07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í C-deild Alþingistíðinda. (1915)

105. mál, Byggingarsjóður sveitanna

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég get ekki fallizt á röksemdir flm. um tekju- og eignarskattinn. Það munu allir vita og fallast á, sem kunnugir eru þessum málum, að ef einhverjar eignir eru undanþegnar skatti, þá skapast þar möguleiki til undandráttar í stórum stíl. Ég fullyrði því, að þessi leið er óheppileg, og ég felli mig betur við bein framlög. Hv. 7. landsk. sagði, að það væri ekki nema eðlilegt, að afstaða sín og annara hefði breytzt síðan 1928, því að það væru allt aðrar aðstæður nú og miklu meiri þörf nú fyrir bændur að fá hagkvæm lán og styrki. Ég býst við, að það sé rétt, að það sé yfirleitt erfiðara fyrir bændur nú heldur en 1928, sérstaklega vegna þess, hvað vond ár hafa komið síðan 1928, t. d. árin 1932–33, en það réttlætir ekki mótspyrnu hv. þm. gegn frv. um byggingar- og landnámssjóð og meðhald þeirra gegn sama máli nú, af þeirri ástæðu, að það voru margir bændur 1928, sem ekki gátu byggt nema fyrir atbeina byggingar- og landnámssjóðs.