08.03.1937
Efri deild: 16. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

20. mál, fjárforráð ómyndugra

Magnús Guðmundsson:

Ég vil aðeins gera grein fyrir fyrirvara mínum.

Ég get ekki látið mig miklu skipta, hvort þetta frv. verður samþ. eða ekki. Það er þess efnis, að felld skuli niður skylda til að hafa gjaldfrest, þegar fasteignir eru seldar, og tilefnið til þessa er hæstaréttardómur, sem nýlega hefir verið felldur. En þegar þess er gætt, að lög þessi hafa nú bráðum gilt í 100 ár án þess að ákvæði það, sem hér ræðir um, hafi komið að sök, get ég ekki annað sagt en að það sé hrein misbeiting að setja bráðabirgðalög í tilfellum sem þessum.

Í stjskr. er svo ákveðið, að bráðabirgðalög skuli ekki setja nema brýna nauðsyn beri til, en slík nauðsyn getur ekki verið fyrir hendi hér. Það hefir ekki svo mikla þýðingu, þótt aðili verði að veita nokkurn gjaldfrest. Ég tel það vafasamt, hvort sú regla sé rétt, sem nú er tekið að viðhafa, að selja fasteignir gegn greiðslu við hamarshögg, enda þótt slíkt kunni að vera gott fyrir veðhafa.