12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í C-deild Alþingistíðinda. (1888)

102. mál, félagsdómur

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti! Góðir hlustendur! Ágreiningur um kaup og kjör milli vinnuveitenda og verkamanna eru, þar sem ekki eru hlutaskipti eða samvinna, hinar tíðu orsakir vinnudeilna. En vinnudeilur eru nú eitt alvarlegasta böl þjóðanna, ekki aðeins fyrir verkamenn og vinnuveitendur, heldur fyrir þjóðfélagið allt. Hið mikla tjón, sem vinnudeilur hafa valdið, hefir fyrir löngu erlendis opnað augu aðilja fyrir því, að það er þeim báðum fyrir beztu að draga úr deilum til hins ýtrasta og hinum allra skaðlegustu afleiðingum þeirra. Þar sem átökin í vinnudeilum hafa staðið annað slagið um nokkurra ára bil verður endirinn jafnan sá, að félög verkamanna og vinnuveitenda mynda með sér sambönd, oft landssambönd, og á þann hátt verða árekstrar milli þessara aðilja ennþá stórtækari og hættulegri. Á þetta stig eru málefnin að komast hér; annarsvegar eru verkamannasamtökin í Alþýðusambandi Íslands og hinsvegar hið tiltölulega unga Vinnuveitendafélag Íslands, þar sem atvinnurekendur hafa sín samtök. Þegar samtök aðilja, verkamanna og vinnuveitenda, eru komin á þetta stig, verður þörfin fyrir vinnulöggjöf brýn. Og það er eftirtektarvert, að mjög oft eftir stórkostlega og varanlega árekstra og vinnudeilur milli þessara tveggja samtaka, hefir erlendis vaknað skilningur á því hjá hinum stríðandi aðiljum, að þeim væri það báðum nauðsynlegt að koma sér saman um ákveðnar reglur, og deilurnar væru háðar samkvæmt þeim. Það má benda á það, að hin svokallaða septembersætt, sem verkamenn og vinnuveitendur gerðu með sér í Danmörku 1899, varð til eftir langvarandi vinnudeilur, þar sem hinir stríðandi aðiljar voru báðir orðnir mjög aðþrengdir eftir hina löngu vinnustöðvun; þá skildu báðir aðiljar þörfina og gerðu með sér þessa merkilegu sætt, án þess að löggjafarvaldið skærist í leikinn.

Vinnulöggjöf er því venjulega sett, þar sem þroski aðilja er kominn á það stig, að þeir skilji nauðsyn löggjafarinnar fyrir þjóðina og sjálfa sig, ettir að þeir hafa reynt skaðsemi hóflausra deilna. Og það má ekki ganga framhjá því, að ef þessi löggjöf á að koma að gagni, þá er það eitt af því nauðsynlegasta, að þessi skilningur sé til staðar.

Það er fjarri mér að halda því fram, að vinnulöggjöf geti tryggt fullkominn vinnufrið. Slíkar tálvonir mega menn ekki gera sér. En það orkar hinsvegar ekki tvímælis, að góð vinnulöggjöf dregur verulega úr vinnudeilum, og ekki sízt úr skaðsemi þeirra, eins og bezt sést þar, sem góð vinnulöggjöf hefir gilt um mörg ár; má þar fyrst og fremst nefna Norðurlönd. En þar, sem ekki er nein vinnuleggjöf í löndunum, eins og hér, þar sem vinnustöðvun er lýst yfir fyrirvaralaust, þar sem engin takmörk eru sett fyrir því, hvað sárafáa menn þarf til þess að lýsa yfir vinnustöðvun, þar sem ekkert er hugsað um það, þó að stórkostleg verðmæti eyðileggist, og þar sem tiltölulega smávægilegur ágreiningur um gerða samninga er látinn valda vinnustöðvun, þar hlýtur fyrr eða síðar að skapast alvarlegur glundroði í þjóðfélaginu, því að ef þessar aðferðir eru sífellt notaðar af öðrum aðiljanum, þá sýnir reynslan, að hinn aðilinn grípur að lokum til enn harðvítugri aðferða. Deilunum fjölgar, andstæðurnar magnast og að lokum verður ekki við neitt ráðið. Og það er ettirtektarvert, að yfirleitt hefir þessi leikur endað þannig, að verkalýðssamtökin hafa beðið hnekki eða brotnað saman algerlega, eins og ýms einræðislönd eru nú talandi tákn um. Hinsvegar hefir niðurstaðan fyrir verkamannasamtökin alveg orðið gagnstæð þessu annarsstaðar, svo sem á Norðurlöndum, Bretlandi og víðar, þar sem verkamenn hafa skilið það í tíma, að setja deilunum hæfileg takmörk, ýmist með sættum eða lögum.

Í þessu sambandi verður ekki hjá því komizt að benda á þá hættu, sem verkamönnum og þeirra samtökum stafar af hinum svokölluðu hvítu verkföllum, sem andstæðingar verkamannasamtakanna hafa víða beitt til þess að brjóta samtök þeirra niður. Hvítu verkföllin eru þannig, að fjandmenn verkamannasamtakanna koma umboðsmönnum sínum inn í samtök verkamanna og koma á hinum hvítu verkföllum í skjóli verkfallsréttarins. Á þennan hátt hafa verkföll víða orðið svo tíð og umfangsmikil, að forystumenn verkamannasamtakanna réðu ekki við þau. Með þessum hætti hafa andstæðingar verkamannasamtakanna komið á ástandi, er nálgast upplausn í atvinnulífi þjóðanna. Fyrir þessi verkföll voru svo verkamannasamtökin gerð ábyrg, og óvinsældir risu gegn verkamönnunum; það skapaðist uggur og andúð gegn þeim, og víða misstu þeir sjálfir trúna á sín eigin samtök. Krafan um hinn sterka mann varð almenn í þjóðfélaginu, og það er einmitt á þann hátt, sem einræðið hefir viða komizt á og verkalýðssamtökin hafa verið brotin algerlega niður. Það er nær algilt lögmál, að ef frelsið er misbrúkað og rétturinn misnotaður, þá endar það með því, að þeir, sem það gera, missa hvorutveggja. Ástandið í hinum niðurbrotnu verkamannasamtökum sumsstaðar erlendis talar sannarlega sínu skýra máli til aðvörunar í þessu efni, og hin sterku verkamannasamtök á Norðurlöndum eru hinsvegar fordæmi, sem áreiðanlega eru til eftirbreytni.

Við framsóknarmenn höfum fyrir löngu skilið hina brýnu nauðsyn vinnulöggjafar fyrir verkamannastéttina, fyrir atvinnulífið og fyrir þjóðina í heild. Lögin um sáttatilraunir í vinnudeilum er eini vísirinn til vinnulöggjafar hér á landi. Þessum lögum var komið á fyrir atbeina framsóknarmanna á Alþingi. Þessi lög hafa reynzt til bóta, en þau ná allt of skammt. Ég hreyfði því á flokksþingi framsóknarmanna 1931, hve mikil nauðsyn væri á því, að koma hér á vinnulöggjöf, hliðstætt því, sem tíðkast á Norðurlöndum, og framsóknarmenn hafa einatt staðið óskiptir að þessu, nauðsyn þess hefir verið mikið rædd í blöðum flokksins og reynt að koma aðiljum í skilning um hana. En til þess að vinnulöggjöf komi að gagni, þurfa vinnuveitendur og verkamenn sjálfir að skilja nauðsyn hennar, eins og ég hefi áður bent á, en hér á landi hefir þetta mál því miður mætt sáralitlum skilningi hjá báðum aðiljum. Magnús Guðmundsson sat að völdum áður en þessi ríkisstjórn tók við, sem yfirmaður atvinnumálanna, í rúm 2 ár, án þess að gera nokkuð til þess að koma hér á vinnulöggjöf eða yfirleitt að hreyfa við málinu á nokkurn hátt. Ég hreyfði þessu máli nokkuð í útvarpsræðu, sem ég flutti í byrjun ársins 1936, og reyndi þar að færa rök að því, að þessi löggjöf væri þörf og að hún væri nauðsynleg, ekki síður fyrir verkamenn heldur en vinnuveitendur. Tilefni til þess var m. a. það, að þá var nýafstaðið hið svokallaða bilstjóraverkfall, sem sjálfstæðismenn stóðu aðallega fyrir ásamt kommúnistum og stóð raunverulega utan við hin venjulegu verkamannasamtök. Þetta var því eitt af hinum fyrstu hvítu verkföllum hér á landi, sem var beinlínis til stofnað til að reyna að koma á kné ríkisstjórninni, sem verkamannasamtökin eiga sinn fulltrúa i. Önnur tilraun til að koma hvítu verkfalli á hér á landi var, þegar formaður Sjálfstfl. ásamt nokkrum flokksmönnum sínum ætlaði að koma hér á hinu margumtalaða og fyrirhugaða síldarverkfalli. Var á þann hátt reynt að draga verkamannasamtökin út í verkfall, sem gæti riðið ríkisstjórninni að fullu og ef til vill hefði getað komið hér á algjöru greiðsluþroti ríkisins, ef það hefði tekizt. Á þetta stig eru verkföllin komin hér, og það undrar mig, að verkamannasamtökin virðast ekki hafa veitt því athygli og þeirri hættu, sem af því stafar. Þess hefir verið getið hér í umræðunum, eins og rétt er, að sjálfstæðismenn lögðu fram á síðasta þingi frv. til vinnulöggjafar, og mun það frv. aðallega hafa verið samið af formanni Vinnuveitendafélags Íslands, Eggert Claessen. Í sjálfu sér er nú ekki nema gott um það að segja, eins og við framsóknarmenn létum og í ljós, að ákveðnar till. kæmu fram um þetta á Alþingi, en á þessu var þó sá stóri galli, að þetta frv. var engin sætt milli aðilja, eins og erlendis hefir víða tíðkazt, eða samkomulagsgrundvöllur, heldur aðeins till. frá öðrum aðiljanum, vinnuveitendum. Og það er ekki hægt að neita því, að þetta frv. hefir vakið verulega tortryggni hjá verkamönnum, sjálfsagt ennþá meiri tortryggni heldur en það raunverulega á skilið. Og það verður að teljast eðlilegt. Það er vitað, að sjálfstæðismenn, eða fyrr íhaldsmenn, hafa staðið gegn ýmsum sjálfsögðum réttarbótum fyrir verkalýðinn, og nægir þar að benda á togaravökulögin og verkamannabústaðina, sem við framsóknarmenn komum fram með fulltrúum verkamanna gegn vilja íhaldsmanna. Verkamenn hafa því fulla ástæðu til að vera tortryggnir, þegar till. koma fram frá öðrum aðilja. Það getur því ekki komið til mála, enda er það þvert ofan í þær reglur, sem hafa verið látnar gilda um afgreiðslu þessara mála erlendis, að afgreiða þetta frv. á þingi í fyrra. Æskilegt hefði verið, eins og ég tók þá fram, að setja mþn. í málið, svo sem hæstv. forseti þessarar d. kom fram með till. um, en þá till. dagaði uppi, eins og áður hefir verið skýrt frá. Atvmrh. dró það lengur en æskilegt hefði verið að skipa nefnd til að athuga og undirbúa þetta mál. En eftir að alþýðusambandsþingið kom saman í haust og tók sæmilega í þessi mál, þótt skilningur hefði mátt vera öllu meiri, var n. skipuð, eins og kunnugt er. Það hefir verið fundið að því, að þessi n. var aðeins skipuð fulltrúum frá Alþfl. og Framsfl., en það var í alla staði eðlilegt, þegar það er athugað nánar, að Sjálfstfl. og vinnuveitendur höfðu lagt fram sínar till. á Alþingi, en verkamannasamtökin og S. Í. S., sem er stór atvinnurekandi og hefir staðið utan við samtök atvinnurekenda, höfðu ekki látið í ljós sína skoðun um málið. Ég gerði mér vonir um, að þessi n. mundi geta lokið störfum svo snemma á þessu þingi, að hægt væri að koma fram fullkominni vinnulöggjöf á þinginu, en svo var ekki. N. hefir þó þegar unnið mjög mikið starf, og vinnuaðferðir hennar hafa verið gerólíkar því, sem áður hefir átt sér stað í undirbúningi þessa máls; hún hefir haldið um málið milli 50 og 60 fundi, og framsöguræða hv. þm. N.-Þ. í þessu máli og grg., sem fylgir frv., ber þess ljósan vott, hvernig vinnubrögð n. hafa verið. Með því að leggja fram þessi 2 frv., um sáttatilraunir í vinnudeilum og félagsdóm, er jafnframt grg. þeirri, sem fylgir frv. um félagsdóm, lagður sterkur grundvöllur að undirbúningi og yfirvegun löggjafar um vinnusamninga og samningsrétt og um vinnustöðvanir, sem lögð hafa verið nokkur drög að í n. og enn er skammt á veg komið, því að ágreiningurinn í n. er raunverulega um það, að jafnaðarmennirnir vildu ekkert leggja fram núna, en framsóknarmenn töldu hinsvegar, að þessi frv., sem hér liggja fyrir, væru þegar nægilega undirbúin, eins og þau bera með sér, og vildu svo halda áfram að undirbúa hin frv. og bera þau fram síðar. Og ég álít þessa vinnuaðferð framsóknarmanna ólíkt skynsamlegri, því að með hinni ýtarlegu grg. þessa frv. fá aðiljar, verkamenn og vinnuveitendur, nákvæma skýrslu um það, hvernig þessi mál standa erlendis, og sú fræðsla er hinn rétti grundvöllur undir þann áfanga, sem verður að stiga næst í þessu máli. Við framsóknarmenn álitum, að það væri réttara að stíga skrefið á þann hátt eins og við höfum gert með þessu frv. einmitt vegna þess, að verkamönnum hefir, eins og hv. þm. N.-Þ. minntist á, ekki verið gert það nægilega ljóst, að vinnulöggjöf er fyrir þá ekki réttarskerðing, heldur þvert á móti vernd fyrir þeirra samtök og vernd gegn misnotkun samtakanna og verkfallsréttarins, eins og reynslan erlendis hefir sýnt, og reynslan hér er byrjuð að sýna. Það eru mér líka talsverð vonbrigði, hvernig blöð verkamanna hafa tekið í þetta mál, því að einhvern tíma verður að byrja á því, að skýra þeim frá því satt og rétt og hvaða þýðingu málið hefir fyrir þá. Í Alþýðublaðinu 7. apríl birtist grein með fyrirsögninni „Vinnudómsfrumvarp Framsóknar samið upp úr þrælalagafrumvarpi Eggerts Claessens“. Hér er ótvírætt gefið í skyn eftir þeirri túlkun, sem frv. sjálfstæðismanna hefir fengið, að það frv., sem hér liggur fyrir frá Framsfl., sé einskonar þrælalög fyrir verkamannasamtökin. Ég vil nú spyrja þá menn, sem hafa látið skrifa um þetta mál: Hvar er vinnulöggjöf frjálslyndari og réttlátari fyrir verkamannasamtökin í löndum, þar sem þeirra fóstbræður ráða, en í frv. því, sem hér liggur fyrir, ef það yrði að lögum? Ég vænti þess, að fá svar, og vænti þess, að verkamenn taki vel eftir svarinu. Það kemur mér hinsvegar ekkert á óvart, að dagblaðið „Vísir“ segir 3. apríl í grein um málið: „Vinnulöggjöf Tímamanna er meinlaust kák“. En þetta er einnig jafnósatt, því að samkvæmt því ætti vinnulöggjöfin á Norðurlöndum, sem þó er einna bezt um þetta efni, að hafa verið kák allt fram til ársins 1930, því að þá giltu næstum samskonar lög þar um þessi atriði. Morgunblaðið segir einnig sama dag, að ákvæði þessa frv. gangi of skammt, og kemur það engum á óvart. En blað kommúnista, Þjóðviljinn, kveður við sinn tón og segir í fyrirsögn fyrir grein um málið 7. þ. m.: „Framsókn leggur til að takmarka verkfallsrétt verkalýðsins og banna verkamönnum málfrelsi um tillögur, er varða kjör þeirra. Framsókn leggur til grundvallar löggjöfinni hið svívirðilega fyrirkomulag, sem dönsku alþýðuflokksforingjarnir gengu inn á.“ Þetta er náttúrlega allt saman ósatt í aðalatriðum, m. a. það, að dönsku verkalýðsforingjarnir hafi gengið inn á hina dönsku vinnulöggjöf, því að aðalfrv. báru þeir fram sjálfir.

Þessara ummæla vitna ég ekki til vegna þess, að þau séu í sjálfu sér merkileg, heldur vegna þess, að þau eru eftirtektarverð; þau sýna eins og svo ott áður afstöðu Framsfl. og hinna flokkanna, þegar verið er að leysa eitthvert stórt og viðkvæmt vandamál í þessu þjóðfélagi. Það mætti benda á mörg mál, þar sem aðstaðan hefir verið svipuð, það má m. a. minna á lausn lögreglumálanna. annarsvegar stóð Íhaldsflokkurinn og síðan Sjálfstfl., sem vildu hafa fjölmennan her, sem kostaði hundruð þúsunda króna á ári, í baráttunni gegn verkalýðnum, og hinsvegar kommúnistar og Alþfl., sem svöruðu þessum öfgum frá hægri með því að vilja enga umbót og enga aukna lögreglu. Framsfl. valdi sína leið í því máli, og það er hann, sem hefir komið hér upp myndarlegu lögregluliði með tiltölulega vönduðum útbúnaði. Og það er skemmst að minnast útvarpsumræðnanna um Kveldúlfsmálið; þar var það annarsvegar Sjálfstfl., sem stóð að hinu alræmda Pálmatilboði, og hinsvegar Alþfl., sem vildi láta bankana kasta frá sér einni milljón til þess að geta gert félagið gjaldþrota; einnig þar fór Framsfl. sína leið. Og það má enn minna á útvarpsumræðurnar í efri deild um útvegsmálin; þar var annarsvegar Sjálfstfl., sem vildi láta útgerðina halda áfram í sama farinu, hafa skipstjóra með verðlaun af brúttóafla, og oft óhæfilegan tilkostnað að öðru leyti, og láta svo ríkið gefa fyrirtækjunum nógu mikið eftir, þegar þau geta ekki staðið í skilum; hinsvegar var þar Alþfl., sem sá það eina úrræði, að gera fyrirtækin gjaldþrota og láta ríkið taka reksturinn í sínar hendur; einnig þar bendir Framsfl. á sína leið. Við framsóknarmenn krefjumst þess, að vinnudeilur séu háðar að lögum og á lýðræðisgrundvelli. Við vitum, að atvinnulífið á Íslandi er ekki það traustara en annarsstaðar, að það þoli löglausar vinnudeilur á byltingagrundvelli. Við vitum, að hóflausar vinnudeilur, háðar gegn lögum og með ofbeldi, skapa lömun í atvinnulífinu og glundroða og valda upplausn í þjóðfélaginu. Við vitum það, og bendum íslenzkum verkamönnum á reynsluna, að þegar þetta upplausna rástand er skapað, þá nota deyjandi hægri flokkar með deyjandi málstað hin óbilgjörnu og hóflausu verkföll frá vinstri sem réttlætingu þess, að beita sjálfir ofbeldi og brjóta verkamannasamtökin niður til fulls. Þess vegna fylgjum við framsóknarmenn því fast fram, að vinnulöggjöf sé sett hér eins og í öðrum löndum, er hafa siðmenningu. En við viljum, að þessi löggjöf sé eins réttlát fyrir verkamenn eins og þar, sem hún er réttlátust.