16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í C-deild Alþingistíðinda. (1959)

109. mál, viðreisn sjávarútvegsins

*Flm. (Jónas Guðmundsson):

Á þeim (6 mínútum, sem ég hefi til umráða, get ég ekki miklu svarað af því, sem komið hefir fram af hálfu undstæðinga Alþfl. hér á undan. Ég vil meta meira hæstv. fjmrh. heldur en þá sjálfstæðismenn, sem ég gjarnan vildi svara nokkru, og byrja því á þeim atriðum í ræðu hans, sem ég tel rétt að svara.

Það, sem sérstaklega kemur fram hjá hæstv. fjmrh., er það, að hann telur ekki með þessu frv. stefnt að lausn sjávarútvegsmálanna á þeim grundvelli, sem hægt væri að vænta samstarfs um milli Alþfl. og Framsfl. eftir samstarfi þessara flokka að undanförnu. Þetta er rétt hjá hæstv. ráðh., — en vegna hvers? Af því að Framsfl. hefir þing eftir þing ekki fengizt til þess að taka afstöðu til þess, sem er stærsti þátturinn í viðreisn sjávarútvegsins, hvernig ber að endurnýja togaraflotann og koma rekstri hans á fjárhagslega heilbrigðan grundvöll. Og flokkur, sem skorast undan því þing eftir þing að taka ákvörðun um slík mál, getur ekki ætlazt til þess, að Alþfl., sem ber sjávarútveginn mjög fyrir brjósti, sætti sig við, að út úr þeim till., sem hann hefir rætt um við Framsfl. á undanförnum árum og síðast nú í vetur, verði tínt eitt og eitt atriði og því komið í framkvæmd. Eins og ég tók fram áðan, eru þær till., sem við höfum sett fram, ein samfelld heild, sem ber að líta á sem okkar stefnu í þeim málum, sem að sjávarútveginum lúta.

Þær aths., sem hæstv. fjmrh. hafði að gera við frv. það, sem hér liggur fyrir, voru harla lítilsverðar. Hann benti á, að við í grg. frv. töluðum um að hækka útsöluverð áfengis til þess að mæta brottfellingu útflutningsgjaldsins af sjávarafurðum. En við bendum á fleiri leiðir, t. d. að færa niður þau útgjöld, sem nú hvíla á ríkissjóði. Í frv., sem liggur fyrir hv. d., er yrt ráð fyrir, að lagður verði nýr skattur á verzlunarálagningu, sem einnig gæti gengið til þess að jafna þann halla, sem af burtfellingu útflutningsgjaldsins leiddi.

Hæstv. ráðh. talaði einnig um, að það væri ætlazt til, að fiskimálasjóður yrði gerður að áhættulánsstofnun með þessu frv. Það er rétt. Þess vegna er útflutningsgjaldinu ætlað að standa undir skuldbindingum fiskimálasjóðs, að hann á að vera áhættulánsstofnun. Fiskveiðasjóð Íslands, sem ekki er áhættulánsstofnun, þar sem hann lánar út á 1. veðrétt bátanna, á ekki að gera að áhættulánsstofnun, heldur á fiskimálasjóður að taka að sér áhættusömu lánveitingarnar og fá útflutningsgjaldið til þess að leggja það á móti áhættunni. Hér er um nýbreytni að ræða á mörgum sviðum útgerðarmálanna, togarakaup. frystihúsbyggingar, verksmiðjubyggingar o. fl. Það má því búast við, að nokkurt fé tapist. og því er frv. rétt byggt. Ælazt er til, að það verði lagt á útflutningsgjald til að mæta þessum töpum. En hinsvegar er það rangt að leggja útflutningsgjald á þessar stofnanir, nema þeim verði að öðru leyti séð fyrir nýjum tekjustofnum.

Hann sagði, að tillögur um hlutdeild bæjarfélaga og ríkisstj. í þessum rekstri væru bara grímuklædd þjóðnýting. Þetta er ekki rétt, því þó ríkisstj. sé hluthafi í þessum rekstri, þá þarf ekki að vera nein áhætta. Ég verð nú að láta þetta nægja, en vil þó taka það fram, að það er rétt, sem hv. þm. Barð. og hæstv. fjmrh. tóku fram, að Sjálfstfl. hefir ekkert gert í þessum málum. Það eina, sem þeir hafa gert, er að grobba yfir einhverjum afrekum, sem vitað er að þeir hafa aldrei unnið.