24.02.1937
Efri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

20. mál, fjárforráð ómyndugra

*Pétur Magnússon:

Það er sjálfsagt nauðsynlegt að gera þessa lagfæringu á tilsk. um fjárforráð ómyndugra, frá 1847, sem gerð hefir verið með bráðabirgðalögum, en ég vil skjóta því til þeirrar hv. n., sem fær málið til meðferðar, hvort hún vildi ekki fara yfir þessa tilsk. og vita, hvort ekki væru fleiri ákvæði í henni, sem þörf eða jafnvel nauðsyn væri á að breyta. Án þess að ég hafi athugað þetta sérstaklega, tel ég víst, að það sé fleira í tilsk., sem sé beinlínis nauðsynlegt að breyta, og úr því að hreyfing er komin á málið, fyndist mér æskilegt, að hv. n. tæki málið til rækilegrar athugunar.