, sem hér er um að ræða. Ríkissjóður hefir þegar lagt fram þetta fé og sömuleiðis aðrir aðiljar, og verksmiðjan er á góðum vegi með að taka til starfa. Ef nú þetta frv. nær fram að ganga, þannig að tilbúin tæki verði flutt inn tollfrjáls, en efni áframhaldandi tollað, þá er um leið settur fóturinn fyrir þessa verksmiðju. Þess vegna er það lágmarkskrafan, sem verður að gera, að um leið og felldur er niður tollur á tilbúnum tækjum, verði einnig felldur niður tollur á efni til þessara tækja, þannig að verksmiðjan hafi a. m. k. ekki lakari aðstöðu heldur en aðrar iðngreinar í þessu landi. Ég veit, að hv. þm. munu skilja þetta, og ég vænti þess, að hv. n. taki einnig þessa hlið málsins til athugunar.