03.03.1937
Efri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í C-deild Alþingistíðinda. (2045)

44. mál, drykkjumannahæli

Flm. Guðrún Lárusdóttir):

Herra forseti! Ég þarf ekki að orðlengja um þetta frv. Það er kunnugt hér í hv. d. Það hefir legið hér fyrir áður og því fylgir ýtarleg grg. til viðbótar þeirri vitneskju, sem ég hygg, að flestir hafi af því ástandi, sem nú er orðið með þjóð vorri í þessu efni. Ég lít á þetta sem einskonar björgunarráðstöfun, og sé litið til þess árangurs, sem orðið hefir af samskonar björgunarráðstöfunum hjá öðrum þjóðum, t. d. Dönum, þá finnst mér ekki óaðgengilegt að reyna að feta sömu braut með íslenzka drykkjumenn.

Ég hygg, að þetta frv. hafi tvennskonar þýðingu. Í fyrsta lagi þau beinu áhrif, sem það kemur til með að hafa á einstaka mann, sem ráðstafað verður á slíkt hæli, og í öðru lagi þau óbeinu áhrif til viðvörunar, sem það kann að hafa á aðra, sem máske ekki eru enn sem komið er illa farnir sökum vínhneigðar.

Frv. er að mestu leyti sniðið eftir samskonar löggjöf hjá Dönum, en þess er að gæta, að drykkjumannahæli Dana eru flest stofnuð af einstökum mönnum og félögum, en þrátt fyrir það hafa Danir orðið að setja í fátækralöggjöf sína ákvæði um meðferð drykkjumanna á þessum hælum. — Ég hygg, að enginn neiti því, að þörf sé fyrir þessa starfsemi, því að við stöndum hér andspænis erfiðleikum, sem okkur er skylt að leysa. Hvort þetta frv. er leið til þess að leysa málið, skal ég ekki segja, en ég vona, að það sé þó spor í rétta átt, ef frv. verður athugað af mönnum, sem með sannsýni vilja taka á málinu, og ef það fær góða meðferð á þinginu. — Ætla ég svo ekki að orðlengja frekar um þetta, en óska, að frv. verði að aflokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.