03.03.1937
Efri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í C-deild Alþingistíðinda. (2046)

44. mál, drykkjumannahæli

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég er sammála hv. flm. þessa frv. um, að á því sé hin mesta nauðsyn, að þetta mál sé leyst. Og ég fæ ekki séð, að það sé annað, sem athuga þarf í því efni um einstök ákvæði í frv., heldur en fjárhagshlið málsins. Hér er gert ráð fyrir í 1. gr. frv., að hælið sé komið upp fyrir árslok 1938. En það er margt, sem kallar að í þessu efni, svo að ég geri ráð fyrir, að það verði aðalverkefni þeirrar n., sem fær þetta mál til athugunar, að athuga möguleikana á því, hvort þetta verði kleift. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að nokkur athugun hefir verið gerð á því, bæði hvar heppilegt væri að hafa hælið og hvort til væru heppilegar eignir, þar sem hægt væri að hafa hælið.

Ég vildi mælast til þess, að sú n., sem fær málið til meðferðar, vildi leita upplýsinga hjá landlækni, sem þessu máli er kunnugur, og taka við bendingum frá honum viðvíkjandi málinu.