12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í C-deild Alþingistíðinda. (2032)

145. mál, jörðin Grísartunga

*Bjarni Ásgeirsson:

Hv. flm. frv. eru hvorugur viðstaddur. Ég ætla þó ekki að tala um málið sem flutningsmaður. Ég mun leggja til, að það fari til n. En ég ætlaði aðeins að lýsa afstöðu minni til þess, sem er í fám orðum þessi, að ég álít, að frv. hafi þann rétt á sér, bæði af því, að landfræðilega séð liggur þetta Grísartunguland þannig, að eðlilegast væri, að Borgarhreppur fengi það til eignar og umráða, og einnig af því, að það er afskekkt og lítil líkindi til, að þetta býli verði byggt til lengdar. En svo stendur á, að Eystritungur vantar mjög upprekstrarland. Og það er mikil ásókn frá þeim líka um að eignast þetta land. Nú tel ég, að unnt verði að útvega Stafholtstungum afréttarland annarsstaðar, og að því beri að stefna. Þegar það er fengið, álít ég sjálfsagt, að Borghreppingar fái þetta land, sem hér er um að ræða. En meðan þetta mál er óleyst að því er Stafholtstungur snertir, mun ég leggja til, að þetta frv. verði ekki afgreitt. Ég tel víst, að í framtíðinni beri að stefna að því, að Borghreppingar fái þetta land til eignar og umráða. Það verður að gæta þess, að hagsmunir þeirra aðilja annara, sem svipaðan rétt hafa í þessu efni, séu ekki fyrir borð bornir.

Annars legg ég til, að frv. verði vísað til n.