12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í C-deild Alþingistíðinda. (1885)

102. mál, félagsdómur

*Thor Thors:

Enda þótt mál það, sem nú er á dagskrá og beint liggur fyrir til umræðu, sé frv. til laga um félagsdóm, en það eru svipaðar till. um vinnudómstól frá hendi hv. framsóknarmanna og við sjálfstæðismenn höfum áður borið fram hér á þingi, þá verð ég að nota þetta tækifæri til að ræða almennt um vinnulöggjöf. Ég mun því í þessari ræðu leitast við að skýra í heild tilgang og nauðsyn vinnulöggjafar og jafnframt geta um afstöðu og aðgerðir sjálfstæðismanna í þessum efnum hér á háttv. Alþ.

Það er Sjálfstfl., sem hefir æskt þessara umræðna. Flokknum er ætíð ljúft að mega ræða vandamálin við þjóðina og í áheyrn hennar, en við teljum sérstaklega æskilegt og nauðsynlegt að ræða einmitt um vinnulöggjöfina á slíkum vettvangi, að mál vort megi viða heyrast. Þetta málefni hefir nefnilega verið svo geipilega afflutt og rangfært af hendi kommúnista og bandamanna þeirra í Alþfl., að full þörf er gagngerðrar leiðréttingar.

Sá voði, sem vinnulöggjöfinni er beint gegn, eru vinnudeilur og vinnustöðvanir. Vinnudeilurnar eru gamalt og alþjóðlegt vandræðamál, þjóðfélagsböl, sem stöðugt gerir vart við sig og færist sem faraldur frá einum stað til annars. Þær eru hagsmunaágreiningurinn í þjóðfélögunum, togstreitan um skiptingu arðs atvinnulífsins milli hinna ýmsu aðilja þess. Þessi ágreiningur lifir sem eldglóð í hverju þjóðfélagi og þjóðskipulagi. Hann kemur misjafnlega skært í ljós eftir því, hvort blásið er að eldglóðinni eða reynt að lægja hana. Ýmsir halda því fram, að þessi deilu- og ófriðarefni séu aðeins fylgihnettir núverandi þjóðskipulags. Það má þó ljóst vera, að ekkert skipulag getur komizt hjá greinilegri verkaskiptingu milli borgaranna og þar af leiðandi óánægju- og ágreiningsefni um starfssvið og afrakstur. Breytt skipulag færir þessar deilur aðeins í breytt form. Sameign og samvinna mannanna valda hagsmunastreitu milli þeirra eigi síður en séreign þeirra. Hin ytri form breyta ekki eðli mannanna. Friður á jörðu innan þjóðfélaganna og milli þeirra er fögur og háleit hugsjón, sem stöðugt biður lægri hlut í viðureigninni við kaldan veruleikann. — Vinnudeilurnar verða illu heilli ekki umflúnar. Vandamálið er því það, hvernig er unnt að lægja þær og afstýra því í lengstu lög, að þær leiði til vinnustöðvunar. Menn ætti ekki að þurfa að greina á um það, að vinnustöðvanir séu böl, sem rétt sé að leitast við að bægja frá dyrum hvers þjóðfélags. Oftast eru þær til tjóns báðum þeim aðiljum, er þær heyja og ætíð á kostnað þjóðfélagsins í heild.

Það er fyrst upp úr aldamótunum, að atvinnubylting verður í þjóðlífi okkar Íslendinga, er landsmenn taka í þjónustu sína þau tæki til framleiðslu sjávarafurða, sem stórvirkust og aflasælust eru. Við það skapast stóriðja til sjávar. Fólkið tekur að streyma úr sveitunum til sjávarins, og straumur þessi fer stöðugt vaxandi. Afleiðingin verður sú, að kaupstaðir landsins og sjávarþorp stækka óðfluga og verkaskipting manna og stéttaskipting verður greinileg. Aðiljar framleiðslunnar verða tveir, annarsvegar atvinnurekendurnir, er ráða yfir framleiðslutækjunum, hinsvegar verkamennirnir, er lifa á vinnu sinni. Deilurnar um vinnukjör tóku hér sem annarsstaðar að gera vart við sig, er þessi atvinnuþróun var orðin. Fyrsta stóra vinnudeilan og vinnustöðvunin varð þó eigi fyrr en árið 1916, er hásetar á togurunum gerðu verkfall. Síðan hafa vinnustöðvanir verið mjög tíðar ýmist af hendi verkamanna eða vinnuveitenda. Á árunum 1916– 1929 eru t. d. 5 vinnustöðvanir við togarana. Tvær þeirra eru að kenna verkföllum af hendi sjómanna, en þrjár má kenna verkasviptingu eða verkbanni af hendi útgerðarmanna. Sumar þessar deilur voru mjög langvinnar, stóðu jafnvel mánuðum saman, og talið er, að verkfallið í ársbyrjun 1929 hafi svipt sjómenn og verkamenn á 3. millj. kr. í kaupgjald. Á síðustu árum hafa vinnustöðvanir mjög færzt í vöxt. Árið 1935 voru ekki færri en 10 vinnustöðvanir víðsvegar á landinu. Árið 1936 var skellt á 6 vinnustöðvunum. Í mörgum tilfellum var þetta næsta ástæðulítið og mundi aldrei hafa komið til, ef skynsamleg vinnulöggjöf hefði verið í gildi hér. Nú sem stendur eru víðtækar vinnustöðvanir ýmist framkvæmdar eða haft í hótunum um framkvæmd þeirra. — Þetta sýnir, að okkar þjóðfélagi er fyllsta nauðsyn þess, að eignast réttláta og sanngjarna vinnulöggjöf, svo sem allar aðrar siðaðar þjóðir, og engin skynsamleg rök geta mælt gegn því. Aðeins ofríki og hóflaus valdagirni örfárra manna yfir heill og hagsmunum fjöldans geta staðið í vegi fyrir slíkum þjóðhollum ráðstöfunum.

Íslenzk löggjöf er enn þann dag í dag bæði fáþætt og fátækleg á sviði vinnulöggjafar. Þar eru nú í gildi aðeins tvenn lög. Önnur þeirra eru lög nr. 33 frá 1915 um bann gegn verkföllum opinberra starfsmanna. Þar er svo ákveðið, að hver sá, er tekur þátt í verkfalli, þar sem starfið er unnið samkvæmt embættisskyldu eða sýslanar í þarfir landsins. Landsbanka, spítala, sveitar, sýslu eða kaupstaðar skuli sæta sektum frá 500 til 5000 kr. eða fangelsi eða embættis- eða sýslanamissi. Þetta eru því rétt nefnd þræla- og tugthúslög, og það má merkilegt heita, að hæstv. atvmrh. sósíalista, sem verið hefir við völd í nærfellt 3 ár, en nú er að hallast út úr ráðherrastólnum, skuli ekki hafa hreyft legg né lið til að fá þessi ófrelsislög afnumin. Og enginn kommúnisti hefir öskrað gegn þessum lögum. Hvað er um hinn dýrmæta verkfallsrétt þessara manna?

Hin lögin um vinnumálefni eru lög nr. 55 frá 1925, um sáttatilraunir í vinnudeilum. Þar hóf ríkisvaldið í fyrsta sinn bein afskipti af vinnudeilum með því að láta sérstakan sáttasemjara leitast við að leiða aðilja til samkomulags og reyna að afstýra vinnudeilum á þann hátt. Þá má fullyrða, að þessi lög hafa haft mjög heillavænleg áhrif. En þau ná of skammt. Þau voru á sínum tíma sniðin eftir þáverandi löggjöf á Norðurlöndum um þetta efni. Síðan hafa Norðurlandaþjóðirnar allar breytt þessari löggjöf og aukið hana. Við erum því einnig á þessu sviði vinnulöggjafar orðnir á eftir tímanum. Nauðsyn okkar þjóðfélags heimtar nú breytingar og umbætur.

Þegar við hverfum að því ráði, að skipa þessum viðkvæmu málum með lögum, er rétt, að við lítum til annara þjóða og hagnýtum okkur það af reynslu þeirra, sem heillavænlegast hefir gefizt. Eins og áður er getið, hafa allar menningarþjóðir skipað þessum málum með lögum. Það hefir nú þegar verið skýrt í þessum umræðum, hverjar eru aðgerðir þjóðanna í þessum efnum. Ég skal því ekki fjölyrða um það. Ég geri ráð fyrir, að enginn hugsandi maður vilji taka upp þá stefnu einræðisríkjanna, Ítalíu, Þýzkalands og Rússlands, að ríkisvaldið ákveði vinnukjör og kaupgjaldið að öllu eða mestu leyti. Að sjálfsögðu hljóta kommúnistar að fagna innilega og í hjartans einfeldni þeirri stefnu einræðis- og ofsóknarherrans í Moskva, að gera alla verkamenn að ósjálfráðum og ánauðugum þrælum ríkisins. En út fyrir hóp kommúnista og nánustu bandamanna þeirra munn allir hafa andstygð á slíkri kúgun. Ég geri ekki heldur ráð fyrir, að sanngjarnir menn vilji fara þá leið, sem stjórn Leon Blums í Frakklandi, sem er samfylking sósíalista og kommúnista, fór um síðastliðin áramót, að lögleiða gerðardóm í vinnudeilum, er skammtar verkamönnum launin. Ég geri ekki heldur ráð fyrir, að menn telji almennt fært að hniga að því ráði, sem hinir rólegu og varfærnu nágrannar vorir, Bretar, hafa þó farið, að lýsa ólöglegar allar allsherjarvinnustöðvanir og allar þær vinnustöðvanir, sem telja má, að beint sé gegn ríkisstjórninni og þjóðfélaginu. Ég geri ekki heldur ráð fyrir, að menn vilji almennt taka upp þá leið, sem sósíalistar í Danmörku eru mjög farnir að tíðka í einstökum tilfellum, nú síðast fyrir nokkrum dögum, að ákveða verkalaunin með sérstökum lögum. Ég býst við, að flestum geti komið saman um, að rétt sé að fylgja hinni almennu sanngjörnu vinnulöggjöf, sem Norðurlandaþjóðirnar hafa lögfest og allir ábyrgir stjórnmálaflokkar þar hafa verið að mestu sammála ýmist um að lögfesta eða að halda í gildi. Allar þær þjóðir á Norðurlöndum, sem okkur eru skyldastar, Danir Norðmenn og Svíar, skipa öllum atriðum þessara mála með lögum. — Á þessari löggjöf byggðum við sjálfstæðismenn frv. það um vinnudeilur, sem við lögðum fyrst fyrir háttv. Alþingi 1936 og attur nú í ár, og flutt er af hv. 8. landsk. og mér. Í það frv. tókum við aðeins slík ákvæði, sem reynzt hafa heillavænleg og friðvænleg með þessum frændþjóðum vorum.

Ég verð nú að neyta færis til að skýra það frv., því að það markar að aðalefni afstöðu sjálfstæðismanna til þessara mála, er vér nú ræðum um.

Efni frv. okkar sjálfstæðismanna er í aðalatriðum þetta:

Í fyrsta lagi eru ákvæði um samninga milli verkamanna og vinnuveitenda, og er þess krafizt, að samningar séu jafnan skriflegir og ákveðinn samningstími og uppsagnarfrestur í hverjum samningi. Ennfremur er svo ákveðið, að bannað er að skella á vinnustöðvun út af ágreiningi um gildi samninga og efni þeirra eða út af réttarágreiningi aðilja, sem aðeins táknar það, hvort annarhvor þeirra sé að svíkja gerðan samning, heldur skal slíkum ágreiningi vísað til sérstaks óhlutdrægs dómstóls, þar sem báðir aðiljar eiga sína talsmenn og ég síðar mun greina frá. Loks eru sett ákveðin skilyrði fyrir því, að unnt sé að koma fram vinnustöðvun, hvort sem um er að ræða verksviptingu af hendi vinnuveitenda eða verkfall af hendi verkamanna. Það þarf til þess samþykkt með 3/4 atkvæða, greiddum á löglegum fundi. Þó vinnustöðvun sé samþ., má hún eiga hefjast fyrr en að 7 dögum liðnum. — Þetta bil er sett, svo að unnt sé að leita sátta innan þessa frests. Allt eru þetta nákvæmlega sömu skilyrðin og nú gilda í Danmörku og hafa gilt þar frá 5. sept. 1899, að báðir aðiljar, verkamenn og vinnuveitendur, gerðu hina svokölluðu septembersætt, eftir langvarandi deilur. Þessi sætt er einskonar stjórnarskrá í öllum vinnumálefnum Dana og hefir haft mjög giftusamleg áhrif þar í landi.

Þá eru í frv. okkar ákvæði um sáttatilraunir í vinnudeilum. Eru þau mjög aukin, frá því sem nú er í íslenzkum lögum. Samkv. því skal atvmrh. skipa einn ríkissáttasemjara og þrjá héraðssáttasemjara, sem skulu búsettir á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði. Eins og í l. frá 1925 er sáttasemjurum ætlað að fylgjast með í því, sem gerist á sviði atvinnulífsins, einkum ef líklegt má telja, að vinnustöðvun sé yfirvofandi, og skulu þeir standa í nánu sambandi hverjir við aðra. Ef sáttasemjari fær vitneskju um, að vinnustöðvun sé í aðsigi, getur hann krafizt skýrslna af aðiljum um málið. Aðiljum er skylt að tilkynna sáttasemjara, ef þeir hyggjast að skella á vinnustöðvun. Vinnustöðvun má ekki hefja, fyrr en liðnir eru 4 sólarhringar frá því, að sáttasemjari fékk slíka tilkynning. Ríkissáttasemjari skal banna vinnustöðvun, meðan á sáttatilraunum stendur; þó getur hann aldrei tafið vinnustöðvun lengur en 10–14 daga. — Eru þetta samskonar ákvæði og lengi hafa gilt í Noregi. Eru þessir frestir settir til þess að freista þess í lengstu lög, að afstýra þeim vandræðum, sem af vinnustöðvun leiða. Loks eru ákvæði um, að tiltekið atkvæðamagn þurfi til að samþykkja miðlunartillögu, sem sáttasemjari hefir borið fram, og er það sama atkvæðamagn og Norðmenn heimta í lögum sínum. Engin slík regla er í núgildandi lögum okkar. Af öllu þessu er auðsætt, að í frv. okkar sjálfstæðismanna eru ákvæðin um sáttatilraunir mjög aukin og skylda og vald sáttasemjara verulega skerpt.

Þá eru í frv. okkar ákvæði um að koma upp svipuðum vinnudómstól og hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa. Vinnudómstóllinn skal skipaður 5 mönnum. Hæstiréttur tilnefnir 3 menn, sem allir séu lögfræðingar og ekki mega hafa þá aðstöðu, að þeir geti talizt vilhallir í málefnum vinnuveitenda eða verkamanna. Auk þess eigi sæti í dóminum 2 menn, sem tilnefndir séu af aðiljum sjálfum. Þessi dómstóll skal hafa það hlutverk að dæma um allan ágreining út af þeim samningum, sem gilda milli verkamanna og vinnuveitenda. Auk þess eru tiltekin mál, sem annarhvor þessara aðilja getur kært til dómstólsins.

Þá eru í frv. nákvæm fyrirmæli um málsmeðferð fyrir vinnudómstólnum, og skal allt kapp lagt á að hraða henni sem mest og málin sem rækilegast undirbúin, þegar þau leggjast fyrir dómstólinn. Dómar vinnudómstólsins skulu endanlegir, og verður þeim því eigi áfrýjað. Það skal skýrt og ákveðið tekið fram, að vinnudómstólnum er aðeins ætlað að skera úr um samningsrof annars hvors aðilja, en hinsvegar er honum ekkert vald fengið til að ákveða með dómi launakjör verkamanna. Vinnudómstóllinn á því ekkert skylt við gerðardóm í vinnudeilum, þar sem hann getur aldrei dæmt um hagsmunaágreining þeirra. Í frv. okkar eru engin ákvæði um lögþvingaðan gerðardóm. Réttur vinnuveitenda til verksviptingar og verkamanna til verkfalls til að knýja fram kröfur þeirra, er látinn haldast að aðalefninu, en ríkisvaldinu er gert að skyldu að reyna til hins ýtrasta að afstýra þessum voða.

Þetta er þá aðalefnið í frv. okkar sjálfstæðismanna, — aðeins það eitt, sem sanngjarnast og bezt hefir reynzt hjá nágrannaþjóðunum. En jafnframt höfum við flm. þess lýst því ákveðið yfir, að við værum fúsir til samvinnu við alla þm. um skynsamlegar og nauðsynlegar brtt.

En hvernig hefir svo afstaða stjórnarflokkanna verið í þessu máli?

Framsfl. hefir látið líklega í málinu. Á þinginu 1936 sagði hæstv. forsrh., að hann hefði mikinn áhuga fyrir setningu vinnulöggjafar, og hann komst svo að orði um frv. okkar: „Því hlýtur það að vera mér ánægjuefni, að þetta frv. er fram komið. Mér virðist þannig gengið frá þessu frv., að það sé mjög líklegt, að því geti orðið vel tekið frá báðum aðiljum.“ — En lítið varð úr áhuga Framsfl. á því þingi. Vilji sósíalistanna rak hinn mikla áhuga á flótta, aðgerðir flokksins urðu engar. En flokksþing framsóknarmanna nú í vetur gaf þingflokknum áminningu í þessu máli. Flokksþingið samþ. áskorun til þingmanna, að vinna nú þegar að setningu nýrrar vinnulöggjafar. Þrátt fyrir þessa ákveðnu áskorun gerir þingflokkurinn ekkert úr málinu fyrr en nú nýlega, að vitað var, að þingrof er í vændum. Þá eru dregin upp úr vasa hv. þm. N.-Þ. tvö frv., annað um sáttatilraunir, en hitt um vinnudómstól, sem ekki má heita réttu nafni, heldur á að kallast félagsdómur — alveg út í lottið. — Þessi frv. eru uppsuða úr frv. okkar sjálfstæðismanna, færð til verra máls og óskýrara. En þremur aðalatriðum er sleppt, þ. e. engin atkvæðagreiðsla ákveðin fyrir vinnustöðvun og enginn fyrirvari settur fyrir henni, og sáttasemjara er heldur ekkert vald gefið til að fresta vinnustöðvun. En vegna þess, að þessi ákvæði vantar, og vegna ýmsra annara galla eru frv. framsóknarmanna algerlega ófullnægjandi og engin lausn á þessu máli. Þau eru ennfremur hrein svik við samþykkt flokksþingsins. Þar var samþ., að vald sáttasemjara skuli aukið og að vinnustöðvun sé einungis hafin með fyrirvara. Þetta þorir þingflokkur framsóknarmanna ekki að taka upp. Þeir eru hræddir við sósíalista jafnvel fyrir kosningar, — hvað mun þá verða ettir kosningar. Það er bersýnilegt, að Framsfl. er vart treystandi í þessu máli.

Afstaða Alþfl. er næsta skringileg. Á Alþingi í fyrra er 2. þm. Reykv. látinn lesa upp skrifaða yfirlýsingu frá Alþýðusambandinu um andstöðu gegn frv., en meðmæli með setningu vel og rétt undirbúinnar löggjafar um vinnudeilur og réttindi og skyldur alþýðusamtakanna. En á flokksþingi sósíalista síðastl. haust er það samþ., að engin vinnulöggjöf sé sett, nema sósíalistar séu einráðir um efni hennar og hvenær hún verði lögfest. Hið eina, sem sósíalistar hafa gert, er það, að skipa nefnd í málið og þar með setja tvo flokksmenn á laun til að tefja fyrir málinu. Frá þeim hefir ekkert heyrzt annað en ónot í garð framsóknarmanna, sem einnig voru í nefndinni. — Alþfl. leikur í þessu máli sem flestum öðrum hlutverk kommúnistanna í nágrannalöndum vorum. Hann hefir reynt að spilla framtíðarlausn þessa máls með rangfærslum, blekkingum og æsingum. Slík starfsemi er fjandsamleg þjóðfélaginu og mun hefna sin. — Það, sem sósíalistar á Norðurlöndum telja vernd og hagsmunamál verkalýðsins, nefna sósíalistar hér þrælalög. — Hin órólega deild sósíalista virðist hafa með yfirtökunum innan Sósíalistafl. í þessu máli.

Sjálfstæðisflokkurinn hefir haft forystuna í þessu máli og er eini flokkurinn, sem enn hefir sýnt einlægan vilja til að leysa þetta mál á heillavænlegan og sanngjarnan hátt. Hann viðurkennir jafnrétti verkamanna og vinnuveitenda og vill, að þjóðfélagið hjálpi þeim til að leysa vandamál og deilumál sín á friðsamlegan hátt. Sjálfstfl. setur sjónarmið þjóðfélagsins ofar öllum stéttarhagsmunum. Hann vill lýðræði og samninga í stað ofríkis og hnefaréttar. Sjónarmið þjóðfélagsins hlýtur að sigra fyrr eða síðar.