03.03.1937
Efri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í C-deild Alþingistíðinda. (2047)

44. mál, drykkjumannahæli

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég get tekið undir það, sem mun vera almenn skoðun, að það æ þörf á að koma upp drykkjumannahæli, og að það væri mikil bót að slíku hæli, ef það væri vel rekið. Ég fer ekki út í það hér, hvernig ég álít, að ætti að koma slíkum hælum fyrir, að öðru leyti en því, að það er óhætt að segja, að það hafi reynzt bezt að koma þeim fyrir í sveit. Þar sem er landrými mikið og hægt að láta menn fást við jarðrækt. Þannig hefir það reynzt á Norðurlöndum, þar sem drykkjumannahælum hefir verið komið upp og verið rekin með miklum myndarskap, ekki sízt í Svíþjóð, þar sem tekin hafa verið fyrir þessi hæli heil herrasetur, sem höfðu mikið landrými.

En áður en þetta mál fer til n., vil ég vekja athygli á atriðum, sem eru þess verð, að á þau sé bent. Það er fyrst og fremst, að með þessu móti flyzt talsverður hluti af fátækraframfærinu frá kaupstöðunum yfir á ríkissjóð, aðallega frá þeim kaupstöðum, þar sem mest er af þessum drykkjumönnum. Það er áreiðanlega þess vert fyrir n., sem tekur þetta mál til athugunar, að rannsaka það gaumgæfilega, hve mikil brögð myndu verða að þessu. — Ég sé líka, að í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að dómsvaldið í þessum málum sé dálítið óvenjulegt. Ég a. m. k. geri það að atriði fyrir mig, hvort þessu verður breytt eða ekki, á hvern hátt ég greiði atkv. um málið, þegar það kemur í d. aftur. Hér er sem sé gert ráð fyrir, að það sé framfærslunefnd eða sveitarstjórn, sem rannsaki málið með aðstoð lögreglunnar. Eftir að þeirri rannsókn er lokið á framfærslunefnd að dæma um það. hvort viðkomandi manni skuli komið fyrir á drykkjumannahæli. Hér er því dómsvaldið í þessum málum, sem eru mjög alvarleg mál — því að það er hægt að dæma þessa menn til vistar á drykkjumannahæli — flutt til framfærslunefndanna, og það tel ég óforsvaranlegt fyrir allt réttaröryggi í þessu landi. Ég tel það ekki fullnægjandi, þó að það megi skjóta þessum málum til úrskurðar ráðh. Ég verð að viðurkenna það, að ég veit ekki, hvernig þessu er fyrir komið í dönskum lögum, sem hér er vísað til, en hvernig sem því er fyrir komið þar, álít ég, að það fyrirkomulag geti ekki komið til greina hér.

Lesi maður svo frv. áfram, t. d. 6. gr., þá eru þar enn víðtækari ákvæði, því að þótt engin umkvörtun hafi komið fram, getur framfærslunefnd skorizt í leikinn og úrskurðað viðkomandi mann á drykkjumannahæli til lengri tíma. Svo er ósamræmi í þessu, þar sem segir í 8. gr., að heilbrigðisstjórnin geti stytt ákveðinn dvalartíma vistmanns á drykkjumannahæli, þegar sannað þykir með vottorði frá héraðslækni og forstjóra hælisins, að vistmaðurinn þurfi ekki að dvelja þar lengur. Eftir þessu getur heilbrigðisstjórnin tekið fram fyrir hendurnar á framfærslun., þó að hún telji þess þörf, að viðkomandi maður dvelji áfram á hæli. Vitanlega verða þessi mál að vera í höndum sama aðilja, — sá, sem úrskurðar manninn til vistar, verður jafnframt að hafa vald til þess að láta hann lausan aftur eftir tiltekinn tíma, ef honum þykir ástæða til, viðvíkjandi þeim mönnum, sem dæmdir eru til fangelsisvistar, er það þannig, að þetta vald er alltaf í höndum dómarans sem dæmdi manninn til fangelisisvistar, því að til hans er skotið, hvort eigi að náða mann eða ekki. Hér geta því sjónarmið framfærslun. og heilbrigðisstjórnar rekizt á. Ég held, að sú rétta leið í þessu efni væri að hafa einkamálameðferð á þessum málum. Ég þarf ekki að skýra þá málsmeðferð; hún er höfð á nokkrum málflokkum og hefir reynzt vel. Það er líka langfljótust afgreiðsla á málum á þann hátt. Ef ekki þætti fært að áfrýja þessum málum til hæstaréttar, þá fyndist mér réttara að hafa meðdómendur með lögreglustjóra heldur en að búa til nýjan dómstól, þar sem er framfærslunefnd.

Þetta vildi ég aðeins taka fram. Ég er ekki með því að gera lítið úr þessu máli, því að eins og ég tók fram í upphafi, tel ég, að málið sé mjög gott og þess vert, að það sé athugað, og því meiri þörf góðrar athugunar, sem það er meira nauðsynjamál. En þetta vildi ég taka fram við þessa umr. og biðja n., sem fær málið til meðferðar, að taka það til athugunar. Þetta getur ekki heldur komið í bága við tilgang hv. flm., sem tók fram, að gerð frv. væri ekkert aðalatriði, heldur málið sjálft og að það fengi sem bezta og fljótasta afgreiðslu.