07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í C-deild Alþingistíðinda. (1918)

105. mál, Byggingarsjóður sveitanna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég skal vera stuttorður. Það eru 2 atriði í þessu máli, sem mig langar til að benda á, í fyrsta lagi það, sem hæstv. fjmrh. hefir þegar bent á, að með ákvæðum 4. gr., þar sem talað er um, hvernig afla skuli fjár í þennan sjóð, er gengið inn á nýja, stórhættulega braut. Með henni eru þegnum þjóðfélagsins gefnir möguleikar til þess að eiga fé með tvennskonar réttindum, annarsvegar fé, sem er laust við allar skyldur og skatta, og hinsvegar fé, sem allt á að hvíla á. Og þó að ég geti verið sammála hv. 7. landsk., að það sé kannske einna brýnust þörf að ná í fé til að endurbyggja bæi í sveitum landsins og þess vegna geti skeð, að við tveir gætum verið sammála um, að þörfin væri svo brýn, að hún réttlætti þetta, þá geta aðrir tveir orðið sammála um, að þörfin væri brýnust hjá útgerðinni eða iðnaðinum og því ætti að fara þessa leið til að hjálpa þessum atvinnuvegum sérstaklega. M. ö. o. það yrði endalaus ágreiningur um, hver ætti að hljóta þessi sérréttindi, ef á annað borð þessi leið er opnuð.

Ég álít því, að stórhættulegt sé að ganga inn á þessa braut, og mun því ekki fylgja frv. í þessum búningi, þó að ég geti greitt því atkv. til n. En ég geri ráð fyrir, að mér og hv. 7. landsk. komi saman um, að þörfin sé brýn og nauðsynlegt að hefjast handa sem fyrst. Nú höfum við hv. þm. Mýr. borið fram frv., sem gengur í svipaða átt, en nær þó ekki eins langt og þetta yfirborðsfrv. En ég vil benda á, að með því að samþ. frv. okkar er málið þegar komið af stað að nokkru leyti, því að þá verður þegar á þessu ári hægt að byggja um 50 bæjum fleira en annars. En ef ætti að koma þessu frv. í gegn, þá yrðu fyrst fram að fara deilur um þessi sérréttindi, sem á að veita kapitalistunum með þessu frv. Og þó að frv. vrði samþ. að endaðri þeirri deilu, þá yrði það samt ekki neinum að gagni fyrr en að ári. Þess vegna held ég, að jafnvel þeir, sem vilja fylgja þessu frv. af því að þeir vilji ganga lengra en við leggjum til, eigi, til þess að fá málið strax af stað, að fylgja okkar frv. nú, þó að þeir hugsi sér strax á næsta þingi að víkka farveginn út með einhverju af þeim ákvæðum, sem felast í þessu frv. Þess vegna vil ég skora á alla þá, sem vilja vinna að endurbyggingu býla, sem liggur við auðn, að fylgja frv. okkar, þó að þeir vilji ganga lengra en þar er gert.