09.04.1937
Neðri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í C-deild Alþingistíðinda. (2021)

132. mál, friðun hreindýra

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég hefi flutt hér í d. frv. um algerða friðun hreindýra. Hv. þm. V.-Húnv. hefir borið fram annað frv., sem nú er hér til umr. og í tveimur atriðum er frábrugðið mínu frv. Annað er það, að það skuli skipaður sérstakur umsjónarmaður til þess að hafa eftirlit með hreindýrastofninum, kynna sér, hvað dýrin eru mörg og hvaða ráðstafanir eru líklegastar til þess að þau þrífist betur en að undanförnu. Ég álít, að þetta atriði í frv. hv. þm. geti verið til bóta og vil beina því til hv. landbn., hvort hún vill ekki taka það upp í mitt frv., ef hún fellst á að leggja það til grundvallar við afgreiðslu þessa máls. Ég er hv. þm. V.-Húnv. sammála um, að friðun hreindýranna hefir verið of lítill gaumur gefinn og það gæti vel verið athugandi að láta sérstakan mann fylgjast með og gera skýrslur um stærð og ástand dýrastofnsins og tillögur um meðferð hans.

Hitt atriðið er það, að hv. þm. V.-Húnv. vill leyfa að skjóta tarfana á tímabilinu frá 1. ágúst til 15 september. Helzta röksemdin, sem ég heyrði hv. þm. bera fram fyrir þessu var sú, að hentugt væri að afla á þennan hátt kjöts til refaeldis. Ég tók svo eftir, að hv. þm. teldi dýrastofninn ekki vera orðinn nema ca. 40 dýr, og nálgast sú skoðun það, sem ég hefi heyrt um þetta atriði, þegar stofninn er orðinn svona lítill, finnst mér ekki koma til mála að leyfa neina veiði, a. m. k. fyrst um sinn. Ég tel sjálfsagt að friða hreindýrin alveg um skeið, en vil gjarnan taka upp tillögu hv. þm. um eftirlitsmann og fá svo frá honum skýrslu um vöxt stofnsins og tillögur um, hvenær réttmætt kann að vera að leyfa einhverja veiði. Ég álít, að ef nokkur veiði er leyfð á annað borð, þá verði erfiðara á allan hátt að líta eftir því, að friðunarákvæðunum sé hlýtt, enda sé ég enga ástæðu til að leyfa veiði; menn hafa nóga aðra möguleika til þess að fá kjöt handa refum heldur en að skjóta þá fáu hreintarfa, sem enn kunna að vera til.

Ég vil benda á það eins og hv. þm. V.-Húnv., að nauðsynlegt er, að þetta mál fái einhverja afgreiðslu á þessu þingi. Vil ég beina því til hv. n., að hún reyni að koma sér niður á eitthvert samkomulag sem fyrst. Þó ég vænti þess, að hv. n. haldi sér við till. mína um algerða friðun, vil ég ekki gera út af því þann ágreining, að það tefji framgang málsins.