16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í C-deild Alþingistíðinda. (1952)

109. mál, viðreisn sjávarútvegsins

Flm. (Jónas Guðmundsson):

Frumv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 151 og nefnt er frumv. til l. um ýmsar ráðstafanir til viðreisnar sjávarútveginum, er flutt af öllum þm. Alþfl. í neðri deild, ásamt hv. þm. V.-Ísf. Ásgeiri Ásgeirssyni. Okkur er það sönn ánægja, að Sjálfstfl. skuli hafa óskað eftir útvarpsumr. um þetta frv. Alþfl., sem óhætt má telja eitt hið merkasta frv., sem á síðari árum hefir legið fyrir Alþingi.

Hversu þýðingarmikil ákvæði frv. þetta hefir að geyma til hagsbóta fyrir sjávarútveginn, má mest marka á því, að enginn stjórnmálaflokkanna hefir þorað að ráðast á frumv., hvorki á þeim grundvelli, að það, sem þar er lagt til, sé óframkvæmanlegt af fjárhagslegum ástæðum, né hinu, að þær leiðir, sem þar er bent á, séu rangar og því ekki rétt að fara þær.

Hinsvegar hafa blöð Sjálfstfl. talið, að ýms ákvæði í frumv. þessu séu tekin frá sjálfstæðismönnum, og ég býst við, að þeir muni við þessar umr. halda fram einhverju svipuðu. Vil ég því taka það fram strax, að svo er ekki um eitt einasta atriði frumv., heldur kemur hér fram það sama, sem svo oft hefir áður komið fram, að þegar Alþfl. eða Framsfl. hafa barizt árum saman fyrir lausn merkra mála, og þeirri baráttu er svo langt komið, að þær tillögur, sem fyrir eru lagðar af þessum flokkum, eru orðnar það ákveðnar og hafa orðið við svo mikil rök að styðjast, að ekki verður lengur gegn þeim staðið, þá kemur Sjálfstfl. og þykist hafa verið með þessum málum og barizt fyrir þeim. Nægir hér að minna á, að svona hefir þetta verið t. d. í málum eins og rýmkun kosningaréttarins, breytingu á kjördæmaskipuninni, verkamannabústöðunum, kjötlögunum, mjólkurlögunum, framfærslulögunum, og nú síðast í dragnótaveiðunum.

Nákvæmlega það sama á sér stað í þeim málum, sem frumv. þetta fjallar um, að fyrir því, sem þar er fram borið, hefir Alþfl. beitt sér undanfarin ár, og að frumv. það, sem hér liggur fyrir, er ekkert annað en beint framhald af fyrra starfi flokksins á þessum vettvangi, en gegn því flestu hefir Sjálfstfl. barizt með hnúum og hnefum, meðan Alþfl. var að afla þeirrar nauðsynlegu reynslu, sem þurfti til þess að verulegar og skipulagsbundnar framkvæmdir gætu hafizt.

Áður en ég vík að efni frv. sjálfs, vil ég færa rök að því, sem ég nú sagði, og sýna fram á, hvernig Alþfl. hefir barizt fyrir lausn þessara mála, og er þau rök að finna í starfsemi flokksins í útgerðarmálunum á undanförnum þingum. Á fyrsta þingi núv. stjórnarflokka var afnumið gjald af landbúnaðarafurðum og lækkað stórlega útflutningsgjald af síld. Það kom þá skýrt í ljós, að það var vilji stjórnarflokkanna að létta þessu gjaldi af, þó fjárhagsástæður ríkissjóðs leyfðu ekki, að hann væri þá í einu sviptur um 1 millj. króna tekjum.

Þá hvíldi einnig á útgerðinni annað gjald, ennþá tilfinnanlegra og hærra en útflutningsgjaldið, og það var gjald það, sem þá var greitt til markaðs- og verðjöfnunarsjóðs. Það gjald var afnumið á þinginu 1935. Alþfl. hefir því unnið að því að létta útflutningsgjöldunum af bæði landbúnaðar- og sjávarafurðum, þó hann hinsvegar sem fullábyrgur stjórnarflokkur hafi orðið að taka þar tillit til ástæðna ríkissjóðs og samstarfsflokks síns — Framsfl.

Á fyrsta þingi núv. stjórnarflokka bar Alþfl. fram og beitti sér fyrir því, að sett var löggjöf um skipulagningu fisksölunnar og nýbreytni í verkunaraðferðum. Voru það lögin um fiskimálanefnd, útflutning fiskjar, hagnýtingu markaða o. fl. Á sama þingi bar Alþfl. fram og fékk samþ. lög um síldarútvegsnefnd og skipulag á síldarsölu og síldveiðum.

Lögin um fiskimálanefnd eru fyrsti vísir að löggjöf hér á landi um að breyta verkunaraðferðum í fiskframleiðslunni, og var fiskimálanefndinni falið að hafa tilraunir í því skyni með höndum og heimilað að verja 1 millj. króna af ríkisfé í þar tilraunir. Sú grein laganna, sem um það fjallar, er svo hljóðandi:

„Ríkisstjórninni er heimilt að veita einstaklingum og félögum lán eða styrk til þess að gera þeim kleift að koma upp tækjum til þess að verka fisk og aðrar sjávarafurðir með nýjum aðferðum, svo sem herðingu, hraðfrystingu o. fl., svo og til þess að gera tilraunir með útflutning og sölu sjávarafurða á nýja markaðsstaði, enda leggi þá markaðs- og verðjöfnunarsjóður einnig fram fé í sama skyni.

Fiskimálanefnd sér um veitingu lána og styrkja samkv. 1. málsgr. eftir reglum, sem ríkisstj. setur, að fengnum till. fiskimálanefndar, og mega lánin vera vaxtalaus um tiltekið árabil.

Ríkisstjórninni er heimilt að verja allt að 1 millj. króna samkv. ákvæðum þessarar gr., og heimilast að taka þá upphæð að láni, eða jafngildi hennar í erlendri mynt.“

Í þessari grein felst stefna Alþfl. í þessu efni. Flokkurinn taldi rétt að fara ekki hraðara af stað í byrjun, en byggja síðar á þeirri reynslu, sem af þessum tilraunum fengist. En gegn setningu þessara laga — og þar með gegn því, að tilraunir væru hafnar í þessum málum — barðizt Sjálfstfl. allur og óskiptur og við afgreiðslu málsins frá þessari hv. d. greiddi hver einasti þingmaður Sjálfstfl. atkvæði móti lögunum.

Okkur Alþfl.mönnum var það þá þegar ljóst, að saltfiskmarkaðurinn var í þeirri hættu staddur, að hann hlaut að hrynja að verulegu leyti á næstu árum, eins og líka hefir komið á daginn. En með þessari lagasetningu var hægt að hefja byrjunartilraunir, sem voru nauðsynlegur undanfari þess, að í stærri stíl yrði lagt út á þessa braut.

Nákvæmlega hin sama var afstaða Sjálfstfl. til síldarútvegsmálanna, eins og til laganna um fiskimálan., og það er svo fjarri því, að þeir hafi átt þar frumkvæði að nokkurri nýtilegri hugmynd, að þeir hafa þar, eins og gagnvart fiskimálanefnd, gert allt, sem í þeirra valdi hefir staðið til að vinna þar gegn allri nýbreytni og skapað ókyrrð og deilur um þau mál, og það svo, að stundum hefir horft til vandræða. Á þinginu 1935 fékk Alþfl. breytt lögunum um fiskimálanefnd á þann hátt, að stofnaður var sérstakur sjóður — fiskimálasjóður — og honum tryggðar nokkrar tekjur.

Hlutverk þess sjóðs er hið sama og ákveðið var í þeirri grein laganna um fiskimálanefnd, er ég áður las upp, sem sé það, að veita styrk til að verka fisk og aðrar sjávarafurðir með nýjum aðferðum, svo sem herðingu, hraðfrystingu, niðursuðu o. fl.

Og nú hefir fyrir atbeina fiskimálanefndar fengizt nokkur reynsla í þessu öllu: Herðing fiskjar — sérstaklega ufsans — hefir aukizt svo mjög, að sýnilegt er, að sá atvinnuvegur getur átt mikla framtíð fyrir sér, sérstaklega hér á Suðurlandi.

Hraðfrysting hefir verið reynd í allstórum stíl sumstaðar — sérstaklega hér í Reykjavík — og sýnir sú reynsla, að þar getur legið að verulegu leyti framtíðarlausnin í okkar útvegsmálum, ef fljótt er við brugðið og skynsamlega á þeim málum haldið.

Niðursuða fiskjar og sjávarafurða hefir og verið reynd með sæmilegum árangri og sýnir, að hér er unnt að framleiða góðar og útgengilegar niðursuðuvörur.

Þá má benda á, að fyrir aðgerðir fiskimálanefndar og síldarverksmiðjustjórnar hefir hafizt hér í landi alveg nýr og áður óþekktur atvinnurekstur, sem er karfaveiðar og hagnýting karfans.

Þetta verð ég að láta nægja, en þetta ætti að vera nóg til þess að sýna og sanna, að það er Alþfl., sem frumkvæðið átti að öllum þessum nýmælum, að það var hann, sem með tilstyrk Framsfl. kom þessum málum það á veg, sem þau enn eru komin, og það er Sjálfstfl., sem unnið hefir gegn þeim, fyrst og fremst hér á Alþingi, og þó ekki síður utan þings, með látlausum árásum á fiskimálanefndina og starfsemi hennar. Nægir þar að benda á, að í fyrra flutti form. Sjálfstfl. frumv. um að leggja nefndina niður, og nú liggur hér fyrir frá öðrum sjálfstæðismanni frv. um að fækka nefndarmönnum og með því að gera nefndina verr hæfa til að inna störf sín af hendi. Auk þess hefir Sjálfstfl. í hverju máli, þar sem tók hafa verið á, veizt að nefndinni á hinn fautalegasta hátt.

Allt tal hv. sjálfstæðismanna í blöðum þeirra um, að eitthvað af till. okkar sé frá þeim komið, er því hin hreinasta fjarstæða og hefir við svo lítil rök að styðjast, að ef segja átti sannleikann, er hann sá, að þeir hafa alltaf verið því andvígir, að reynsla fengist í þessum efnum.

Þá verður heldur ekki komizt hjá því, áður en vikið er að efni frv., að minnast á afstöðu Alþfl. á undanförnum þingum til togaraútgerðarinnar. Okkur hefir um mörg ár verið það ljóst, að sérstakra aðgerða hefir þurft til þess að togaraflotinn yrði endurnýjaður. Við fluttum því á þingunum 1935 og 1936 frv. til laga um útgerð ríkis og bæja. Bentum við þar á leið til endurnýjunar og aukningar á togaraflotanum og dreifingu þeirrar útgerðar í kaupstaði og kauptún landsins, þar sem vilji og geta væri fyrir hendi til þess að taka þátt í slíkri útgerð. Þetta frv. mætti á báðum þessum þingum mótstöðu beggja flokkanna, sjálfst.- og framsóknarmanna.

Það ætti að vera óþarft að taka það fram, að bæði þessi ár hefir frumvarpið verið flutt fyrst og fremst til þess að benda á ákveðna lausn á þessu þýðingarmikla máli, og til þess að geta orðið samningsgrundvöllur gagnvart samstarfsflokki okkar — Framsókn. En hann hefir neitað allri samvinnu um það mál bæði fyrr og síðar.

Afstaða Sjálfstfl. til tillagna okkar hefir verið sú, að þeir hafa talið frumvörp okkar flutt sem kosningamál — óframkvæmanleg með öllu, og nú er við höfum flutt hér á þinginu frumv. um uppgerð togaraútgerðarinnar, þá telja þeir það fjandskap einn við togaraeigendur.

Sjálfir hafa sjálfstæðismenn ekki borið fram nokkra till., er færi í þá átt, að endurnýjun togaraflotans gæti hafizt, og kleift yrði að kaupa ný skip, en einu sinni hafa þeir flutt frv. um að verja í millj. kr. úr ríkissjóði til skuldaskila, aðallega fyrir núv. togarafélög.

Nú er öllum landslýð orðið það ljóst, hvernig hag togaraútgerðarinnar er komið. Stærsta togarafélag landsins er gjaldþrota og hefði verið gert upp af bönkunum, ef Framsfl. hefði ekki notað fulltrúa sína í bönkunum til þess að bjarga því í bili. Hin önnur togarafélög eru flest svipað á vegi stödd. Um endurnýjun af hálfu núv. eigenda eða aukningu flotans verður því ekki að ræða. Aðgerðir í þeim efnum verða að koma frá því opinbera — frá Alþingi.

Þá vil ég að lokum minnast á það, að á þinginu 1936 fluttum við allir þm. Alþfl. í neðri deild frv. um breyt. á lögum um Fiskveiðasjóð Íslands, þar sem heimilað var að velta lán út á 2. veðrétt í nýjum vélbátum, og er sá kafli þess frv. tekinn óbreyttur að kalla upp í frv. það, sem hér liggur fyrir.

Frumv. það, sem hér er til umr., verður að skoðast út frá því sjónarmiði, er ég hefi hér lýst. Frumv. er beint framhald af tillögum okkar og tilraunum á undanförnum þingum til þess að skipa þessum málum með þeim hætti, sem kleift er og reynslan hefir sýnt, að fara ber. En ég vil taka það skýrt fram, að við teljum að viðfangsefni þau, sem frv. þetta gerir ráð fyrir að leyst verði, verða að leysast í einu lagi, og þeim verður að vera samfara uppgerð á fjárreiðum þeirra togaraútgerðarfyrirtækja, sem fyrir eru í landinu og eru svo skuldum hlaðin, að rekstur þeirra getur ekki borið sig. Það er margsýnt, að kreppuhjálp, í hverri mynd sem hún er veitt, verður ekki að gagni nema jafnframt sé tryggt, að rekstur fyrirtækjanna geti borið sig fjárhagslega við þau skilyrði, sem fyrir hendi verða, þegar uppgerð fyrirtækjanna hefir farið fram.

Þetta kom greinilega í ljós í bændakreppunni, og hið sama mun sýna sig, er frá liður, um skuldaskil útgerðarmanna og kreppuhjálp bæjar- og sveitarfélaga. Sú hjálp öll verður þýðingarlitil, ef framleiðslan getur ekki staðið undir rekstrinum til frambúðar, eða bæjar- og sveitarfélög fá ekki tekjur til að mæta þeim gjöldum, sem á þau eru og verða lögð.

Ég skal þá rekja hér aðaldrætti frumv. á þskj. 151. Því hefir áður verið greinilega lýst í þingfréttum útvarpsins, og er því óþarfi fyrir mig að fara ýtarlega í hvert einstakt atriði.

Í frv. þessu er það lagt til, að útflutningsgjald af saltfiski verði ekki innheimt frá 1. maí 1937 til 1. maí 1939, eða næstu 2 ár.

Er þetta gert til þess að létta byrðar saltfisksframleiðenda, en þeir eiga nú allra framleiðenda erfiðasta aðstöðu. Þetta mundi þýða um 225 þús. króna tekjumissi fyrir ríkissjóð, og þá sennilega tilsvarandi tekjuhalla fyrir ríkissjóð á yfirstandandi ári. En þegar á það er litið, hversu stórkostleg framlög saltfisksframleiðendur hafa greitt á undanförnum árum til ríkissjóðs, er ekki nema sanngjarnt, að þeim verði veitt þessi ívilnun nú, jafnvel þó ekki yrði séð fyrir tekjum í skarðið.

Þá leggjum við til, að útflutningsgjald á öðrum sjávarafurðum haldist óbreytt, en renni frá 1. jan. 1938 í fiskimálasjóð. Yrðu árlegar tekjur hans þá um 600 þús. krónur. Með þeim tekjum hefir fiskimálasjóður aðstöðu til þess að taka lán til framkvæmda þeirra, er í frv. felast, nú þegar, svo hefjast mætti handa þegar á þessu ári. Fiskimálasjóði er því heimiluð allt að 3 millj. króna lántaka, eða jafnhá upphæð í erlendum gjaldeyri. Sjóðnum er ætlað að taka lán þetta með ábyrgð ríkissjóðs, en standa að öllu leyti straum af því af árlegum tekjum sínum.

Með þessu eru að vísu teknar af ríkissjóði um 700 þús. krónur af tekjum þeim, sem hann nú hefir. Er það allstór upphæð, en þegar til þess er litið, í hverjum vanda sjávarútvegurinn er staddur, hygg ég, að fæstir hiki við að færa þá forn, ef öll rök hniga að því, að á þann hátt megi færa sjávarútveginn yfir á meiri framtíðargrundvöll en hann nú hvílir á. Þessi breyting er ætlazt til, að fari fram um næstu áramót og að við samningu fjárlaga fyrir 1938 verði tekið tillit til þessara breytinga á tekjum ríkissjóðs. Við erum fúsir til samstarfs um að tryggja ríkissjóði tekjur í skarðið eða færa útgjöld hans niður að einhverju leyti til að mæta þessum tekjumissi.

Í fjárlagafrumv. því, sem fyrir Alþingi liggur, eru styrkir til landbúnaðarins 2 millj. króna, og afkoma hans batnandi. Er því ekki til of mikils mælzt þó að sjávarútvegurinn fái að nota það gjald, sem hann nú, einn allra atvinnuvega, greiðir í ríkissjóð, til þess að rétta við hag sinn, ef það mætti með því takast.

Með þessum hætti viljum við tryggja fé til framkvæmdanna. Og þó nú þegar yrði tekið 3 millj. króna lán handa sjóðnum, og það lán væri ekki með betri skilmálum en þeim að 10% af láninu þyrfti árlega til vaxta og afborganagreiðslna, þá hefði fiskimálasjóður 300 þús. krónur árlega umfram vaxta og afborganagreiðslur af láninu til að mæta öðrum útgjöldum sínum og auka starfsemi sína.

Auðvitað er, að lánsheimild sú, sem hér er veitt, mundi ekki verða notuð öll í einu, heldur yrðu lánin tekin eftir því, sem þyrfti með til framkvæmdanna. Væri því kleift að veita lán þessi afborganalaust og jafnvel vaxtalaust um einhvern tíma, meðan skipun væri að komast á málin.

Annar kafli frv. fjallar um endurnýjun togaraflotans og 7. kafli þess um endurnýjun vélbátaflotans, og er rétt að þeir séu teknir hér saman. Er heimilað að veita lán til kaupa á allt að 6 nýtízku botnvörpungum, og má veita lánin bæjar- og hreppsfélögum, hlutafélögum og samvinnufélögum og einstökum mönnum. Lánin mega nema 23% af kaupverði eða kostnaðarverði skipanna, og verða veitt gegn 2. eða 3. veðrétti í skipum, enda sé tryggt, að erlendis fáist lán út á 1. og 2. veðrétt fyrir 55–65% af kaupverði skipanna, Eigendum er ætlað að leggja fram 70%, ef það eru bæjar- og hreppsfélög, sem kaupa skipin, en 20%, ef það eru félög eða einstaklingar. Þá er og heimilað að láni, sem fiskimálasjóður veitir til slíkra kaupa, megi breyta í hlutafjár- eða stofnfjárframlag, ef í hlut á bæjar- eða sveitarfélag, og virðist það mjög sanngjarnt, ef við sérstaka örðugleika yrði að stríða í útgerð skipanna á einhverjum stað.

þetta ákvæði hafa ýmsir viljað telja sem grímuklæddan ríkisrekstur, en því fer fjarri, að svo se. Þó framlagið yrði gert að hlutafé eða stofnfé í fyrirtæki með takmarkaðri ábyrgð, skapar það ekki ríkissjóði nein útgjöld vegna sjálfrar útgerðarinnar á skipinu, og enga áhættu umfram þá, sem tekin er á sig með því að veita 3. veðréttar lán til kaupanna. Hinsvegar gæti það verið léttir og styrkur fyrir það bæjar- eða sveitarfélag, sem í hlut ætti. Lán til vélbátabygginga eru hugsuð á þann veg, að fiskimálasjóður láni skipasmíðastoð innlendri, er byggja vill báta til sölu, 25% byggingarkostnaðar báts eða skips undir 60 smál., og sé skipasmíðastöðin skyld til að láta jafnmikið lán hvíla á skipinu til kaupandans, er hún selur það, enda séu vextir þeir sömu og skipasmíðastöðin greiðir til fiskimálasjóðs. Þessi lán mega vera vaxtalaus. Tryggingar fyrir þessum lánum eru skuldabréf skipseiganda og aðrar þær tryggingar frá skipasmíðastöð, er fiskimálanefnd tekur gildar. Lán þessi eru tryggð með öðrum veðrétti í skipunum og eiga að greiðast upp á 7 árum.

Þriðji kafli frv. er um byggingu hraðfrystihúsa. Fjórði kafli þess er um fiskimjöls-, síldar- og karfavinnsluverksmiðjur, sem eigi eru stærri en 600 mál, og fimmti kafli þess um niðursuðuverksmiðju. Þar sem meginatriði frv. um allar þær framkvæmdir, sem í þessum köflum eru ráðgerðar, eru svipuð, tek ég þá alla í einu.

Svo er fyrir mælt, að fiskimálanefnd skuli falið að rannsaka, hvar þarf að reisa hraðfrystihús eða síldar- og karfavinnsluverksmiðjur til þess að tryggja smáútveginum greiðan aðgang að þessum fyrirtækjum, og gera tillögur þar um, í hvaða röð þetta skuli koma til framkvæmda. Eins skal hún fara að um niðursuðuverksmiðjur. Þegar þetta hefir verið ákveðið og samþ. af ríkisstj., skal hefja framkvæmdir. Fiskimálasjóður leggur fram einn fjórða hluta af stofnkostnaði allra þessara fyrirtækja, og er það afturkræft framlag, en skoðast sem eign fiskimálasjóðs í fyrirtækjunum og veitir fiskimálanefnd íhlutun um stjórn fyrirtækjanna, ef þess er óskað.

Þá skal fiskimálasjóður styrkja með lánum eða ábyrgðum: frystihús með 60% stofnk., síldarverksmiðjur með 40% og niðursuðuverksmiðjur með 75%.

Hlunnindi laganna má veita bæjar- og hreppsfélögum, hlutafélögum og samvinnufélögum til að reisa fyrirtæki þessi. Ábyrgðar bæjar- og sveitarfélaga er hægt að krefjast fyrir hluta af láni og ábyrgð fiskimálasjóðs. Þá er og heimilað, að lán og styrk megi veita til að koma hraðfrystitækjum fyrir í frystihúsum, sem fyrir eru, þegar lögin koma til framkvæmda, svo og, að styrks skuli njóta þau frystihús og síldarbræðslur, sem þegar hafa verið reist með aðstoð ríkissjóðs eða fiskimálasjóðs.

Nánari ákvæði eru sett um styrk til veiðarfærakaupa, þar sem teknar yrðu upp nýjar veiðiaðferðir, svo sem dragnætur, og að styrk megi veita til kaupa á nýjum og áður lítið eða ekki þekktum veiðarfærum hér á landi. Þá er loks fiskimálanefnd heimilað að kaupa eða byggja til eigin starfrækslu hraðfrystihús í Reykjavík.

Ýms önnur ákvæði, sem nánar tiltaka það, sem hér hefir verið sagt, hefir frv. að geyma, en þetta eru aðalatriði þess, og læt ég nægja að geta þeirra.

Með þessu frv. er, eins og ég áður hefi sagt. aðeins haldið áfram og gert ákveðnara það starfssvið, sem fiskimálanefndinni var falið að starfa á, og fé tryggt til framkvæmdanna. Hversu hratt yrði farið í málunum, yrði að vera á valdi ríkisstjórnar og fiskimálanefndar, en vitanlega yrðu kröfurnar úr hinum ýmsu bæjar- og sveitarfélögum um þessi hlunnindi miklu um það valdandi, hversu fljótt gengi.

Engum kemur þó til hugar að halda, að þeim framkvæmdum, sem hér eru ráðgerðar, yrði lokið á skemmri tíma en 4 árum, og mætti þá kallast vel áfram haldið.

Hvað mundi nú kosta framkvæmd þessa frv., ef í hana væri ráðizt? mun vafalaust margur spyrja.

Ég skal leitast við að gera grein fyrir því, og er þá farið eftir upplýsingum bæði frá atvinnumála- og fiskimálanefnd um þau atriði, sem skýrslur liggja fyrir um, en áætlað eftir því, sem verður komizt í öðrum atriðum.

Til þess að þetta geti orðið sem ljósast, er réttast að taka sérstaklega styrkina og sérstaklega lánin eða ábyrgðirnar, sem sjóðnum er ætlað að veita eða takast á hendur.

Skulu þá fyrst teknir styrkirnir:

Ef byggð yrðu 20 hraðfrystihús og hvert þeirra væri áætlað að kosta 100 þús. krónur, þyrfti að veita til þeirra allra í styrk

kr. 500000,00

Ef reistar yrðu 6 síldarbræðslu-

og karfavinnslustöðvar e. 250

þús. = 1,5 .................. — 625000,00

Ef reistar yrðu 6 niðursuðuverk-

smiðjur hver á 50 þús. kr. _

300000,00 .................... — 75000,00

Veiðarfærastyrkur (áætlaður) — 25000,00

Styrkir samtals kr. 1225000,00

Lánin yrðu þessi:

Til togarakaupa

6 skip e. 700 þús. kr.

hvert = 4200000,00

1/4 þar af 1050000,00 — 1050000,00

Eigið framlag 10% 420000,00

Erlend lán með 1. veð-

rétti 2830000,00

Til hraðfrystihúsa 60%

af 6 millj. 1200000,00

Til síldarverksmiðjanna

40% af 1,5 millj. .. 600000,00

Til niðursuðuverksm.

75% af 300 þús. .... 225000,00

Til vélbátabygginga 200

smál. e. 500,00 (á

ári) .............. 100000,00

_______________

Lánin samtals kr. 3175000,00

Alls verður þá niðurstaðan þessi, ef kaupa á í einu 6 togara, byggja 20 hraðfrystihús, 6 síldarverksmiðjur, 6 niðursuðuverksmiðjur, styrkja veiðarfærakaup og bátabyggingar allríflega og lána allt til þess, umfram hin lágu tilskyldu framlög:

að styrkirnir verði samtals kr. 1225000,00

að lánin verði samtals … .. — 3175000,00

_____________

Samtals kr. 4400000,00

Og mun þetta vera mun lægri upphæð en eitt einasta togarafélag landsins skuldar nú í höfuðbanka þjóðarinnar í föstum skuldum auk rekstrarlána!

Framlög fiskimálasjóðs nema ekki meiru í allt í þessu skyni en samanlagðar tekjur hans mundu nema á 2 árum, eða afgangur hans, frá því að standa undir 3 millj. króna láni, mundi greiða upphæðina að fullu á 4–5 árum.

Lánin eða ábyrgðirnar, sem sjóðurinn tæki að sér, nema ekki samtals nema röskum 3 millj. króna, og eru það lán, sem tryggð eru með fyrsta veðrétti í frystihúsum og verksmiðjum, að upphæð rúml. 2 millj. króna, en hin, sem tryggð eru með 2. veðrétti í skipum og bátum, 1150 þús. króna. Á þeim lánum er hættast við, að sjóðurinn tapaði, en þó hann tapaði því öllu, er það ekki nema helmingur þess, sem landbúnaðurinn fær á einn einasta ári í beinan styrk úr ríkissjóði.

Það skal og viðurkennt, að hér er um ekki óverulegar lántökur að gera, bæði af hálfu fiskimálasjóðs og einstaklinga eða félaga. Vafalaust mætti taka allmikið af þessum lánum innanlands, en nokkuð yrði að takast erlendis. En hins verður þá einnig að gæta, að allar þessar ráðstafanir miða að því, að skapa erlendan gjaldeyri, og það í þeim löndum og það á þeim mörkuðum, þar sem sá gjaldeyrir er frjáls.

Ég hefi þá sýnt fram á, að framkvæmd þess alls, sem sanngjarnt væri að krefjast að leyst yrði af hendi á 4 árum, kostar hið opinbera ekki þær fornir í fjárframlögum eða lántökum, að í það sé horfandi. 1 millj. og 100 þús. krónur kæmu að meðaltali á hvert ár, og þyrfti þá árleg lántaka ekki að nema meiru en sem svaraði 1/2 milljón króna, ef gengið er út frá, að tekjur sjóðsins væru kr. 600 þús. á ári, og oft þyrftu lántökurnar ekki að vera svo háar út á frystihúsin og verksmiðjurnar í öðrum lánsstofnunum.

Þetta verð ég að láta nægja til að sýna, að frá hagsmunalegu sjónarmiði er þetta allt vel kleift, jafnvel þó því væri að verulegu leyti hrundið í framkvæmd á skemmri tíma en 4 árum.

Að lokum mun ég þá minnast nokkuð á afstöðu þingflokkanna þriggja til útgerðarinnar og málefna hennar.

Á afstöðu Alþfl. hefi ég minnzt hér á undan og einnig nokkuð vikið að stefnu Sjálfstfl. En stefna hans er í fám orðum sú, að látast vilja gera ýmislegt til viðreisnar, en þegar tillögur hans koma fram, eru þær vanhugsaðar eða vantar þann fjárhagslega grundvöll, sem nauðsynlegur er til framkvæmdanna. Vil ég því til sönnunar benda á tvö frumv., sem Sjálfstfl. hefir flutt hér á Alþingi. Hið fyrra var um „fiskiráð“ og flutt af form. flokksins, Ól. Th. Var þar gert ráð fyrir því að stofna ráð, sem ekkert vald var veitt til neinna framkvæmda, heldur átti að vera einskonar ráðgefandi samkoma, sem enginn þurfti að fara eftir frekar en honum sýndist, og ekki hafði veitt fé til umráða til að koma þeim málum í framkvæmd, sem þetta ráð nú annars hefði viljað hrinda af stað.

Hitt frv. þeirra er frv. það um byggingu hraðfrystihúsa, sem nú liggur fyrir þessari hv. deild, Þegar ég fyrir alllöngu síðan flutti í sam. þingi till. til þál. um, að ríkið styrkti verksmiðjuna á Norðfirði með fjárframlagi, benti ég á, að sjálfsagt væri, að bæði hraðfrystihús og smærri síldarverksmiðjur yrðu styrktar á sama hátt og frystihús kaupfélaganna og mjólkurbúin hafa hingað til verið styrkt. Þessa hugmynd mína grípa sjálfstæðismenn og bera fram frumv. um þetta efni. En svo vanhugsað er þetta frv. þeirra, að ekki eru nein tök á að samþ. það eins og það er. Það er vanhugsað af því, að ekki eru þar nein ákvæði um, hvernig fé skuli fá til framkvæmdanna. Ríkinu eru hvorki tryggðar tekjur til að standast útgjöldin við þessar ráðstafanir né heldur veitt heimild til lántöku í þessu skyni. Og enn er það vanhugsað af því, að þar er ekki heimilað að styrkja uppsetningu hraðfrystitækja í hús, sem nú eru fyrir, svo sem öll frystihús kaupfélaga og samvinnufélaga, sem auðvitað er sjálfsagt að nota, þar sem það er hægt. Samþykkt þessa frv. eins og það er þýddi því engar framkvæmdir í þessum málum, heldur pappírslög, sem væru einskis virði.

Þeir sjálfstæðismenn hafa engar tillögur borið fram til viðreisnar og endurnýjunar togaraútveginum, en verið andvígir öllu, sem í málum útvegsins hefir verið gert á undanfornum árum.

Stefna Framsóknar í útgerðarmálum hefir verið ákaflega óljós og reikandi. Ef marka skal hana af þeim frv., sem flokkurinn hefir flutt hér á Alþingi, er þar ekki um auðugan garð að gresja. Þeir hafa þó nú á nokkrum þingum flutt frv. til laga um útgerðarsamvinnufélög, en hver sá, sem nokkurn hlut þekkir til við sjávarsíðuna, hlýtur að sjá það strax, að það frumv., eins og það hefir legið fyrir, er algerlega óframbærilegt. Valda því þau ákvæði frv., að hlutur skipverjanna skuli hækka og lækka í samræmi við rekstrarafkomu félagsins eftir á. Þetta getur ekki þýtt annað, ef tap verður á rekstrinum, en að það skuli að öllu leyti ganga út yfir sjómennina og þá aðra, sem fyrir hlut eru ráðnir. Sjá allir, hversu óframkvæmanlegt slíkt er, því samkv. því má ekki skila þeim neinu af hlut sínum fyrr en í lok útgerðar, og ef tapið er þá það mikið, að nema mundi öllu kaupi skipverja eða meiru, sem vel gæti verið og oft hefir orðið á vélbátum, fengju mennirnir ekkert, — ekki einu sinni til að framfleyta sér og sínum meðan á útgerðinni stendur.

Ég er hér ekki að mótmæla því, að samvinnuútgerð geti átt rétt á sér. En eigi hún að vera til, verður að tryggja þeim, sem við hana vinna, hlut sér til framfærslu, alveg eins og bændur landsins þeir, sem nú eru í samvinnufélögunum, nota afrakstur búa sinna fyrst og fremst sér og sínum til lífsframfærslu, en láta það, sem afgangs verður, upp í viðskipti sín við kaupfélag sitt, eða í afborganir og vexti. Afstaða Framsóknar til togaranna og stórútgerðarinnar yfirleitt er þó ennþá óákveðnari en afstaða þeirra til smáútvegsins. Sannleikurinn mun vera sá, að í þeim efnum hefir flokkurinn enga stefnu. Hann virðist vilja láta reka á reiðanum þar, þangað til gjaldþrot bankanna verður afleiðingin, eins og átti sér stað í tíð íhaldsins, er ýms stórfyrirtæki, sem þá eyddu milljónum af fé landsmanna, voru búin að gera aðalbanka landsins (Íslandsbanka sáluga) gjaldþrota, áður en þingið rumskaði.

En Framsfl. er ekki stætt með það, að hafa enga stefnu í málum stórútgerðarinnar. Hann verður þar annaðhvort að hallast á sveif með Sjálfstfl. eins og hann nú hefir gert með því að hindra gjaldþrot Kveldúlfs og beita sér gegn því, að rannsókn fari fram á hag stórútgerðarinnar, eða hann verður að vera með Alþfl. í því að finna leiðir til viðreisnar þessum þýðingarmesta atvinnuvegi landsmanna.

Sá ágreiningur, sem nú hefir orðið milli Alþfl. og Framsfl., stafar eingöngu af þessari vandræðaafstöðu Framsfl. Hann hefir neitað að ræða þetta mál við okkur, og nú þegar hann þurfti um það að velja, hvort hefja ætti nýtt tímabil í togaraútveginum með því að stærsta togarafélag landsins yrði yfirtekið til rekstrar með tilstyrk þess opinbera, þá lagðist flokkurinn svo gersamlega á sveif með Sjálfstfl., að hann beinlínis varð til þess að bjarga fyrirtækinu.

Við eigum því engan kost annan, Alþfl.menn, en þann, að leggja fram mál okkar fyrir alþjóð, svo hún megi sjá, hvað það er, sem við viljum, og hvað það er, sem Framsókn vill ekki. Þess vegna höfum við flutt hér á Alþingi þau fjögur frumv., sem sérstaklega marka afstöðu okkar í þessum málum, en það eru:

1. Frv. um breyt. á lögum Landsbankans, til þess að fyrirbyggja, að of miklu fé verði veitt í einstök fyrirtæki og að eftirgjafir verði veittar umfram lögákveðin takmörk.

2. Frv. um skiptameðferð á búi h.f. Kveldúlfs — til þess að sýna, hverjum tók um við teljum, að eigi að taka þau fyrirtæki, sem of djúpt eru sokkin í skuldir.

3. Frv. um ráðstafanir til stuðnings togaraútgerðinni, þar sem við bendum á, hvaða leið muni heppilegast að fara til að létta þeim skuldabyrðum af togaraútgerðinni, sem á henni hvíla nú, og skapa henni möguleika til að komast á heilbrigðan grundvöll — og

4. Frv. um ýmsar ráðstafanir til viðreisnar sjávarútveginum, sem hér liggur fyrir til umr. og ég hér hefi lýst.

Það erum ekki við, Alþfl.menn, sem nú stöndum á mikilsverðum vegamótum, heldur er það samstarfsflokkur okkar — Framsókn. Hún á nú að velja um, hvort hún hallast til hægri eða vinstri í pólitíkinni, því um þessi mál kemur deilan til með að standa í næstu framtíð.

Ég skal engu spá um það, hvorn kostinn hún velur, en Alþfl. hefir lagt fram sín rök og sína stefnu, og henni munum við fylgja.

Ég vil svo að lokum endurtaka það, að við teljum lausn allra þessara mála svo samtvinnaða, að hún verði að fást í einu — með ákveðinni heildarlöggjöf um þennan mikilvægasta þátt íslenzks atvinnulífs — sjávarútveginn.