12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í C-deild Alþingistíðinda. (1894)

102. mál, félagsdómur

*Héðinn Valdimarsson:

Hv. þm. Snæf. sagði, að með lögum frá 1915 væri opinberum starfsmönnum ríkisins bannað að taka þátt í verkföllum. Þetta er rétt. En síðan alþfl. fékk fulltrúa á Alþingi, hefir stöðugur áróður verið frá hendi íhaldsins fyrir því, að rýra verkfallsrétt verkalýðsins, svo að það hefir ekki verið byrvænlegt fyrir flokkinn, að fá breytt þessum l. En ég tek hv. þm. nú á orðinu, úr því að hann og hans flokkur vill fylgja því, að afnema þetta bann, og skora á hann að bera fram frv. um það.

Hv. þm. N.-Þ. sagði, að gerðardómur hefði verið látinn dæma í Sogsdeilunni um árið. En sá var munur á því máli og ákvæðum þessa frv., að þá komu báðir aðiljar sér saman um það fyrirfram, að hlíta dómsúrskurði um ágreininginn, en hér er verið að stofna gerðardóm fyrirfram, áður en til ágreiningsmála kemur. Ég vil heimta sama sjálfsákvörðunarrétt og gildir í hliðstæðum sérmálum fyrir Búnaðarfélag Íslands og bændur una vel við. Og hefir nokkur viljað taka af þeim þann rétt?

Hv. 8. landsk. var að spyrja að því, hvers vegna við vildum ekki fylgja vissum kafla í frv. hv. sjálfstæðismanna. Ég hefi skýrt frá því, að það er margt í frv., sem Alþfl. mun aldrei samþ., sérstaklega skaðabótaákvæðin o. fl. Það er öllum kunnugt, að Eggert Claessen, framkvæmdastjóri Vinnuveitendafélagsins, hefir höfðað hvert skaðabótamálið á fætur öðru á hendur Alþýðusambandinu til þess að reyna að gera það gjaldþrota. Þessi skaðabótaákvæði í frv. hv. sjálfstæðismanna eru sett til þess, að Eggert Claessen geti síðar farið í slík skaðabótamál út af vinnudeilum. — Þá var hv. 8. landsk. að segja, að það væru ekki hagsmunir verkamanna, sem réðu í 14. gr. samþykkta Alþýðusambandsins. Ég vil aðeins benda á, að það er fleira en fagleg mál, sem tekin eru fyrir á þingum alþýðusambandsins, þar eru líka til meðferðar pólitísk mál, sem tekin er afstaða til. En úr því að hv. þm. kom inn á þetta, þá væri þess vert að athuga, hvernig kosning fulltrúa á flokksþing sjálfstæðismanna gengur fyrir sig, þar sem fjöldi fulltrúa er tilnefndur af miðstjórn flokksins, eins og hjá Mussolini.

Ég vil að síðustu taka það fram, að þegar fara á að takmarka rétt verkalýðsins í þessum efnum, þá verður eitthvað að koma á móti. Lögin þurfa þá að ná til allra vinnustöðvana, líka þeirra, sem vinnuveitendur gera. Gerir þetta frv. það? Nei, það nær ekki til togaranna. Þeir mega enn segja, sem togarana hafa: Við gerum þá ekki út, af því að það borgar sig ekki. Þeir fara ekki út, nema kaupið lækki. Það eru mörg fleiri verkföll, sem ákvæði þessa frv. ná ekki til, t. d. eins og mjólkurverkfallið sæla og síldarverkfallið í fyrra. Nei, þetta frv. nær aðeins til fátækustu stéttarinnar í þjóðfélaginu, sem engin vopn hefir fyrir sig að bera, nema verkfallsréttinn, sem nú á að taka af henni.