12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í C-deild Alþingistíðinda. (1887)

102. mál, félagsdómur

*Hannes Jónsson:

Herra forseti! Góðir tilheyrendur! Það má segja, að atvinnudeilur væru óþekkt fyrirbrigði hér á landi fram til síðustu tíma. Þeirra verður ekki vart, fyrr en kaupstaðirnir fara verulega að stækka, og sjávarútvegurinn, og þá sérstaklega stórútgerðin, fer að soga til sín vinnukraft þjóðarinnar.

Áður var atvinnuháttum þjóðarinnar þannig farið, að flestir uppskáru eftir því, sem þeir sáðu. Sjómennirnir tóku hlut, og kaup þeirra varð eftir því, hvað veiddist. Í sveitunum tók verkafólkið oft kaup sitt í skepnufóðrum. Húsbændur og verkafólk lifði friðsömu heimilislífi, þar sem allir sátu við sama borð. Húsbændur og verkafólk gekk sameiginlega til allra starfa og deildi með sér ljósi og skuggum íslenzks sveitalífs. Eftir óskráðum lögum samvinnunnar var búskapurinn rekinn til lands og sjávar.

Nú leita vinnukraftar sveitanna til kaupstaðanna í kjötkatla útgerðarinnar, í glaum og gleði bæjarlífsins. Bændur geta ekki keppt um vinnukraftinn, og fleiri og fleiri verða einyrkjar á jörðum, sem áður báru margt verkafólk.

Þetta er ein hliðin á hinni svokölluðu þróun atvinnulífsins í landi voru þau ár, sem liðin eru af þessari öld. En þetta var ekki það versta. Í skjóli stórútgerðarinnar rísa hér upp margir tiltölulega stórir atvinnurekendur, sem litu á verkafólkið eins og þjóna, sem þeir gætu skákað fram og aftur eftir eigin vild og skammtað úr hnefa eins og þeim bauð við að horfa. Upp af þessum jarðvegi spretta verkamannasamtökin. Þessi samtök verkalýðsins verður að telja eðlileg. Verkefnið var aðallega tvennskonar. Í fyrsta lagi að vinna á móti kúgun í kaupgreiðslu og finna samræmi í kaupgreiðslu einstakra atvinnurekenda. Í öðru lagi að vinna á móti hóflausri áníðslu atvinnurekenda gagnvart verkafólki, sbr. togaravökulögin. Á þessu hvorutveggja voru margir þverbrestir, þótt hitt sé ekki nema sanngjarnt og sjálfsagt að viðurkenna, að ýmsir atvinnurekendur sáu, hvar skórinn kreppti að, og sýndu virðingaverða viðleitni til að bæta þar um. T. d. voru sumir útgerðarmennirnir farnir að sjá, að hinar hóflausu uppistöður á togurunum, þar sem menn stóðu við vinnu sína, þangað til svefn og þreyta var búin að yfirbuga þá gersamlega, borguðu sig ekki og var ekki sæmandi að bjóða nokkrum manni.

Meðan verkalýðssamtökin héldu sér innan þess ramma, að fá samræmi í kaupgreiðslu og vinnutíma við getu framleiðslunnar, voru þau eðlileg og réttmæt. Og það ætti ætíð að vera þungamiðjan í störfum verkalýðssamtakanna, að leita að réttu jafnvægi í atvinnulífi þjóðarinnar, þannig að aldrei sé atvinnuvegunum bundinn þyngri baggi í kaupgreiðslu en þeir eru færir um að bera. Hækkun á kaupgjaldi komi þá fyrst til greina, ef markaðir framleiðsluvaranna bötnuðu eða framleiðsluskilyrðin færðust í arðvænlegra horf á annan hátt, því nær sem hægt er að halda atvinnuvegum þjóðarinnar þessu jafnvægi arðs og tilkostnaðar, því öruggara verður allt fjármálastarf þjóðarinnar. Þá hverfa deilur um skráningu krónunnar, því að gildi hennar réttlætist af heilbrigðu atvinnulífi. Verkamönnum er það fyrst og fremst nauðsynlegt að hafa stöðuga vinnu og vissa afkomu. Hitt verða þeir að sætta sig við, að tímakaupið sé ekki hærra en afkoma atvinnuveganna segir til. Það ætti að vera þeirra verkefni að vinna ásamt framleiðendunum að endurbótum á framleiðslunni, sem skapi möguleika til kauphækkunar og stöðugrar vinnu. En hér hefir farið eins og svo víða annarsstaðar. Verkamannaforingjarnir hafa ekki kunnað hóf á kröfum sínum. Í stað þess að verkamennirnir voru stundum beittir órétti af atvinnurekendunum, beita þeir nú sama órétti og ofbeldi gagnvart atvinnurekendunum. Afleiðingin verður samdráttur og hrun atvinnuveganna. Fleiri og fleiri missa atvinnu sína, og þótt tímakaupið fari hækkandi, minnka stöðugt heildartekjur verkamannanna.

Leiðtogum jafnaðarmanna í öllum löndum er ljós sú hætta, sem stafar af þessu öfugstreymi frá þeirra eigin herbúðum. Og þar, sem þeir hafa náð völdum og finna til ábyrgðar á störfum sínum, hafa verið gerðar viðtækar ráðstafanir til að ráða hér bót á með löggjöf, sem hindrar verkföll og verkbönn, bera sáttarorð á milli aðilja og dæma um ágreining, sem upp kann að koma í kaupgjaldsmálum.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í að lýsa verkamálalöggjöf annara þjóða. Það hafa aðrir gert hér á undan mér, og læt ég mér nægja að vísa til þess.

Það getur engum dulizt, að öll þessi lagasmið í löndum sósíalistanna er framkomin til að fyrirbyggja þá hættu, sem þjóðfélaginu stafar af langvarandi verkföllum eða verkbönnum. En málefnið sjálft er viðkvæmt, og því hefir hvergi verið gengið lengra en frekast þótti þörf til, nema þá helzt í einræðislöndunum, t. d. í Rússlandi, þar sem ríkisvaldið er einrátt um alla kaupgreiðslu. Maður skyldi því ætla, að hér á landi væri ríkjandi meðal allra stétta fullur skilningur á þörf löggjafar á þessu sviði hér eins og annarsstaðar. En nokkur misbrestur er þó á því. Sjálfstæðismenn fluttu á þingi í fyrra og aftur nú frv. til l. um vinnudeilur. Frv. þetta er sniðið eftir löggjöf nágrannaþjóðanna um sama efni, og má telja víst, að flokkurinn standi óskiptur að þessu máli. Jafnaðarmenn hafa tjáð sig andvíga nokkurri lagasetningu um vinnudeilur nema til hagsbóta fyrir verkamannastéttina. Um það má náttúrlega deila í það óendanlega, hvað sé verkamönnunum til hagsbóta í þessu efni. Þar kemur til greina bæði beinn og óbeinn hagur, og ætti fulltrúum þeirra hér á þingi að vera trúandi til að halda þar á málstað þeirra án þess að veikja áhrif löggjafarinnar til heilbrigðrar úrlausnar á málinu. Kommúnistar hafa látið mjög ófriðlega út af framkomnum frv. í þessa átt og segja, að Framsókn leggi til grundvallar vinnulöggjöfinni hið svívirðilega fyrirkomulag, sem dönsku alþýðuflokksforingjarnir hafa gengið inn á, og noti till. Eggerts Claessen sem fyrirmynd. Þeir segja ennfremur:

„Vinnufriður verður ekki settur á Íslandi með þessum aðferðum. Með þeim verður aðeins stéttastyrjöldin látin loga upp nú. Til vinnufriðar þarf samvinnu vinstri flokkanna um hagsbætur alþýðu til handa.“

Þeir tylla sér á tá og gera sig líklega til að sýna húsbóndarétt sinn og segja:

„Beri Framsókn ekki gæfu til að skilja þetta, áður en verra hlýzt af, þá neyðist íslenzkur verkalýður til að kenna henni það í eldi harðvítugra átaka, sem hún gæti nú strax lært við skynsamlega íhugun.“

Látum svo vera, að vinnufriðurinn verði ekki tryggður nema í samvinnu vinstri flokkanna. En er nokkur skynsamleg ástæða fyrir því, að fulltrúar verkamanna hér séu staðari í þessum málum en flokksbræður þeirra í öðrum löndum? Og er nokkur sanngirni í því, að telja lausn þessara mála t. d. í Danmörku „svívirðilegt fyrirkomulag“.

Foringjar jafnaðarmanna verða að gera það upp við sig, hvort þeir vilja heldur fylgja flokksbræðrum sínum í nágrannalöndunum eða apa eftir hatursfullum og heimskulegum áróðri kommúnista. Þá munu deilurnar halda áfram og harðna. Atvinnurekendur neyðast til sameiginlegra átaka, og hættan af stórfelldum verkföllum og verkbönnum fer vaxandi með hverju árinu, sem líður. Þessi samtök hafa orðið seinna til hér en víða annarsstaðar, en þau eru í uppsiglingu, og áhrif þeirra munu fara vaxandi. Þetta ætti jafnaðarmönnum að vera ljóst og grípa nú tækifærið og taka höndum saman við aðra flokka þingsins um lausn málsins á grundvelli heilbrigðrar löggjafar.

Afstaða Framsfl. til fullkominnar lausnar á þessu máli er nokkuð vafasöm. Þeir hafa að vísu látið það í ljós, að þeir vildu fá lausn þessara mála með löggjöf. En þeir hafa verið hikandi, og hefir þar sjálfsagt valdið mestu um ótti við andstöðu jafnaðarmanna.

Hv. þm. N.-Þ. lét þess getið í framsöguræðu sinni áðan, að Framsfl. hefði haft forgöngu í því, að skýra þessi mál. Hann hefir bent á það, og verið Lent á það af öðrum, að á framsóknarþinginu í vetur hafi verið gerðar ákvarðanir út af þessu máli. En hann hefir líka haldið því fram, að ekki væri tímabært að samþ. á þessu þingi löggjöf um frestun á verkbönnum og verkföllum. Nú var það einmitt það atriði, sem flokksþingið tók afstöðu til, og það er dálítið einkennilegt, ef Framsfl. hefir hatt forgöngu í þessum málum og orðið til þess að skýra þau fyrir almenningi, að honum skuli ekki hafa unnizt tími til að taka afstöðu í málinu á þeim grundvelli, sem hér liggur fyrir. Það er dálítið einkennilegt, hvernig þetta mál ber að hér á þinginu. Eftir þeim upplýsingum, sem hv. 1. landsk. gaf, er það fyrst 19. marz þ. á., sem framsóknarmenn krefjast þess í n., að málið verði afgr., en 2 dögum áður, eða 17. marz, er lagt fram frv. hér á þinginu, sem allir kannast við, út af hinu svokallaða Kveldúlfsmáli. Ég býst við, að menn þurfi ekki að hugsa sig lengi um til þess að finna samræmið milli þessara tveggja atvika, sem þarna áttu sér stað. Það er auðséð, að Framsfl. ætlaði sér, eftir störfum fulltrúa hans í n. að dæma, ekkert að gera í málinu á þessu þingi; fulltrúar flokksins í n. áttu að vera áfram á fullum launum fram að næsta þingi. Nú velja stjórnarflokkarnir þennan tíma, þegar fyrirsjáanlegt er, að þeir eru að fara frá völdum, og bera fram þessi frv., afsaka sig svo fyrir kjósendum með því, að þeir hafi gert skyldu sína og borið málin fram á Alþingi, en að þeim hafi ekki tekizt að gera þau að l. vegna andstöðu samstarfsflokksins. Grg. sú, sem frv. fylgir og er aðeins bráðabirgðagrg., sýnir þetta líka; annars hefði mátt búast við því, að með frv., sem var jafnýtarlega undirbúið og þetta, hefði ekki fylgt bráðabirgðagrg., heldur ýtarleg og fullkomin grg. frá hendi þeirra manna, sem þykjast hafa haft forgöngu í þessu máli undanfarin ár.

Hv. 1. landsk. tekur sér kommúnista til fyrirmyndar og bendir Framsfl. á, að hann sé nú á tímamótum og afstaða Framsfl. í þessu máli geti torveldað samvinnumöguleika þessara fl. Það er auðskilið, hvað hér liggur bak við; það er hótun í garð framsóknarmanna um að fara gætilega í þessu máli. Framsóknarmenn hafa að vísu sjálfir að nokkru leyti séð fótum sínum forráð með því að hafa till. sínar í þessu frv. svo lítilfjörlegar og láta þær ná svo skammt, að það eru litlar líkur til, að það geti orðið til nokkurra verulegra nota, og um leið og þeir hafa dregið þannig úr kröfum sínum, sem eru samskonar kröfur og vinstri flokkar annara þjóða hafa lögleitt hjá sér í þessum efnum, hafa þeir undirbúið a. m. k. fyrirgefningu sósíalista sér til handa. En hvernig kjósendur landsins líta á þessa vinnuaðferð Framsfl. og hvort þeir treysta framsóknarmönnum til þess að bera þetta mál fram til sigurs, skal ég láta ósagt, en ósennilegt þykir mér það eftir þá yfirlýsingu, sem samstarfsmenn þeirra, sósíalistarnir, hafa gefið um afstöðu sína í þessu máli.