07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í C-deild Alþingistíðinda. (1920)

105. mál, Byggingarsjóður sveitanna

*Pétur Ottesen:

Það er rangt hjá hæstv. fjmrh., að í grg. þessa frv. sé sneitt að nokkrum hv. þm. Þar er eingöngu rætt um málið sjálft og þá þýðingu, sem það hefir fyrir bændastétt landsins.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að það hefðu komið fram raddir hjá sjálfstæðismönnum að þetta væru ölmusugjafir og annað þess háttar. Ég skal ekki um það segja, hversu mikið má leggja upp úr þessum orðum hæstv. ráðh., en hann ætti að minnast þess, að það hafa einnig úr hans flokki komið fram raddir um ölmusugjafir til bændanna í sambandi við annan styrk þeim til handa, sem sé kreppuhjálpina. Þegar formaður Framsfl. var að deila við fyrrv. flokksmann sinn, Svein á Egilsstöðum, þá fór hann ekki leynt með það, að hann teldi kreppuhjálpina ölmusugjöf til handa íslenzkum bændum. Það er því bezt fyrir hæstv. ráðh. að minnast þessa tals um ölmusur áður en hann fer að finna upp tilbúið ölmusutal úr munni annara manna.

Út af því, sem hv. 2. þm. N.-M. fór að ræða um þetta frumv. og annað frumv. í því sambandi, þá vil ég segja það, að hann fór þar með rangt mál. Hann sagði, að það fé, sem gert er ráð fyrir, að aflað verði með þeim hætti, sem lagt er til í frv., yrði undanþegið öllum sköttum og skyldum. Hér er aðeins gert ráð fyrir, að ekki verði tekinn skattur samkv. l. um tekju- og eignaskatt, en er eftir sem áður skattskyldur skattstofn fyrir öll önnur gjöld. Þetta er eingöngu til þess að hægt sé að afla með þessu móti ódýrra lána bændum til handa til að byggja upp á jörðum sínum. Það er tilraun til að afla þeim lánsfjár, sem þeir geta notað. Tekjur af landbúnaðinum eru svo litlar, að eins og nú er verða bændur, sem reisa hús, að afskrifa allt að helmingi byggingarkostnaðarins. Af þessu má öllum vera ljóst, og ekki sízt þeim, sem þykjast hafa skilning á kjörum bænda, að það fyrsta er að reyna að afla ódýrra lána til þessara bygginga.

Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að ef frv. hv. þm. Mýr. og hans yrði samþ., væri hægt að veita 50 þús. kr. til bygginga og hjálpa 50 bændum til þess að byggja í ár. Ég hefi átt tal við þá, sem standa fyrir lánunum úr byggingar- og landnámssjóði, og mér er kunnugt um, að þar er búið að úthluta hverjum einasta eyri í ár, Þetta er því ekkert annað en blekking, því að nú er þar ekkert fé til ráðstöfunar fram yfir það, sem búið er að veita (BÁ: Ræktunarsjóður), og fjöldi manna bíður eftir að geta fengið lán úr byggingar- og landnámssjóði, en fé hrökk ekki til, og gátu þeir því ekki fengið neina úrlausn. Þetta er því argasta blekkingartilraun hjá hv. 2. þm. N.-M.