07.04.1937
Efri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

13. mál, Kreppulánasjóður

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það eru fá orð út af brtt. á þskj. 221.

Allshn. tók til meðferðar uppástungu þá, sem fram kom við 2. umr. frá hæstv. atvmrh. um að skipta um a- og c-lið brtt. á þskj. 147. Það varð ekki samkomulag um þetta í n.; það voru tveir á móti því að fara þessa leið, en einn með því, og ég fyrir mitt leyti verð að segja, að ef a-liður verður orðaður eins og hér segir á þskj. 221, þá kemur sennilega ekki til þess, að b-liður komi til framkvæmda, því að hér stendur, að lána skuli þeim bæjarfélögum, sem á árinu 1936 fengu ekki fullnægjandi afgreiðslu úr sjóðnum. Ég er hér um bil viss um, að bæirnir koma með þær kröfur, að þeir éti upp allt það fé, sem hér er eftir, ef það á að veita þeim lán eftir því, sem þeir álíta, að á kunni að vanta, að þeir hafi fengið fullnægjandi afgreiðslu.

Ég er sannfærður um, að það mundu ekki koma nema örfáar beiðnir frá sveitarfélögunum, en ég veit af 2–3 hreppum, sem höfðu hug á því að fá lán, en fengu ekki, og mér finnst, að þeir þurfi að fá lán, ef unnt er, en ef brtt. hæstv. ráðh. verða samþ., þá er ég sannfærður um, að það kemur ekki til þess, að nokkurt sveitarfélag fái lán. Sum bæjarfélögin fengu eins há lán og sjóðsstjórnin áleit, að tryggt væri að lána, og ég get ímyndað mér, að sum þeirra fari fram á viðbótarlán.

Ég skal viðurkenna, að Hafnarfjörður hefir hér sérstöðu, og ég er líka sannfærður um, að þó að brtt. n. yrði samþ., þá er enginn efi á því, að hann fengi lán.