12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í C-deild Alþingistíðinda. (1886)

102. mál, félagsdómur

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti! Við þessa umr., þar sem nánast er rætt um setningu vinnulöggjafar almennt, þykir mér hlýða að drepa með nokkrum orðum á afstöðu Alþfl. til slíkrar lagasetningar.

Alþingi 1923 og 1925 flutti Bjarni sál. Jónsson frá Vogi frv. til laga um gerðardóm í kaupgjaldsþrætum, þar sem ætlazt var til þess, að dómstóll ákvæði um kaup og kjör verkamanna, þegar um það risu deilur við atvinnurekendur. Frv. þessi sættu á báðum þessum þingum hinni öflugustu andstöðu alþýðusamtakanna, og af þeirri ástæðu dagaði þau uppi á Alþingi, þótt þau ættu þar formælendur.

Alþýðuflokkurinn markaði þá, að gefnu tilefni, ákveðna andstöðu sína gegn lögþvinguðum gerðardómum um kaup og kjör verkalýðsins, og sú afstaða er óbreytt enn.

Alþingi 1925 voru hinsvegar sett lög um sáttasemjara í vinnudeilum, og var sú löggjöf sett með fullu samþykki Alþfl. Með því sýndi Alþfl., að hann vildi styðja að milligöngu ríkisvaldsins til sátta út af vinnudeilum. Sú afstaða flokksins er enn hin sama.

Frá samþykkt sáttasemjaralaganna 1925 var ekki við þessum málum hreyft á Alþingi fyrr en 1929. Þá var nýafstaðin hörð deila á milli sjómanna og útgerðarmanna. Þá fluttu 5 þáverandi þm. frv. til l. um dóm í vinnudeilum. Fjórir af þessum þm. sitja nú á Alþingi, þeir hv. 1. þm. Rang., hv. þm. Borgf. og hv. 7. landsk., sem allir eru í Sjálfstfl., og auk þess hv. 1. þm. Árn.

Eftir þessu frv. átti vinnudómstóll að dæma mál út af vinnukjörum, og var þetta frv. því að þessu leyti eins og frv. Bjarna frá Vogi, sem áður greinir.

Um þessi frv. urðu allhörð átök á Alþingi. Eins og fyrr snerust alþýðusamtökin sem einn maður gegn frv., og fulltrúar Alþfl. á Alþingi beittu sér af alefli gegn því. Hinsvegar töluðu þm. Sjálfstfl. með frv. og greiddu því atkv. Meginhluti Framsfl., að 2 flm., Jörundi Brynjólfssyni og Lárusi Helgasyni, undanteknum, beittu sér gegn því, og sérstaklega talaði hv. þm. V.-Ísf. ákveðið og prýðilega gegn þessu frv. Málið dagaði uppi í Nd., og var það eins og fyrr fyrst og fremst vegna þess, að alþýðusamtökin beittu öllum sínum mætti gegn framgangi málsins.

Fyrir 2–3 árum síðan stofnuðu atvinnurekendur hér á landi með sér allsherjarsamtök, Vinnuveitendafélag Íslands. Eitt af fyrstu verkum þess félagsskapar var að beita sér fyrir setningu allsherjarlöggjafar um vinnudeilur. Framkvæmdarstjóri félagsins, E. Claessen, mun þá hafa samið frv. til laga um vinnudeilur, er flutt var á síðasta Alþingi af hv. þm. Snæf, og hv. 8. landsk. Ég mun ekki rekja verulega efni þess frv., en þar er að finna reglur um ákvörðun á vinnudeilum, ýmsar reglur um sáttatilraunir í vinnudeilum og ákvæði um stofnun vinnudómstóls Íslands. Frv. þetta, sem nú er flutt óbreytt af sömu hv. þm., er svo að segja eingöngu orðréttur útdráttur úr vinnudeilulögum Norðurlanda, án þess að nokkuð sé þar tekið tillit til íslenzkra staðhátta eða atvinnuhátta. Í því felast einnig allverulegar takmarkanir á rétti verkalýðsfélaganna, bæði hvað snertir alla fresti út af vinnustöðvunum, svo og um atkvæðagreiðslu, bæði við ákvörðun vinnustöðvana (6. gr.) og um miðlunartillögur sáttasemjara (21. gr.). En þar sem frv. þetta er bæði undirbúið af vinnuveitendafélagi Íslands og flutt af 2 hv. þm. Sjálfstfl., má ganga út frá því, að þar sé að finna vilja atvinnurekenda og Sjálfstfl. um setningu vinnulöggjafar, og er það, eins og fyrir fram var vitað og í fullu samræmi við fyrri reynslu, mjög alvarleg tilraun til þess að setja fjötur um fót verkalýðsfélaganna í baráttu þeirra fyrir bættum kjörum.

Þegar frv. þetta var lagt fyrir Alþingi 1936, gaf hv. 2. þm. Reykv. f. h. Alþfl. skýra yfirlýsingu um afstöðu flokksins til þessa máls, eins og það var inn í þingið flutt af atvinnurekendum og Sjálfstfl. Skal ég með leyfi hæstv. forseta lesa upp lítinn kafla úr ræðu hv. 2. þm. Reykv., þar sem hann gerði grein fyrir afstöðu Alþfl. Honum fórust svo orð í niðurlagi ræðu sinnar:

Alþfl. álítur það ranga aðferð, að bera fram frv. eins og það, sem hér liggur fyrir frá hinu nýstofnaða og óreynda Vinnuveitendafélagi, án þess að alþýðusamtökin hafi lýst sig því fylgjandi. Það hefir sýnt sig alls staðar í lýðfrjálsum löndum, að vinnulöggjöf, sem ekki nýtur fylgis verklýðssamtakanna, á sér enga rót í þjóðfélaginu, veldur miklum og óþörfum deilum og er aðeins til hins verra. Eins álítur flokkurinn það rangt, að byggja upp vinnulöggjöf svo gersamlega ettir erlendri fyrirmynd sem gert er hér án tillits til íslenzkra staðhátta og atvinnuhátta. Eðlilegur gangur þessa máls hefir verið sá, að ríkisstj. hefði látið rannsaka og undirbúa það milli þinga á þann hátt, sem fullnægt hefði getað kröfum alþýðusamtakanna. En Alþfl. hlýtur að beita sér gegn afgreiðslu þessa máls, eins og það er undirbúið, enda þótt flokkurinn áliti að æskilegt væri að setja vel og rétt undirbúna löggjöf um vinnudeilur og réttindi og skyldur alþýðusamtakanna.“

Með þessum orðum voru dregnar upp skýrar línur í stefnu Alþfl. til vinnulöggjafar, sem sé:

1) að í frv. fælist einhliða sjónarmið atvinnurekenda og Sjálfstfl.

2) að frv. væri eingöngu byggt á erlendum fyrirmyndum án nægilegrar hliðsjónar af sérstökum íslenzkum stað- og atvinnuháttum.

3) að slíka vinnulöggjöf ætti alls ekki að setja, án þess að verklýðsfélögin hefðu haft tíma og tækifæri til þess að láta í ljós afstöðu sína.

4) að það sé óréttlátt og tilgangslitið að setja vinnulöggjöf, sem verklýðsfélögin geta ekki unað við.

5) að Alþfl. teldi, að æskilegt væri að setja vel og rétt undirbúna löggjöf um vinnudeilur og réttindi og skyldur alþýðusamtakanna.

Eins og kunnugt er dagaði frv. þeirra sjálfstæðismanna uppi á síðasta þingi, og ekkert var gert frekara í málinu þá.

Á síðasta hausti hélt Alþýðusamband Íslands 13. þing sitt. Þar voru mættir fulltrúar fyrir rúm 12 þús. manns innan alþýðusamtakanna. Á þessu þingi var rædd talsvert ýtarlega afstaða Alþýðusambandsins til vinnulöggjafar. Allir voru þar á einu máli um það, að frv. atvinnurekenda og Sjálfstfl. um vinnudeilur væri óaðgengilegt með öllu, og á því yrði ekkert sérstaklega byggður grundvöllur að nýrri löggjöf. Hinsvegar samþ. alþýðusambandsþingið í þessu máli ályktun þá, er ég nú skal leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„13. þing Alþýðusambands Íslands ályktar að vera mótfallið hverskonar nýrri vinnulöggjöf, nema því aðeins að með henni fáist full lagaviðurkenning fyrir rétti Alþýðusambands Íslands og sambandsfélaga þess til verkfalla, auðveld og skjót málssókn vegna samningsrofs af hálfu atvinnurekenda og að öðru leyti verulega aukin réttindi fyrir alþýðusamtökin frá því, sem nú er. Telur þingið heppilegast, að Alþingi láti mþn., þar sem Alþýðusambandið hafi fulltrúa, athuga málið, og leitað verði að nýju álits Alþýðusambandsins, áður en málið er útkljáð, enda yrði engin löggjöf sett um þessi mál áður en aðalatriði hennar yrðu lögð fyrir sambandsfélögin og hefðu náð samþykki Alþýðusambandsins. Þingið er sérstaklega andvígt lögákveðnum gerðardómum um kaupgjald og önnur vinnukjör, sem settir kynnu, að verða án samþykkis alþýðusamtakanna, en telur hins vegar lögákveðna gerðardóma um samningsrof vera heppilegri en venjulega dómstóla, enda yrði þóknun gerðardómsins greidd af því opinbera.“

Í samræmi við stefnu Alþfl., eins og hún var mörkuð á Alþingi 1936 og á alþýðusambandsþingi á síðastl. hausti, ákvað hæstv. atvmrh. að skipa n. manna til þess að gera till. um löggjöf um réttindi verklýðssamtakanna, afstöðu þeirra til atvinnurekenda og meðferð deilumála þeirra á milli. Og þar sem Sjálfstfl. hafði í frv. því, er ég gat um áður, lýst afstöðu sinni til löggjafar um þessi efni, var enginn sérstakur fulltrúi skipaður af þeirra hálfu í nefndina, en hinsvegar 2 nefndir af Alþfl., Guðm. Guðmundsson lögfræðingur og hv. 4. þm. Reykv., og af Framsókn hv. flm. þessa frv., er hér liggur til umræðu, þm. N.-Þ., og Ragnar Ólafsson lögfr. Tel ég rétt að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta, skipunarbréf þessara nefndarmanna:

„Hér með eruð þér, herra ... skipaður í nefnd til þess að gera tillögur til ríkisstjórnarinnar um löggjöf um réttindi verklýðssamtakanna, afstöðu þeirra til atvinnurekenda og meðferð deilumála milli þessara aðilja.

Þess er vænzt, að n. kynni sér ýtarlega löggjöf annara þjóða, sérstaklega Norðurlandaþjóðanna, um þessi efni, hverja raun hún hefir gefið og hverjar tillögur til slíkrar lagasetningar þar hafa komið fram á síðari árum, svo og afstöðu verklýðssamtakanna og atvinnurekenda í hlutaðeigandi löndum til téðrar löggjafar og tillagna.

Jafnframt er þess óskað, að nefndin taki til rækilegrar athugunar þau ákvæði í íslenzkum lögum, sem sérstaklega fjalla um réttindi verkafólks, að því er snertir greiðslu verkkaups, tryggingar fyrir kaupgreiðslum, hámarksvinnutíma og öryggi á vinnustöðvum og þess háttar, með tilliti til þess, hvort eigi sé heppilegt að steypa þeim ákvæðum og öðrum hliðstæðum, er ástæða þætti til að setja saman, í eina löggjöf.“

Til skýringar frv. því, sem hér um ræðir, á þskj. 139, um félagsdóm, og frv. á þskj. 140, um sáttatilraunir í vinnudeilum, sem bæði eru flutt af hv. þm. N.-Þ., skal ég leyfa mér að skýra nokkuð frá starfi mþn. þeirrar, er ég gat um áðan, því að það varpar nokkru ljósi yfir framkomu þessara frv. og hina einkennilegu og óviðfeldnu afstöðu Framsfl., sem tekin var með flutningi þessara mála.

Milliþinganefndin byrjaði störf sín 16. des. síðastl. Í samræmi við skipunarbréf nefndarmanna ákvað nefndin að skrifa sendiherra Íslands í Khöfn, verklýðs- og atvinnurekendasamböndum á Norðurlöndum og vinnumálaskrifstofunni í Genf og óska eftir upplýsingum og ritum um vinnulöggjöf. Sömuleiðis óskaði nefndin ettir upplýsingum frá Alþýðusambandi Íslands. Iðnsambandi Íslands og Vinnuveitendafélagi Íslands um skipulag sambandanna o. fl.

Svör verkalýðs- og vinnuveitendasambandanna á Norðurlöndum bárust n. 29. jan. síðastl. og 4., 10. og 15. febr. Svar vinnumálaskrifstofunnar í Genf barst n. 10. febr. Frá sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn barst n. talsvert af gögnum fyrir milligöngu atvmrn. N. bárust sendingar sendiherra 8., 11. og 15. febr.

Á meðan n. höfðu hvorki borizt upplýsingar um vinnumálalöggjöf Norðurlanda frá sendiherranum í Kaupmannahöfn né samböndum verkalýðsfélaga og atvinnurekenda á Norðurlöndum, gat n. lítið aðhafzt. Samkomulag varð þó í n. um það 14. jan., að taka til athugunar fyrirkomulag á sáttatilraunum í vinnudeilum og skipun dómstóla, er hefði til meðferðar ágreining um skilning á vinnusamningum. Voru þessi atriði nokkuð rædd í n. Einn nm., Ragnar Ólafsson, samdi uppköst að lagafrv. um þessi atriði, sem síðan voru lögð fram í n. Voru uppköstin rædd nokkuð, en engin endanleg ákvörðun eða samþykkt gerð í sambandi við þau. Fulltrúar Alþfl. höfðu athugað uppköstin alveg sérstaklega og skýrðu samnm. sínum frá því, að þeir þyrftu að bera fram margar og viðtækar brtt. við þau. Höfðu þeir fyrir nokkru samið þessar brtt, sínar, en ekki viljað leggja þær fram í n., þar til upplýsingar þær, sem þeir höfðu skrifað eftir, væru komnar og þeim hefði unnizt tími til að athuga þær. Var það álit fulltrúa Alþfl., að útilokað væri, að n. gæti tekið nokkrar ákvarðanir um einstök atriði væntanlegra frv. sinna, fyrr en öll gögn hefðu borizt henni og nm. haft tækifæri til að athuga þau. Þeir töldu einnig ástæðulaust fyrir sig að koma fram með till, sínar, á meðan þeir höfðu ekki haft tækifæri til að athuga þær í ljósi þeirra upplýsinga, sem þeir áttu von á erlendis frá. Hin erlendu gögn bárust n., svo sem áður var sagt, að mestu leyti frá 4.–15. febr. Byrjuðu fulltrúar Alþfl. þegar að kynna sér þau, ettir því sem frekast vannst tími til og tóku að lagfæra till. sínar ettir þeim. Í sjálfri n. hafði hins vegar orðið lítið úr störfum, eftir að henni bárust upplýsingar frá útlöndum. Hv. þm. N.-Þ. var næstum alveg frá störfum í n. frá 11. febr. til 15. marz vegna flokksþings framsóknarmanna og veikinda og Ragnar Ólafsson frá 17. febr. til 15. marz vegna fjarveru úr bænum. Má því fullyrða, að n. hafi ekki haft tækifæri til þess að ræða frv. Ragnars Ólafssonar, frá því hin erlendu gögn bárust n. og þar til á fundi n. þann 19. marz. Var það fyrsti fundurinn, sem haldinn var ettir komu R. Ól. til bæjarins, sem allir nm. voru mættir á.

Þegar umr. um þau verkefni, sem fyrir lágu, skyldu hefjast í byrjun fundarins, báru þeir hv. þm. N.-Þ. og R. Ól. fram till. um það, að frv. fulltrúa Framsfl. í n. yrðu borin fram sem allra fyrst á Alþingi. Till. þessi kom fulltrúum Alþfl. mjög á óvart, og voru þeir henni mótfallnir af þrem ástæðum: Í fyrsta lagi lágu ekki fyrir nein frv. í n., sem þeir væru samþykkir. Við frv. þau, sem R. Ól. hafði samið, þurftu þeir að bera fram margar brtt. Voru þeir t. d. alveg mótfallnir ákvæðum frv. um skipun dómsins og dómaraskilyrðin. Studdust fulltrúar Alþfl. þar við umsögn reyndustu manna. Sáttatilraunafrv. töldu þeir þurfa stórfelldra endurbóta við, og höfðu orðið að endursemja það til fulls.

Í öðru lagi töldu þeir ekki koma til mála að skipta aðalverkefni n. eins og till. gerði ráð fyrir. Þeim var það fyllilega ljóst, að sáttatilraunum í vinnudeilum og meðferð réttarágreinings verður ekki, svo að vel fari, skipað með lögum nema jafnframt séu lögfest ákvæði um réttindi verkalýðsfélaga og vinnustöðvanir. Þessi atriði eru svo tengd sáttastarfseminni, að með öllu verður að teljast óeðlilegt, að skilja þau að við lagasetningu, fyrst einnig er verið að undirbúa löggjöf um þau.

Í þriðja lagi var fulltrúum Alþfl. ljóst, að svo mjög var liðið á þingtímann, að útilokað var að telja, að verkalýðsfélögin gætu fengið tækifæri til að athuga og taka afstöðu til frv., ef þingið ætti að samþ. þau að þessu sinni. Slíka afgreiðslu töldu þeir óforsvaranlega, enda hægt að upplýsa, að hún á sér ekkert fordæmi á Norðurlöndum. Verkalýðsmálalöggjöf Norðurlanda er öll til orðin eftir langar, venjulega margra ára umræður í verkalýðsfélögum og víðar. Benda má á, að í Noregi var fyrst sett löggjöf um þessi efni 1915 eftir látlausar umr. og athuganir frá því um aldamót, í Svíþjóð 1906 eftir langar opinberar umræður, og í Danmörku byggjast þessi málefni á samningum verkamanna og atvinnurekenda.

Ef Alþingi hefði átt að afgreiða að þessu sinni lög um sáttatilraunir í vinnudeilum og félagsdóm, þá er útilokað, að nokkrar verulegar umræður eða atkvgr. gætu farið fram í félögum verkamanna. Að dómi fulltrúa Alþfl. í n. kom ekki til mála að fremja slíkt brot á rétti verkalýðsfélaganna, sem hafa svo mikilla hagsmuna að gæta við afgreiðslu málsins. Þeir gátu heldur ekki komið auga á neina skynsamlega ástæðu til að koma fram með frumvörp R. Ól. í þeim tilgangi, að frv. dagaði uppi í þinginu. Er þess og sérstaklega að geta, að frv. eru samin áður en n. höfðu borizt nokkur gögn erlendis frá og að fulltrúar Alþfl. höfðu ekki haft tækifæri til að ræða um frv. við fulltrúa Framsfl. í n., ettir að hin erlendu gögn bárust, vegna fjarveru þeirra frá störfum.

Sem svar við till. meðnm. sinna og til að tryggja þeim, að n. lyki störfum sínum í tíma, báru fulltrúar Alþfl. fram svo hljóðandi till. í mþn.:

„Með því að fulltrúar Framsfl. í n. hafa upplýst, að frv. til laga um sáttatilraunir í vinnudeilum og félagsdóm þurfa að koma fram á Alþingi því, er nú situr, innan svo skamms tíma, ef það á að geta samþykkt frv., að með öllu verður að teljast útilokað, að verkalýðsfélögin í landinu geti í tíma fengið tækifæri til að taka afstöðu til frv., þá sér n. ekki ástæðu til að koma fram með frv. um sáttatilraunir í vinnudeilum og félagsdóm, fyrr en till. n. um réttindi verkalýðsfélaganna og afstöðu þeirra til atvinnurekenda eru fullgerðar, enda vantar mikið á, að till. n. um sáttatilraunir í vinnudeilum og félagsdóm séu tilbúnar.

Nefndin ályktar hinsvegar, að haga störfum sínum þannig, að hún á komandi sumri hafi fullsamið frv. til l. um réttindi verkalýðsfélaganna, afstöðu þeirra til atvinnurekenda og meðferð deilumála milli þessara aðilja, svo að verkalýðsfélögin geti fengið tækifæri til að athuga, ræða og koma fram með till. í sambandi við frv., áður en Alþingi kemur saman 1938.“

Við atkvgr. felldu fulltrúar Framsfl. till. þessa, eftir að við höfðum fellt þeirra till.

Þannig er saga frv. um félagsdóm og um sáttatilraunir í vinnudeilum, er hv. þm. N.-Þ. flytur. Sýnir hún, að frv. þessum er flaustrað af án nokkurra ýtarlegra rannsókna og áður en að gögn þau, er mþn. bárust, höfðu verið tekin til athugunar. Frv. þessi eru og í raun og veru lítið annað en uppsuða úr frv. Sjálfstfl. um vinnudeilur, ókarað og lítið athugað. Sést það bezt á 8. gr. frv. um félagsdóm, þar sem m. a. er talað um, að félagsdómur dæmi í málum, sem rísa út af kærum um, að vinnustöðvun sé ólögleg samkv. ákvörðun þeirrar gr., en hvorki í þessari gr. né annarsstaðar er yfirleitt fyrirmæli að finna almennt um ólöglegar vinnustöðvanir. Framkoma þessa frv. er því flaustursverk, að því er séð verður helzt til þess að koma til móts við atvinnurekendur og Sjálfstfl. um setningu vinnulöggjafar gegn vilja verklýðssamtakanna.

Með afstöðu þeirri, sem Alþfl. hefir áður markað til vinnulöggjafar, bæði á Alþingi 1936 og á síðasta alþýðusambandsþingi, er andstaða hans gegn framgangi frv. hv. þm. N.-Þ. bæði um félagsdóm og um sáttatilraunir í vinnudeilum auðsæ, þar sem bæði þessi frv. eru aðallega uppsuða úr frv. Sjálfstfl. um vinnudeilur og þessi mál hafa ennþá ekki verið borin undir verklýðsfélögin.

Árangur af starfi Framsfl. í mþn. þeirri, sem ég hefi rætt um, hefir því miður ennþá orðið neikvæður. Fulltrúar flokksins í mþn. hafa ekki ennþá reynt að leysa það höfuðverkefni n., að gera till. um réttindi verklýðsfélaganna og afstöðu þeirra til atvinnurekenda. Þar er þó það verkefnið, sem mest er þörf á að leysa. Það væri æskilegt að skapa vinnandi fólki skýlausan lagarétt til að stofna félög og sambönd til þess að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum sínum. Það væri þörf á að banna með lögum afskipti atvinnurekenda með ástæðulausum uppsögnum, hótunum eða fortölum til þess að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna eða afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum. Það væri þörf á að tryggja verklýðsfélögunum trúnaðarmenn á vinnustöðvunum, sem atvinnurekendum væri óheimilt að segja upp vinnu. Og fleiri réttindi mætti nefna, sem alþýðusamtökin vildu gjarnan, að tryggð væru með löggjöf. Slíka vinnulöggjöf vildi Alþfl. styðja.

Af reynslu þeirri, er fengizt hefir á undanförnum árum og ég hefi aðeins drepið á í ræðu minni hér á undan, má ótvírætt ráða það, að einskis samstarfs sé að vænta við Sjálfstfl. um setningu löggjafar, er ræði um réttindi verklýðsfélaga og afstöðu þeirra til atvinnurekenda. Þaðan er aðeins að vænta löggjafar um sviptingu réttinda fyrir alþýðusamtökin. Sjálfstfl. og íhaldsöflin í landinu yfirleitt hafa alltaf barizt gegn alþýðusamtökunum og staðið gegn réttlátum kröfum þeirra um kjarabætur alþýðunni til handa. Hinsvegar hefir Alþfl. til þessa vænzt meiri skilnings, meira viðsýnis og réttlætis af Framsfl. í þessum viðkvæmu málum verklýðssamtakanna. En framkoma frv. um félagsdóm og sáttatilraunir í vinnudeilum, svo og ýmislegt annað í framkomu Framsfl. gagnvart verklýðshreyfingunni á Íslandi, sýnir það, að hér sem víða annarsstaðar skortir hina svokölluðu frjálslyndu borgaralegu flokka oft skilning, víðsýni og velvilja, þegar um er að ræða áhugamál alþýðustéttanna. Á meðan verklýðshreyfingin er veik og vanmáttug, eru hinir svokölluðu frjálslyndu stjórnmálamenn í borgaraflokkunum fullir af velvilja og verndarhug. Og venjulega fá þá slíkir flokkar velvild sína endurgoldna með atkvæðum alþýðunnar. En þegar verklýðshreyfingin er orðin öflug og sjálfstæð og neyðist til þess að leggja út í harðar deilur fyrir réttindum sínum og hagsmunum, þá eru hinir frjálslyndu borgaralegu flokkar komnir í andstöðuhópinn. Og það vill jafnvel stundum svo til, að sumir hinna svokölluðu frjálslyndu stjórnmálamanna verða engu óhlífnari andstæðingar verklýðssamtakanna heldur en forystumenn íhaldsflokkanna. Þessum frjálslyndu sljórnmálamönnum lízt ekki á blikuna, er þeir sjá hinn öra vöxt alþýðusamtakanna, og fars þá að skoða þessi samtök sem hættulegan keppinaut um pólitísku völdin í landinu. Af þessum orsökum dofnar oft og dvín hin félagslega réttlætiskennd hinna svokölluðu frjálslyndu flokka, og þá kalla þeir afstöðu sína umbyggju fyrir ríkisheildinni, kalla sig fulltrúa þjóðarheildarinnar bæði gegn verklýðssamtökunum og atvinnurekendum. En um leið gerast þeir í raun og veru liðsmenn atvinnurekenda og auðvalds, af þeirri einföldu ástæðu, að það er verklýðshreyfingin, sem oftast verður að hefja áhlaupin, sá aðilinn, sem stefnir að ummyndun atvinnuháttanna og þjóðfélagsins, sú stéttin, sem „heimtar kúguðum rétt“ og berst fyrir afnámi ánauðarinnar, en verður að sækja rétt sinn í hendur þeirra manna, sem lifa í skjóli sérréttindanna.

Það er margt, sem bendir til þess í pólitísku lífi landsins, að Framsfl., sem hefir á að skipa mörgum frjálslyndum umbótamönnum, skorti nægilegan skilning á frelsisbaráttu alþýðunnar í landinu. Að því leyti stendur hann kannske á meiri tímamótum nú en nokkru sinni áður. Og ef Framsókn leggst á sveif með íhaldinu í þeim þætti íslenzkrar félagsmálalöggjafar, sem nú er hér til umræðu, og hjálpar íhaldinu til þess að draga úr samtakamætti verklýðshreyfingarinnar, þá verður það einni ástæðunni ríkara til þess að torvelda samvinnu alþýðunnar til sjávar og sveita, þá samvinnu, sem vissulega er nauðsynlegasta skilyrðið til þess, að hér á landi verði hægt að halda áfram og auka umbótastörf á lýðræðisgrundvelli. Verkamennirnir við sjávarsíðuna skilja fullkomlega þörf bændastéttarinnar til betri kjara og meira menningarlífs. Þess vegna hafa þeir stutt löggjöf síðustu ára um bætta sölu á afurðum bænda innan lands og utan, aðstoð til bændanna vegna fjárkreppunnar og aukin fjárframlög til ræktunar og bygginga í sveitum landsins. En um leið krefjast þeir þess skilnings og viðsýnis af alþýðunni úti um sveitir landsins, að hún leggist ekki á sveif með íhaldsöflunum til þess að hindra með löggjöf né öðru eðlileg og nauðsynleg samtök verkalýðsins, heldur heitir hún á gagnkvæmt fulltingi sveitaalþýðunnar til verndunar og aukningar á rétti sínum til skipulagningar fyrir bættum kjörum.