05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í C-deild Alþingistíðinda. (1874)

101. mál, lágmarksverð á sauðakjöti innanlands

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti! Mál þetta hefi ég flutt á 2 undanförnum þingum og hefði þess vegna getað sparað mér svo að segja alveg framsöguræðu, ef það væri ekki nokkuð breytt nú. Ég mun samt sem áður fara um það nokkrum orðum. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að kjötsölulögin voru sett út úr þeim miklu vandræðum á kjötframleiðslunni, sem leiddu til þess, að hún svaraði alls ekki kostnaði. Áður en þessi l. voru sett, var innanlandsverðið á kjöti algerlega háð verðinu á erlendum markaði, og það, sem verst var, var, að fara varð eftir verðinu frá næsta ári á undan, og gátu þess vegna af því orðið talsverð mistök um að ákveða verð á kjötinu. Þessi nýju l. áttu að bæta úr þessum vandræðum, sumpart með verðskráningu, og sumpart með því að draga úr dreifingarkostnaðinum, þ. e. a. s. koma því til leiðar, að framleiðandinn fengi sem mest heim til sín af því verði, sem neytandinn þarf að gefa fyrir kjötið. Aukinni kjötsölu átti að ná með ýmiskonar fyrirgreiðslu fyrir sölunni. Ekki þarf að orðlengja það, að almennt munu bændur ekki telja verð það, sem þeir fá heim fyrir kjöt sitt, komið það hátt, að sauðfjárbúskapur beri sig undir venjulegum skilyrðum. En um það síðara er vitanlegt, að það hefir að miklu leyti mistekizt. Án þess að ég vilji fara að hefja gamlar deilur, vil ég minna á, að allmikill hluti af deilunum, sem um mál þetta stóðu á þingunum 1935–36, var um það, hvort kjötneyzlan í landinu hefði aukizt eða minnkað. Þá leyfði ég mér að halda því fram, að þessi fyrirgreiðsla, sem ætlazt var til, að ríkisvaldið stæði fyrir, væri langt frá því að auka kjötsöluna, heldur þvert á móti. Nú er þó mun margbreytilegri meðferð á kjötframleiðslunni en áður var. En markaður fæst mestur með því, að sem flestir menn, eins og t. d. bændur, vinni að sölunni af alúð og af því, að þeir hafa hagsmuni af því að koma vörunni í verð, og leiði menn til að nota hana og neyta í sem ríkustum mæli. Þetta hlýtur að auka kjötneyzluna, en hitt, að kippa burt þessum kröfum að miklu leyti, hlaut frá mínu sjónarmiði að draga úr kjötneyzlunni. Nú er að mínu áliti komið merkilegt vitni í þessu máli. Það er skýrsla í áliti því, sem skipulagsnefnd atvinnumála hefir gefið út. Þar hefir hún skráð á bls. 174 neyzlu kjöts innanlands frá aldamótum. Þessi skýrsla er mjög merkileg, ef ganga má út frá því, að hún sé nærri réttu lagi, þó að það sé nokkrum erfiðleikum bundið að finna út, hve miklu kjöteigendur eyða í bú sín af kjöti, en gera má ráð fyrir, að það breytist ekki mikið frá ári til árs, svo að sú breyting, sem fram kemur af þessum skýrslum, mun sýna nokkuð rétta mynd af því, hvernig kjötneyzlan hefir minnkað frá ári til árs. Vitanlega er aðalbreytingin, sem skýrslan sýnir sú, að neyzla kjöts hefir aukizt, og virðist hún aðallega hafa aukizt, þegar frystihús komu upp í bæjum og þorpum kringum allt land, og menn þar með áttu kost á að fá frosið kjöt í þessum fleirbýlum, en áður urðu menn svo að segja eingöngu að nota kjöt, sem verkað var í salt eða reyk. Í skýrslunni er líka auðséð, að nokkrar sveiflur verða á þessu, og þær fara nokkuð eftir því, hvað kjötverð er hátt og hvernig ástæður almennings eru í sveitum og bæjum á hverjum tíma. Eins og ég sagði áðan, er ein aðalbreytingin, sem skýrslan sýnir, sú, hve kjötneyzlan hefir aukizt, en þó er eitt annað, sem er sérstaklega eftirtektarvert í þessari skýrslu, það er breytingin, sem verður á neyzlunni innanlands fyrstu árin, sem skipulag samkv. kjötlögunum kemst á. N. reiknast svo til, að árið 1933 hafi kjötneyzlan á mann verið 51 kg., en næsta ár á eftir hefir hún hrapað niður í 30 kg. á mann. Þetta er stórt stökk, en ekki er hægt að halda fram, að n. hafi staðið verr að vígi að reikna út neyzluna á þessu tímabili en nú síðar, því að nú eru til gleggri skýrslur um það kjöt, sem selt er innanlands, en árin þar á undan. Eftir því, sem ég hefi getað aflað mér upplýsinga um, hefir neyzlan alls ekki aukizt á árinu 1935; það mun vera nokkurn veginn sama kjötmagn, sem er selt á innanlandsmarkaðinum þá og 1934. Hvernig þessu hefir verið farið 1936, veit ég ekki, en það getur hv. form. kjötverðlagsnefndar sjálfsagt upplýst. En ekki er hægt að sjá, að neinar hagstæðar sveiflur hafi komið fram, þar sem neyzlan lækkar svo mjög annað árið, sem n. starfar, en þó hefði verið eðlilegt, að kjötneyzlan hefði aukizt, þar sem fólkinu hefir fjölgað, og verður því að ganga út frá því sem gefnu, að skipulaginu sé um að kenna.

Ég vil ekki segja, að þetta stökk niður á við hafi orsakazt af því, að kjötsölulögin voru sett; þar kemur margt til greina. Má vera, að fólk hafi ekki getað keypt eins mikið kjöt þessi síðari ár, en það kemur ekki til mála, að þetta stóra stökk stafi eingöngu af því. Ég tel nauðsynlegt, að gerðar séu athuganir á því, hvort ekki er hægt að bæta úr þessu, og eins því, að því hefir farið fjarri, að minnkað hafi bilið milli þess, sem neytendur greiða fyrir kjötið, og þess, sem framleiðendur fá heim til sin. Ég held, að það sé rangt að gera málið að svo miklu kappsmáli, að ekki verði leitað nýrra ráða, þegar sterkar líkur, ef ekki sannanir, eru til fyrir því, að lögin hafi ekki náð tilgangi sínum. Margt nýtilegt getur verið í lögunum, þótt ákvæði þeirra geri, að ekki hefir náðst fullkominn árangur. Ég sé ekki aðra betri leið til lagfæringar á lögunum en að gera þau öll miklu einfaldari í framkvæmd. því er mitt frv. ekki brtt. á kjötsölulögunum, heldur nýtt frv., er komi í stað núgildandi laga. Aðalkjarni frv. er að hafa lítið annað en verðskráningu á kjöti, setja á það lágmarksverð en lofa öllum, sem hafa hagsmuni af því og áhuga fyrir að koma kjötinu út að sjá um að afla því sem flestra og stærstra kaupenda innanlands, og skal ekki farið út í einstakar greinar málsins. Í frv. hefi ég látið haldast, að auk þess, sem verðskráning fari fram, sé landinu skipt í verðlagssvæði, og reistar séu skorður við því, að kapphlaup fari fram um beztu markaðina, og ennfremur læt ég halda sér ákvæði um hömlur á flutningi milli verðlagssvæða. Með verðjöfnun verður þeim bætt upp, sem skaða hafa af þessu.

Ég geri ráð fyrir, að frv. fari til landbn. að þessari umr. lokinni, og sé ég ekki ástæðu til að halda langa ræðu um það á þessu stigi málsins. Vænti ég, að hv. landbn. leggi sig í framkróka með að finna fulla lausn málsins, og mun ég ekki að neinu leyti móðgast af því, þótt n. breyti frv. mínu, en ég tel ekki viðunandi, að enginn geri ákveðna tilraun til að bæta úr því ástandi, sem nú er, en það er, að verð það, sem framleiðendur fá heim til sín, er enn ekki það hátt, að sauðfjárbúskapur geti borið sig, en verð það, sem neytendur greiða, er það hátt, að framleiðendur ættu að geta fengið meira af því. Annað er það, að framleiðslan ætti að aukast mikið við vaxandi fólksfjölda og við stóraukna fjölbreytni í meðferð kjötsins.

Ég óska svo, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til landbn. og 2. umr.