09.04.1937
Neðri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í C-deild Alþingistíðinda. (1938)

106. mál, fiskimatsstjóri

*Thor Thors:

Það vita allir, að hv. 1. þm. Rang. er mjög kappsfullur maður, og ég skil vel hans kapp og met það venjulega. En ég verð að segja það, að í þessu tilfelli hefir hann gengið nokkuð langt, ekki sízt í því, að telja upp ávirðingar eins utanþingsmanns, sem enga aðstöðu hefir til þess að verja sig her.

Mér er ekki nægjanlega kunnugt um sum atriðin, sem hv. þm. gat um, en ég vil geta þess, að krafan um bindingu fiskjarins kom frá spönsku innflytjendunum til ríkisstj. Það kom því núv. fiskimatsstjóra ekkert við. — Um Norðurlandsfiskinn, sem hv. þm. talaði um, að hefði verið illa metinn, er það að segja, að það var fiskimatsstjóri, sem lét meta þennan fisk að nýju, en ekki yfirfiskimatsmaður. Bréfið, sem hv. þm. gat um áðan, frá Portúgal, er ekki frá umboðsmanninum í Oporto, heldur sölumanninum í Lissabon, sem hefir unnið að útbreiðslu ísl. fiskjar allt frá byrjun.

Þegar þess er gætt, hversu erfitt er að ná fótfestu fyrir okkur á markaðinum í Portúgal, af því að við getum ekki gert nógu mikið, verður að telja mikinn ávinning, þegar sagt er, að gæði okkar voru séu orðin það mikil, að hún beri af. Það sé okkar traustasta reipi, hversu gæði fiskjarins séu jöfn. Þetta er mikill ávinningur, og það verður vart metið til fjár, hversu mikinn hag við höfum af slíku áliti.

Ég er ekki í neinum vafa um það, hvað sem liður kvörtunum manna í einstaka tilfellum hér heima, að fiskimatsstjóri hefir eftir beztu getur og vilja reynt að tryggja, að við næðum því marki, sem við nú höfum náð, og hann hefir átt sinn verulega þátt í því, að það hefir náðst.