16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í C-deild Alþingistíðinda. (1964)

109. mál, viðreisn sjávarútvegsins

*Sigurður Kristjánsson:

Mér var vel ljóst, að Ásgeir Ásgeirsson mátti tala sem utanflokkamaður, en hann hefir alltaf aðstöðu til að nota þann rétt sinn illa, og það hefir hann nú gert.

Ég skal nú snúa mér að aðalefninu. Það er ekki til neins að fara að rekja stefnu Sjálfstæðismanna í þessum málum; það hefir verið gert áður við þessar umr. En það væri hinsvegar vonandi, að frsm. væru ekki úti á þekju þegar verið er að tala um jafnmikil nauðsynjamál og þetta er. Jafnaðarmenn vilja ásaka útvegsmenn fyrir tvennt. Í fyrsta lagi ásaka þeir þá fyrir það, að þeir vilji of lítið gera fyrir þjóðarheildina, og í öðru lagi, að þeir reyni ekki að reka þennan atvinnuveg með nýtízku áhöldum og nýtízku sniði.

Enga menn veit ég ófróðari um þetta en jafnaðarmenn. Það er öllum kunnugt, að sjávarútvegurinn er rekinn með nýtízku sniði, og sá rekstur stendur alveg jafnfætis slíkum rekstri erlendis. Þarna helzt þrennt í hendur: Góð veiðitæki, duglegir sjómenn og hagsýnir kaupsýslumenn, — og það er alveg víst, að engum þýðir að keppa við Íslendinga í veiðitækni. Það er staðreynd, að Íslendingar hafa alltaf farið halloka fyrir stórþjóðunum í baráttunni á heimsmarkaðinum, og þegar Alþfl.menn eru að tala um, að útvegsmenn séu seinir til að gera nýbreytingar á þessum atvinnuvegi, þá hlýtur öllum að vera það ljóst, að það er fjarstæða og blekkingar.

Í útflutningsskýrslum má sjá það, að árið 1932 var útfluttur fiskur 69%, en aðrar afurðir 31%, en árið 1936 var saltfisksútfl. 36%, en aðrar afurðir 64%. Hér sest, hvernig útvegsmenn hafa með undrahraða breytt þessum atvinnuvegi. Þeir sáu, hvert stefndi. Þeir sáu, að langbeztur markaður mundi í framtíðinni verða fyrir fituefni, og tóku því það ráð að skapa lýsisframleiðslu með því að koma upp kaldhreinsunarstöðvum fyrir lýsi, og svo síldarbræðslustöðvum. En hvað gera stj.flokkarnir? Þeir banna það með lögum, að einstaklingar fái að byggja síldarverksmiðjur hér á landi. Það má því segja, að Sjálfstfl. hafi staðið fremstur í baráttunni fyrir nýbreytni sjávarútvegsins.

Þá má minnast á þá tilraun útvegsmanna um að vinna markaði í Ameríku, er maður var sendur þangað til að athuga möguleika um sölu á hraðfrystum fiski. Þegar til átti að taka, bannaði hæstv. atvmrh. að flytja út hraðfrystan fisk. Þetta er allt, sem hæstv. ríkisstj. hefir gert til viðreisnar sjávarútveginum. En þeir hafa byggt brýr og vegi, og marga skóla, en þeir athuga það ekki, að sú orka, sem byggt hefir þessi mannvirki, á upptök sín í fiskimiðunum íslenzku. Þá er það einnig kunnugt, að iðnaðurinn hefir sótt fé sitt eingöngu til sjávarútvegsins.

Ég lýk máli mínu með því að fullyrða það, að sjálfstæðismenn hafa haldið fram heilbrigðustu lausninni í þessum vandamálum. Og það má segja, að hann hafi unnið dyggilega að því, að þeim málum væri komið á fullkomið stig. En það má segja, að eggið ætti að fara að kenna hænunni, þegar jafnaðarmenn ætla að fara að kenna framsóknarmönnum að ráða fram úr þessum örðugleikum.