13.04.1937
Neðri deild: 37. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í C-deild Alþingistíðinda. (1905)

103. mál, sáttatilraunir í vinnudeilum

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Ég get verið fáorður um þetta frv., vegna þess að í umr. um félagsdóm í gær, var að nokkru leyti gerð grein fyrir þessu frv. Þetta frv. er, eins og tekið er fram í grg., samið af nefnd, skipaðri af atvmrh. 15. des. síðastl., til að undirbúa og semja löggjöf viðvíkjandi vinnudeilum. Þetta frv., eins og frv. um félagsdóm, er sniðið eftir þeim lögum og reglum, sem tíðkast á Norðurlöndum sérstaklega, en við samningu þessa frv. hefir n. tekið tillit til gildandi l. í Bretlandi. Hér eru í gildi lög um sáttatilraunir í vinnudeilum, en með þessu frv. eru þau gerð fyllri og tryggara að sáttatilraunir takist en með núgildandi lögum. Í 1. og 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að sáttasemjurum sé fjölgað og landinu skipt í fjögur umdæmi með einum sáttasemjara í hverju. Þetta eru samskonar ákvæði og gilda í Noregi. Þetta er gert með það fyrir augum, að betur náist til alls landsins en ef það er allt eitt umdæmi, enda sést við athugun á starfi núverandi sáttasemjara, að hann hefir lítið gert að því að semja í deilum í landshlutum fjarri Reykjavík. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að þegar sáttasemjari ber fram till. til málamiðlunar milli aðilja, þá séu þær bornar undir atkv. félaga verkamanna og atvinnurekenda, og þarf ákveðinn hluti félagsmanna að hafa greitt atkv. og ákveðinn hluti þeirra að hafa verið á móti till., til þess að hún sé felld. Þetta er tekið óbreytt úr dönsku sáttasemjaralögunum, sem voru samþ. árið 1934, og var þessi till. borin fram þar af félagsmálaráðherra. Hinsvegar er hér ekki tekin upp sú regla, sem gilti í Noregi um nokkurra ára skeið, en hún er tekin upp í frv., sem 2 aðrir þm. flytja hér á Alþ. En sú regla mun nú afnumin í Noregi. Sömuleiðis er ákveðið í þessu frv., að sáttasemjari geti látið fara fram atkvgr. um miðlunartill. í fleira en einu félagi í einu og telja síðan saman atkv. á eftir. Þetta er tekið fram í dönsku lögunum frá 1930.

Í 16. gr. er ákveðið, að ef ekki tekst að fá lausn vinnudeilu með sáttatilraunum, getur ríkissáttasemjari birt skýrslu um helztu atriði málsins opinberlega, gang þess og útlit. Þetta er byggt á því, sem talið er mjög þýðingarmikið í Bretlandi, þ. e. að skapa skilyrði fyrir því, að almenningur geti fylgzt með málinu og haft áhrif á það með dómi sínum. Ég skal ekki fjölyrða frekar um frv.; ég tel það óþarfa vegna þess, hve mikið það hefir verið rætt almennt. Leyfi ég mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og allshn.