06.03.1937
Efri deild: 15. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í C-deild Alþingistíðinda. (2055)

48. mál, uppeldisheimili fyrir vangæf börn og unglinga

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Herra forseti! Öldin, sem við lifum á, hefir verið kölluð öld barnanna, af því að aldrei hefir verið starfað meira fyrir börnin en á þessari öld. Það má sjá þess víða vott, þótt ekki beri mikið á því hjá okkur enn. Eitt ljóst dæmi þess var afarfjölmennt barnaverndarþing, sem haldið var í Kaupmannahöfn síðastl. sumar, í síðustu viku júnímánaðar. Þangað komu á annað þúsund fulltrúar frá öllum Norðurlöndum. Ég vil geta þess, að Danir álitu það hreint og beint þjóðarsóma að gera mótið sem bezt úr garði. Félagsmálaráðherra Dana opnaði mótið, og má taka það fram, að ríkisstj. bauð öllum þeim fulltrúum, sem komnir voru til þess að tala máli barnanna, til veglegrar veizlu. og danska þjóðin lánaði sitt veglegasta hús, ríkisdagshúsið, til þessara fundarhalda.

Ég hefi með mér dagskrá þessa þings, og hún ber það með sér, að málefni barnanna eru mörg, og þau eiga sér góða talsmenn í nágrannalöndunum. Á fyrsta fundinum var byrjað á því að tala um meðferð á vangæfum börnum. Erindi um það flutti menntakona frá Stokkhólmi, og talaði hún af miklum skilningi. Tók hún það skýrt fram, að það, sem hver þjóð þyrfti að gera, sé að komast að raun um, hvaða börn væru vangæf börn og hvað væi hægt að gera fyrir þau. Hún leit svo á, að það bezta, sem hægt væri að gera fyrir þau, væri einmitt það, sem ég tala um í þessu frv., að hafa fyrir þau sérstaka uppeldisstofnun. Þar sem þeim eru gefnar góðar gætur af séfróðum mönnum og þeim veitt heilbrigt uppeldi við vinnu og nám. Annað atriðið á dagskránni var atvinnuleysið og æskulýðurinn. Það er brennandi spurning hjá nágrönnum okkar, ekki síður en hjá okkur. Erindið flutti form. fátækramálanna í Bergen. Það var mjög athyglisvert, sem maðurinn sagði, en ég ætla þó ekki að rekja það hér. Mér þykir ekki illa við eiga að minna á þetta hér, þar sem fyrir þinginu liggja mál um atvinnuleysið og unglingana hjá okkur. Ennfremur var talað um eftirlit með uppeldisheimilum einstakra manna eða félaga. Þá var talað um barnaverndarráðstafanir ýmsar og aðstöðu barnanna gagnvart dómsvaldinu í landinu. Haldinn var fyrirlestur um skipulag á mataræði og meðferð ungbarna, og allt það, sem manni getur hugkvæmzt, að barninu geti komið vel. Að þinginu loknu var öllum þátttakendunum boðið í ferð um Danmörku til þess að skoða hæli Dana. Ég get sagt fyrir mig, að í þeirri ferð leit ég sérstaklega eftir þeim hælum, sem þar eru fyrir vangæf börn.

Þetta var nú dulítill útúrdúr frá aðalumtalsefninu, en ég vona, að hv. þm. misvirði það ekki. En því minntist ég þessa, að ég vil undirstrika, hvað málefni barnanna — og þá ekki síður vangæfu barnanna — eru áríðandi, og nauðsynlegt að sinna þeim engu síður hér en annarsstaðar. Barnaverndarþingið bar það með sér, að nágrannaþjóðunum er þetta ljóst. Og það er alls ekki vansalaust fyrir okkur, ef við látum skeika að sköpuðu með vangæfu börnin okkar, sem því miður fer óðum fjölgandi.

Þá finnst mér, að beri að líta á það, sem gert hefir verið hér. Það eru nokkur barnaheimili, sem við eigum, og er Vorblómið þeirra elzt. Þá er barnavinafélagið Sumargjöf, og hefir það haft með höndum dagheimilisstarfsemi undanfarin 12 ár. Þessi starfsemi hefir gefizt vel, og þar hafa verið allmörg börn. Ég held, að ekki sé hægt að segja annað en börnunum hafi yfirleitt farið þar fram, bæði andlega og líkamlega. En starfstíminn hefir verið helzt til stuttur, aðeins 2–3 mánuði ársins. Mér þykir vænt um, að þingið er farið að styrkja þessa starfsemi, því að hún á það skilið. Þá eru ekki síður til gagns dagheimili þau, sem oddfellowar hafa í nágrenni Rvíkur. Það er aðeins stór ágalli, að þau standa allt of stutt. En fyrirmynd eru þau, og eins og allar meyjar vildu með Ingólfi ganga, eins vilja allir foreldrar, sem hafa haft börn sín þar, fá að hafa þau þar áfram. Börnin verða fyrir ágætum áhrifum hjá þeim fyrirmyndarkonum, sem þar hafa starfað. Barnaheimilið Sólheima í Grímsnesi vil ég einnig nefna og dagheimili í Hafnarfirði, á Akureyri og Siglufirði, sem kvenfélögin hafa stuðlað að. Alstaðar eru menn í mestu vandræðum með elztu börnin, sem eru búin með skólann og lítið eða ekkert hafa að starfa.

Ég vil nefna hér starfsemi á meðal barna, sem ég hygg, að fólki sé ekki mikið kunnugt um. Mér þykir rétt að geta þessarar starfsemi, þannig að hún komist í Alþt. þjóðarinnar. Hún sýnir okkur, hvað einn einstakur maður getur gert, þegar góður vilji og löngun til að gera gott er fyrir hendi. Maður er nefndur Jón Pálsson. Ég veit, að allir hv. þm. kannast við hann. Fyrir 3 árum kallaði hann á sinn fund 7 smádrengi. Þetta voru drengir upp og ofan, hvorki betri né verri. Þessi maður er form. barnaverndarnefndar, og hann komst á snoðir um, að litlum drengjum væri töluvert hætt hér í bæ. Hann vildi reyna að ráða bætur á þessu og vildi ráðfæra sig við drengina, og tel ég, að það hafi verið heppilegt. Hann skírskotaði til dómgreindar þeirra og sagðist vilja gera þá að félögum sínum í starfsemi, sem hann vildi fela þeim á hendur, en það var að taka að sér að varðveita og líta eftir litlu fuglunum á tjörninni. Við vitum, að flest börn eru þannig af guði gerð, að þau elska dýrin og vilja vera góð við þau. Ég held, að Jón Pálsson hafi hér hitt naglann á höfuðið. Þetta félag, sem hann stofnaði, fékk strax kjörorð, og eru þau þessi:

1. Hugsaðu gott.

2. Talaðu satt.

3. Gerðu rétt.

4. Bragðaðu aldrei áfengi.

Þetta eru í raun og veru lög félagsins, sem kallar sig fuglavinaféagið Fönix. Ég held það eigi 3 ára afmæli næsta mánudag. Nú eru félagsmenn orðnir 50. Ég held, að hv. þm. gæfist á að líta, ef þeir kæmu í Oddfellowhöllina og sæju þessa drengi, en þar safnast þeir saman til þess að tala um málefni sín. Oddfellowar hafa veitt þeim þar ókeypis húsnæði til þess að halda fundi sína.

Ég hefi nú dvalið við það, sem mér í fljótu bragði dettur í hug af því, sem gert hefir verið fyrir börnin hér. Sú starfsemi, sem ég hefi nefnt, fer fram fyrir þau börn, sem ekki eru sérstaklega kölluð vangæf börn. Ég vil geta þess í sambandi við fuglavinafélagið Fönix, að meiri hl. þar eru ágætir drengir, en form. hefir sagt mér, að hann hafi blandað saman drengjum, sem voru ágætir, og öðrum, sem voru lakari, svo að þeir betri hefðu góð áhrif á hina lakari. Þetta hefir gengið prýðilega, þar sem þeim hefir verið stjórnað af ágætum manni.

En hvað hefir þá verið gert fyrir vangæfu börnin? venjan hefir verið að reyna að koma þeim upp í sveit, og það hefir oft gefizt vel. En upp á síðkastið hefir það verið vandkvæðum bundið að fá nógu mörg góð heimili, sem vilja taka þessi börn. Það er ekki neinn leikur að taka barn, sem hefir orðið uppvíst að óknyttum, inn á heimili, þar sem er kannske barnahópur fyrir. Það eru færri foreldrar, sem óska eftir að fá slíkan félagsskap fyrir börn sín, enda er farið að kreppa svo að þessari leið, að barnaverndarnefnd á oft fullt í fangi með að útvega heimili. Óknyttir hafa magnazt svo upp á síðkastið, að síðan um nýár hafa n. borizt kringum 30 þjófnaðarkærur á smádrengi. Þetta er alvarlegur hlutur, og það er ekki hægt að loka augunum fyrir þessu. Það verður að ráða bætur á slíku, hvernig sem mönnum kemur nú saman um að haga því. Það mætti spyrja, hvað valdi þessum ósköpum. Þetta er að verða svo illkynjað og áberandi átumein hjá þjóðinni, að slíks hafa ekki verið dæmi áður. Það má sjálfsagt kenna ýmsu um, en ég ætla ekki að tala mikið um það. Þó get ég ekki stillt mig um að minnast á eitt atriði, sem ég held, að eigi talsverða sök í þessu. Það er hið ljóta og viðbjóðslega lesmál, sem börnum er boðið upp á, og miður góðar kvikmyndir. Þá vil ég líka benda á kærulaust skraf og hjal fullorðna fólksins gagnvart börnunum. Ég vil benda á, að það vaða uppi í þessu landi stefnur og kenningar, sem eru með óhróður um þá, sem eitthvað eiga, og það er jafnvel gefið í skyn, að þetta sé í raun og veru stolið frá hinum, sem ekkert eiga. Ég hefi tilhneigingu til þess að lesa smápistil úr grein, sem nýlega kom út í blaði einu hér í bæ. Það getur vel verið, að hv. þm. beri ekki mikla virðingu fyrir Þjóðviljanum okkar nýja. En börnin lesa þetta engu síður en fullorðna fólkið, og það, sem börnin lesa, muna þau oft. Greinin heitir „Stórþjófar og smáþjófar“. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa svolítið upp úr þessari grein, enda þótt mér finnist ekki til koma að festa slíkt bull og þvaður í Alþt. þjóðarinnar. Þegar greinarhöfundur, sem kallar sig Göngu-Hrólf, er búinn að lýsa löggjöfunum, og í raun og veru búinn að setja þá á bekk með stórþjófum og bófum, þá segir hann: „Það eru mennirnir, sem hafa stolið öllu þessu landi, hafa stolið bönkum þess, fólkinu sjálfu og lífsmöguleikum þess og neytt það til að fremja smáþjófnað í ýtrustu neyð.“ Er það í ýtrustu neyð, að smádrengir stela hlutum, sem þeir geta ekkert gagn haft af? Áframhaldið er í sama anda: „Börnin vita líka, að þetta fólk hefir ekki unnið fyrir þessum peningum; þeir eru stolnir. Þetta eru peningarnir okkar, og við tökum þá bara þar, sem við náum þeim.“

Svo mörg eru þessi orð. Þau sýna, að sá andi er uppi hér í landinu, sem ekki gerir mikið úr eignarréttinum, — og hvernig ættu börnin að gera það, þegar fullorðna fólkið og blöðin hafa þetta fyrir þeim? Það verður aldrei of mikið brýnt fyrir þeim, sem umgangast börn, að vanda sig. Það kemur seinna að skuldadögunum fyrir þessu fólki, en það er sannarlega átakanlegt að sjá ávextina þegar koma fram í mynd stórþjófnaðar smábarna. Við getum ekki komizt hjá því að gera björgunartilraunir; það má ekki dragast lengur. Það eru ekki nema fáeinir dagar síðan hér í salnum heyrðist áskorun frá barnaverndarnefndinni á Ísafirði um, að alþingi hefjist handa um að koma til hjálpar, og bréf berast manni mjög oft um þessi efni, og ennfremur er oft á þetta vandamál minnzt í blaðagreinum og viðtali við menn, sem hafa með þessi mál að gera, og nú nýlega birtist samtal við Svein lögregluþjón Sæmundsson, og hefi ég að nokkru leyti tekið það viðtal í grg. þessa frv. Allt þetta sýnir okkur, að hér er á ferðinni rammasta alvara, sem við verðum að hafa hug til þess að horfast í augu við og hefjast handa til umbóta, áður en það er um seinan. Við erum þegar búin að tapa of miklu. Maður getur bent á fjölda marga meðal fullorðna fólksins, sem farið hafa villir vegar, mest vegna þess, að þeim gafst ekki kostur á því uppeldi, sem nauðsynlegt var. Ég gæti dregið fram úr minni mínu ógurlegar ævisögur, en ég ætla ekki að gera það, því að ég veit, að hv. þm. hljóta að hafa heyrt margar slíkar sögur um börn, sem flæktust manna á milli og enginn vildi hafa: alstaðar voru þau óvelkomin. Þau lærðu að fela og stela. Þau urðu með tímanum vandræðagripir þjóðfélagsins, sem þjóðfélagið þurfti að kosta upp á með fangelsum og ýmiskonar meðferð. Árlega er bætt við lögregluna, meðfram af því, hversu óknyttir hafa farið í vöxt.

Um framkvæmd frv. geta orðið deildar meiningar, og ég segi um þetta mál, eins og ég sagði um daginn um frv. til l. um drykkjumannahæli, að mér finnst málefnið sjálft fyrir öllu, og ég er fús til samvinnu við þá, sem vilja koma þessu í heppilegt og gott horf. Aðalatriðið er, að vangæfu börnin eignist einhverja stofnun, sem getur orðið heimili þeirra, og að sú stofnun fái hæfa stjórn, sem hefir fullan skilning á sálarlífi barnanna, því að fá börn eru viðkvæmari en einmitt vangæfu börnin, sem eru von að fá hnútur og hnýfilyrði, en fá eru orðin svo a. m. k. á yngra skeiði, að kærleikurinn geti ekki bjargað þeim. Þetta er fyrsta boðorð slíks hælis. Ég minnist með mikilli gleði þeirra hæla fyrir vangæf börn, sem ég heimsótti í Danmörku; það var ánægjulegt að sjá alla þá alúð, sem stjórnarnefndirnar lögðu fram, enda tókst það allajafna að gera úr þessum börnum væna og dugandi menn. Auvitað má búast við, að slík uppeldisheimili kosti töluvert fé, en ég sé ekki eftir þeim peningum, og ég held, að ekki sé hægt að verja fé öllu betur en til þess að bjarga þjóðarinnar eigin börnum. — Samkv. 3. gr. frv. er ætlunin, að sett verði reglugerð um allt fyrirkomulag þessarar stofnunar, svo og um það, að hve miklu leyti aðstandendur barnanna gefi með þeim og að hve miklu leyti ríkið geri það. Í Danmörku er það svo, að aðstandendur barnanna greiða venjulega fæðiskostnaðinn, ef þeir geta; hitt lætur barnaheimilið af hendi. Ég spurði t. d. einu sinni. hvernig það væri um fatnaðinn, og mér var sagt, að barnaheimilið sæi fyrir því, svo að það gæti ráðið klæðnaði barnanna. Börnunum fyndist leiðinlegt að vera öðruvísi til fara en hin börnin. t. d. gæti einhver haft betri ráð og sent stúlkunni sinni fallegan kjól, en svo eru önnur fátæk og fá engan kjól; slíkt vekti óánægju meðal barnanna, sem ekki mætti eiga sér stað, þar sem þetta væri systkinahópur í einni fjölskyldu. Þannig þarf þetta að vera; annars kemur það ekki að fullum notum.

Ég geri ráð fyrir, að þeir, sem geta, borgi sjálfir eitthvað með börnum sínum, og svo geri ég ráð fyrir, að framfærslunefndir og sveitarstjórnir borgi með þeim börnum, sem foreldrar geta ekki greitt með. við höfum barnaverndarlöggjöf, sem leggur þá skyldu á herðar barnaverndarnefnd, að skipta sér af börnum, sem eitthvað verður að í þessum efnum. Foreldrarnir hafa leyfi til að snúa sér til slíkra nefnda, þegar þeir eru í vandræðum með börn sín. Í smærri tilfellum geri ég nið fyrir, að barnaverndarnefnd mundi koma þessum börnum fyrir, en annars lögreglustjóri; en hvernig sem börnunum er komið inn á hælin, þá þarf sú hugmynd alstaðar að vera ríkjandi, að hér sé um að ræða kærleiksheimili, sem tekur á móti börnunum eins og sínum eigin börnum og skilar þeim aftur sem góðum og nýtum borgurum.

Ég vil svo óska, að frv. verði lagt í hendur hv. allshn. að lokinni þessari umr.