16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í C-deild Alþingistíðinda. (1954)

109. mál, viðreisn sjávarútvegsins

*Bergur Jónsson:

Á ófriðarárunum varð allmikil bylting í þjóðlífi Íslendinga. Á sumum árum þessa tímabils græddu ýmsir af einstaklingum þeim, sem síldveiðar ráku, stórfé, svo sumir voru jafnvel taldir milljóneigendur. Á næsta ári eftir ófriðinn, árið 1919, var svo komið um mánaðamótin ágúst-september, að saltsíldartunnan var komin upp í 97–99 kr. Hefði slík sala vafalaust gefið ca. 200% ágóða. En á sölunni var ekkert skipulag, og útgerðarmennirnir virðast hafa litið á atvinnurekstur sinn eins og áhættuspil, sem þeir hefðu leyfi til að spila eins djarft í eins og þeim sýndist. Meginþorri þeirra þáði eigi þessi kostakjör, en heimtaði eina eða hálfa krónu í viðbót. Afleiðingin varð sú, að þeir, sem ætluðu að kaupa, gerðu samtök með sér um að kaupa ekkert af Íslendingum; meginhluti síldarinnar varð verðlaus og eigendurnir sköpuðu sjálfum sér og þjóðinni 10–11 millj. kr. tap. Þetta varð gjaldþrot hins óskipulagða einkaframtaks og samkeppni í síldarsölunni. Síldarbraskararnir reyndu síðan að koma á skipulagi, en gátu eigi. Síldareinkasala var stofnuð. Hún fór verr en skyldi, en hefir þó vafalaust gert meira gagn en ógagn. Loks árið 1931, eftir að núv. stjórnarflokkar tóku við völdum, koma þeir skipulagi á síldarsöluna með lögum um síldarútvegsnefnd, útflutningi á síld, hagnýtingu markaða o. fl. Það skipulag hefir gert ómetandi gagn. Söltunarleyfi og verkunarleyfi eru eigi gefin út umfram það, sem óhætt er, svo unnt sé að selja síldina. Lágmarksverð hefir verið ákveðið og milliliðagróði minnkaður svo sem fært hefir verið. verðmæti venjulegrar saltsíldar og sérverkaðrar síldar hefir líka hækkað úr 1 millj. 400 þús. kr. 1934 í 2 millj. 100 þús. 1936.

Annað, sem Framsfl. fyrst og fremst hefir hrundið í framkvæmd fyrir síldarútveginn, er stofnun síldarbræðsluverksmiðjunnar á Siglufirði. Var það eldheitt áhugamál hins mikla látna áhugamanns, Magnúsar Kristjánssonar fyrrv. ráðh. Nú er svo komið, að ríkið. hefir síldarbræðsluverksmiðjur, sem geta brætt 8200 mál á sólarhring, aðrar verksmiðjur geta brætt 9500 mál. Aukning afkasta frá 1934 eru 4300 mál, eða ca. 70%. Með aukningu síldarbræðslunnar hefir síldarútvegurinn verið gerður að stórfelldum og tiltölulega tryggum atvinnuvegi. Framleiðsla síldarbræðsluafurðanna hefir aukizt um 33% frá 1934, og verðmæti til sjómanna um 324%, eða rúmlega þrefaldast. Loks er rétt að geta þess, að með lausn Kveldúlfsmálsins, sem sósíalistar þykjast í agitations-tilgangi vera mótfallnir, kemur upp ný síldarbræðsluverksmiðja, sem á að getur brætt um 2400 mál á sólarhring.

Þá nokkur orð um fisksölumálin. Sama samtakaleysið og braskið, sem átti sér stað í síldarsölumálunum, sérstaklega 1919, var líka í fisksölumálinu nærri búið að glata fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Aðalbankinn í landinu, Íslandsbanki, lánaði með taumlausri óforsjálni til fiskkaupa og fisksölubrasksins, ekki sízt til fiskibraskarans Coplands. Afleiðingin varð 10 millj. kr. lántaka 1921, með veðsetningu tolltekna ríkisjóðs, fyrir aðstoð Kúlu-Andersens og annara slíkra, og var fénu að mestu leyti sökkt í skuldahít Íslandsbanka, sem síðan brundi 1930. Nokkur heppnisár björguðu því í bráð, þótt lítt virðist þau hafa verið notuð til þess að leggja upp til síðari ára. En er markaðsörðugleikarnir skullu yfir, stóðu einstaklingsframtaks- og samkeppnismennirnir niðalausir og urðu loks að neyðast til þess að brjóta boðorð hinnar frjálsu samkeppni og mynda með sér samtök árið 1932. voru það 3 stærstu fisksalarnir, Kveldúlfur, Alliance og þeir, sem stóðu að baki Ólafi Proppe, sem mynduðu þá með sér sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda (S. Í. F.), fyrir forgöngu þáv. forsrh. Framsfl., Ásgeirs Ásgeirssonar, og bankastjóranna Helga Guðmundssonar og Magnúsar Sigurðssonar. S. Í. F. gerði áreiðanlega gagn, náði á eina hönd ca. 9/10 af saltfiski landsmanna og verðið hækkaði. En stjórnin var sjálfkjörin og ekkert skipulag að baki, sem tryggði réttlæti fyrir framleiðendurna og réttláta þáttöku í sölunni, auk þess sem framlenging samtakanna var aðeins ákveðin fyrir eitt ár í senn. Framsóknarmenn kröfðust samvinnuskipulags á fisksöluna, enda mátti þegar í ársbyrjun 1934 sjá fyrir hrun á Spánarmarkaðinum. Á þinginu 1934 settu svo stjórnarflokkarnir lögin um fiskimálanefnd. útflutning á fiski, hagnýtingu markaða o. fl., gegn harðvitugri mótstöðu Sjálfstfl. og hinna skoðunarlausu taglhnýtinga þeirra, hins svokallaða Bændaflokks. Fisksölumenn og framleiðendur urðu að velja um samvinnuskipulagið eða einkasölu. Var það fyrir áhrif framsóknarmanna, að samvinnuskipulagið var gert að aðalatriði, en einkasala neyðarúrræði, ef fisksalar gætu eigi skipulagt sig. S. Í. F. varð að beygja sig, og þótt skipulagið sé eigi reist á fullum lýðræðis- og samvinnugrundvelli, er það stór bót frá því, sem áður var, og stendur sennilega til bóta.

En nú skall fyrir alvöru á hrun saltfiskmarkaðarins, um ca. 20 millj. kr. verðmæti á ari. Spánn hefir lokazt alveg, Ítalía a. m. k. að hálfu og Grikkland má heita lokað nema til vöruskipta, og á Portúgalsmarkaðinum hefir orðið verðlækkun vegna innkaupasambands saltfisksinnflytjenda, hins svokallaða „Gremio“. Því var sjáanlegt, að hefjast yrði öflugra handa um að beina framleiðslunni inn á nýjar brautir, auka fjölbreytni í meðferð afurðanna og leita að og vinna nýja markaði. Í þessu skyni var fiskimálanefnd sett, fiskimálasjóður stofnaður og ríkisstj. heimilað að veita til hans allt að millj. króna.

Nefndin hefir unnið að fiskherzlu til útflutnings. Árið 1935 var flutt út úr landinu harðfiskur fyrir 117 þús. kr. Árið 1936 voru flutt út 560 tonn harðfisks, fyrir 315 þús. kr., og frá áramótum munu hafa verið seld um 270 tonn. Með fiskherzlunni komust í útflutningsverðmæti fiskitegundir, sem lítt eða ekki höfðu verið nýttar áður, svo sem ufsi og keila. Nú eru til í landinu tæki til fiskherzlu á 2000 tonnum.

Þá var byrjað á karfaveiðum og karfavinnslu fyrir atbeina fiskimálanefnda og síldarbræðsluverksmiðju ríkisins. Karfaafurðirnar 1936 seldust út úr landinu fyrir 1628 þús. kr. Rétt er að geta þess, að útgerðarfélagið Ó. Jóhannsson á Patreksfirði hefir reist nýtízku karfavinnsluverksmiðju fyrir 2 togara.

Með tilstyrk fiskimálanefndar hefir verið komið upp rækjuverksmiðju á Ísafirði, sem sauð niður 100000 dósir 1936, fyrir tæplega 50 þús. kr., þar af í vinnulaun og til sjómanna 30 þús. Rækjurnar hafa reynzt ágætlega, og má vafalaust vinna þeim markað erlendis. Virðist því líka sjálfsagt að verða við beiðni Bílddælinga um að styrkja þá til að stofna rækjuverksmiðju á Bíldudal, því í Arnarfirði munn hin beztu rækjumið, en kauptúnið í neyðarástandi vegna atvinnuleysis. Vil ég benda á, hve sjálfsagt er að leggja hönd á plóginn um stuðning við rækjuveiðar og vinnslu, þar sem 3/5 hlutar af fé því, sem til rekstrarins þarf, ganga til verkalýðsins.

Þá hefir nefndin staðið fyrir útflutningi á fiskflökum.

Með tilstyrk nefndarinnar og ríkissjóðs hafa verið reist 6 hraðfrystihús fyrir fisk, en það fé, sem veitt er til hraðfrystihúsa verður að skiptast svo, að ekki verði eingöngu reist ný hús fyrir það, heldur einnig veittur styrkur til þeirra húsa, sem hafa verið reist undanfarin ár.

Allt það, sem nú er talið, og fleira, sem eigi er tími til að telja, hefir orðið til þess að vinna að miklu leyti upp hið geysilega hrun á saltfiskmarkaðinum frá 1934. Er þetta tímabil, frá 1934–1936, fyrsta tímabilið í fjármálasögu okkar, sem bein fjárframlög hafa verið veitt úr ríkissjóði til eflingar og viðreisnar sjávarútveginum svo verulegu nemi. Til nýbreytninnar og markaðsleitanna hefir ríkissjóður lagt fram yfir 600 þús. kr. Nýjar afurðir hafa numið 2690000 kr., aukning á síld og síldarafurðum hefir numið 6538000 kr. Hefir heildarútflutningur sjávarafurða því aðeins orðið 470000 kr. minni árið 1936 heldur en 1934, þrátt fyrir hið stórkostlega hrun saltfiskmarkaðsins.

Samkv. lögum um skuldaskilasjóð vélbátaeigenda frá 1935 mátti verja 11/2 millj. til skuldaskila fyrir eigendur vélbáta undir 60 smál. Ríkissjóður hefir samkv. þessari heimild þegar veitt smáútgerðinni á aðra millj. kr. að láni í þessu skyni, og jafnótt og það fé kemur inn aftur rennur það í fiskveiðasjóð og verður þannig áfram útveginum til styrktar.

Alls hafa 122 menn með 157 vélbáta fengið lán úr sjóðnum, og þar að auki eftirgjöf á lánum 2 millj. 800 þús. Auk þess hefir verið lánað til 116 vélbátaeigenda 226 þús. kr. 250 þús. kr. var heimilað að verja á síðasta þingi til línuveiðagufuskipa.

Framsfl., og þá sérstaklega forsrh., Hermann Jónasson, hefir gert landhelgisgæzluna margfalt virkari en áður með uppljóstrun togaranjósnanna og raunverulegri útilokun þeirra framvegis.

Ég þykist hafa með þessu sýnt, að Framsfl. hefir eigi legið á liði sínu til þess að vinna sjávarútveginum allt það gagn, er hann mátti. Og vel ættu menn að athuga það, að allar aðgerðir flokksins hafa verið í fullu samræmi við flokksþingssamþykkt framsóknarmanna 1934. Er það lærdómsríkt til samanburðar við þá flokka, sem fyrir hverjar kosningar gylla sig í augum kjósenda með glamursfullum loforðum, sem þeir sumpart vita, að eigi er unnt að efna, sumpart ætla sér alls ekki að reyna að efna.

Á síðasta flokksþingi framsóknarmanna voru gerðar ýtarlegar samþykktir um sjávarútvegsmál, sem sýna vilja flokksins í þeim málum nú. Þar er lögð sérstök áherzla á að auka og tryggja tekjur útvegsins:

1. Með því að halda ötullega áfram tilraunum með að gera sem flestar fisktegundir að markaðsvöru.

2. að auka framleiðslu og nýtingu þeirra sjávarafurða, sem þegar hafa sýnt góðan árangur.

3. að halda áfram að reyna nýjar verkunaraðferðir, svo sem niðursuðu og reykingu, og ýta undir framleiðslu með þeim nýju verkunaraðferðum, sem vel hafa reynzt, svo sem fiskherzlu og hraðfrystingu.

4. að leita að nýjum fiskimiðum og að hagnýtum fiskitegundum á grunnmiðum,

5. að auka atvinnu í landinu og verðmæti útflutnings með því að senda afurðirnar sem mest unnar út úr landinu,

6. að halda einbeittlega áfram markaðsleitum fyrir sjávarafurðir.

Þá leggur flokkurinn sérstaka áherzlu á að tryggja heilbrigðan rekstur á síldarverksmiðjum ríkisins.

Til þess að létta kostnað útgerðarinnar er í samþykktunum lögð rík áherzla á að lækka verðið á vorum til útgerðar, svo sem olíu, veiðarfærum, kolum, salti, annaðhvort með löggjöf um hámarksverð eða hámarksálagningu á útgerðarvörum eða með samtökum útgerðarmanna um samvinnu við innkaup. Ennfremur lagði flokkurinn áherzlu á, að sjávarútveginum væri eigi íþyngt um of með kröfum um mannahald á skipum. Má merkilegt heita, að mjög sanngjarnar kröfur í þessa átt, sem ég hefi borið fram í frumvarpsformi á þinginu, hafa mætt illkynjaðri mótstöðu einmitt af hálfu flm. frv. um „viðreisn sjávarútvegsins“. Sýnir það vel skeytingarleysi þessara manna um fjárhagsafkomu sjávarútvegsins, að þeir vilja eigi létta t. d. af togaraútgerðinni 100 þús. kr. óþörfum kostnaði, þótt engin nauðsyn sé fyrir þessum útgjöldum.

Þá lagði flokksþingið áherzlu á að lækka tryggingarkostnað vélbáta og hefja rækilega rannsókn á því, hvernig smábátaútvegurinn yrði bezt studdur og rannsókn á því, hvernig bezt sé unnt að samræma og lækka vexti til útgerðar.

Ég vil geta þess hér, að í byrjun þessa þings sagði einn af hv. þm. Alþfl., Finnur Jónsson, við mig, að hann væri tilbúinn til samvinnu um viðreisn sjávarútvegsins, en flokksbræður hans hafa hlaupið fram fyrir skjöldu og ráðizt með illkynjuðum árásum í blöðum flokksins á frv. okkar framsóknarmanna. Alþfl. var vel kunnugt um, að við mundum ekki ganga inn á till. þeirra um ríkisrekstur, og má því með sanni segja, að þar séu aðeins skröktill.

Eitt atriði vil ég nefna, sem ekki hefir komið fram í umr. um þessa alhliða viðreisn sjávarútvegsins. Það eru hvalveiðarnar. Framhjá þeim má ekki ganga á þeim erfiðu tímum, sem nú eru fyrir sjávarútveginn. Það er til ein smá hvalveiðastoð hér á landi, sem einstaklingur hefir komið upp án nokkurs stuðnings frá ríkinu. annars en heimildar til að hafa þar 2 eða 3 erlend skip. Í bók, sem Rauðka er kölluð, gefin út af samnefndri n., þ. e. a. s. skipulagsnefnd atvinnumála, er talað, að með núv. verðlagi muni söluverð afurðanna geta orðið um 2 millj. kr. og að arðvænleg veiði muni geta enzt um 8–10 ár, en að mínu áliti mun hún geta enzt í 12–14 ár. Slíkri atvinnu og erlendum gjaldeyri höfum við ekki ráð á að kasta frá okkur. Vil ég benda á þetta sem eina leiðina til að bæta úr því hruni, sem orðið hefir við missi saltfiskmarkaðarins.

Við framsóknarmenn viljum stuðla að því, að aukin verði samvinnuútgerð í landinu á heilbrigðum fjárhagslegum grundvelli, þar sem þeir sem vinna að fiskframleiðslunni, eru sjálfir þátttakendur í útgerð og eiga beinna hagsmuna að gæta um rekstrarniðurstöðuna. Höfum við flutt frv. í þessa átt á 3 undanförnum þingum, en þau hafa ávallt verið svæfð af Alþfl. og Sjálfstfl. í sameiningu. Þó hafa þeir ávallt verið látnir vita, að flm. væru reiðubúnir til þess að athuga allar þær rökstuddar aths., sem fram kæmu við frv. Hinsvegar viljum við alls eigi samþ. ríkisútgerð til fiskveiða.

Við höfum látið sósíalista vita, að við erum fúsir til þess að verja útflutningsgjaldi sjávarafurða, sem getur numið um 700 þús. kr., að mestu eða olíu leyti til heilbrigðrar starfsemi fyrir sjávarútveginn, ef unnt væri að útvega ríkissjóði nauðsynlegan tekjustofn í staðinn. En þeir hafa eigi fengizt til að ræða málið alvarlega, en kasta hinsvegar út kosningabombufrv. um raunverulega ríkisútgerð togara, sem Framsfl. hefi lýst sig andvígan.

Að lokum vil ég taka þetta fram: Framsfl. er fullljóst, að fjárhagsafkoma og velgengni sjávarútvegsins er meginskilyrðið fyrir fjárhagsafkomu ríkissjóðs og þjóðarinnar. Fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar veltur ekki hvað sízt á honum.

Flokkurinn vill því styrkja á allan hátt fjárhagslega viðreisn sjávarútvegsins og leggja fram til þess fé svo sem frekast er unnt. En þá fyrst er útvegurinn er kominn á öruggan fjárhagslegan grundvöll með öruggan markað að baki sér, er vit í því að fara að leggja stórfé, sérstaklega er það fé fæst aðeins með nýjum milljónalántökum erlendis, í það að kaupa ný og dýr skip í stórum stíl. Nýjar erlendar lántökur í því skyni gátu valdið fjárþroti ríkisins, í stað þess að lyfta sjávarútveginum, svo hann gæti orðið það, sem hann vegna legu landsins, auðlegðar fiskimiðanna og dugnaðar sjómannastéttarinnar á að vera: Aðalgrundvöllur undir fjárhagsafkomu þjóðarinnar út á við.