06.03.1937
Efri deild: 15. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í C-deild Alþingistíðinda. (2057)

48. mál, uppeldisheimili fyrir vangæf börn og unglinga

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Ég má vel við una, að hæstv. atvmrh. hefir lýst því yfir, að hann sé málinu fylgjandi, og það er mér fyrir öllu í rauninni, því að bæði hefir hann aðstöðu og alla getu til að vinna fyrir málið, svo að nú rofi til í þessu efni. Mér þykir náttúrlega vænt um bjartsýni þessa góða manns, sem fram kemur í því, að hann telur ekki, að ástandið sé neitt lakara en það hefir verið; en þegar ég horfi á tölurnar og skýrslurnar, sem fyrir liggja um þessi efni, getur mér ekki sýnzt þær sérlega bjartar yfirlitum. Samkv. þeim fer stighækkandi fjöldi þeirra barna, sem lenda í allskonar vandræðum, þannig að árið 1932 eru slík börn 50 talsins, 1934 58, 1935 76 og 1936 eru þau orðin 102. Og þegar formaður barnaverndarráðs segir mér, að barnaverndarnefnd hafi borizt síðan um áramót 30 kærur út af þjófnaði smádrengja, þá sýnist mér þetta vera talandi tölur, sem sýna einmitt það, sem ég sagði, að ástandið fer versnandi; hinu dettur mér ekki í hug að neita, að á öllum tímum hafa verið misstigin spor, bæði af eldri og yngri, en ekki get ég munað til þess, að áður hafi verið eins mikið um óknytti meðal barna og nú á sér stað. Satt er það, að þá voru að vísu ekki til skýrslur um slík efni, en þá var líka miklu minni þörf á þeim, því að fólkið var svo miklu færra en nú. Ég vil að vísu ekki gera of mikið úr hinu versnandi ástandi, þó ég bendi í þá staðreynd, sem fyrir hendi er um hið alvarlega ástand, og þá þýðir ekki heldur að hugga sig eða afsaka sig með því, að svona hafi þetta alltaf verið. Ég á ekki við, að hæstv. atvmrh. hugsi þannig, en ég býst við, að til séu ýmsir menn, sem þannig hugsa. Það er því réttara að kannast við ástandið eins og það er, en vera ekki að bera það saman við það, sem var.

Hæstv. ráðh. virtist ekki vera sem ánægðastur með upplestur minn hér áðan, ekki fyrir það, að hann tæki svari Þjóðviljans, heldur af því, að honum þótti orsakanna annarsstaðar að leita en í blaðagreinum. En af því læra börnin, sem á bæjum er títt, og það er ég viss um. hvað sem hæstv. ráðh. segir um það, að lesmálið, sem íslenzku þjóðinni hefir verið boðið upp á á seinni tímum — ég sný ekki aftur með það —, hefir oft verið stórspillandi og til smánar landi og lýð.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að ástæðan fyrir hinu ömurlega ástandi í barnauppeldi okkar væri mismunandi efnahagur fólks. Efnahagurinn er sjálfsagt mjög mismunandi, en það er ekki fátækt fólksins, sem gerir börnin að óknyttabörnum. Heiðarleiki og fátækt eru oft samferða. Já mjög oft, enda stafa fæstir eða kannske engir þjófnaðir af vöntun á fæði eða klæði.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að varhugavert væri að láta bera mikið á því, að börn væru sett á stofnanir fyrir vangæf börn. Þetta er bergmál af mínum eigin orðum, því að ég vil ekkert gera, sem getur orðið til þess að særa þessar viðkvæmu sálir, en þegar litið er á reynsluna, þar sem hún hefir fengizt, þá veit ég ekki, hvort það er svo mikil ástæða til að óttast þetta, því að allt er undir því komið, að stjórn stofnana sé góð og heimilið leiði börnin á rétta braut. Undirbúningslaust hefir mér ekki dottið í hug, að hægt væri að ráða þessu máli til lykta. Því bar ég fram þáltill. í fyrra, sem samþ. var hér í deild, um að hæstv. stj. undirbyggi málið. Ég vil því segja, að hæstv. stj. eigi hér talsverða sök á, hvað seint gengur. Hún gat verið búin að gera það, sem þáltill. fól henni, undirbúa málið, m. a. með því, sem hæstv. ráðh. einmitt nefndi, að láta rannsaka börnin, flokka þau niður og kynna sér ástand þeirra. Ef þetta hefði verið gert, væri málið nú komið lengra áleiðis en það er, og við vitum ekki nema þá hefði verið hægt að afstýra einhverju af því böli, sem orðið er. En í stað þess að gera skyldu sína í þessu efni, hefir hæstv. stj. svæft málið í fullkomnu aðgerðaleysi.

Það gleður mig, að hæstv. atmrh. hefir nú lýst því yfir í heyranda hljóði, að hann sé þessu máli fylgjandi. Ég veit, að hann gerir þá það, sem hann getur, til þess að koma málinu áleiðis, þótt mér leiðist, að hann getur ekki að öllu leyti fallizt á það, sem ég hefi sagt um málið.

Viðvíkjandi 3. gr. frv. get ég sagt það, að mér finnst ekkert á móti því, þótt þeir, sem geta, séu látnir borga með börnum sínum og að þar, sem foreldrana þrýtur, taki sveitar- eða bæjarfélagið við. Nú verða framfærslusveitir að annast meðlag með slíkum börnum, ef foreldrarnir geta ekki séð fyrir þeim, og það ætti ekki að vera verra, þótt þeim sé komið fyrir á hæli, sem ríkið kemur á fót. Þetta er atriði, sem ákveða verður af þeim, sem um framkvæmd málsins ráða.

Ég vil benda á það í sambandi við það, er hæstv. ráðh. var að tala um, að flokka þyrfti óknyttabörnin, að þótt eitt barn sé vangæft að einhverju leyti, er ekki þar með sagt, að það sé óknyttabarn; það getur verið erfitt viðfangs á heimili, óþægt í skóla o. s. frv., en algerlega saklaust af hnupli og öðrum slíkum óknyttum.