18.03.1937
Efri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í C-deild Alþingistíðinda. (2062)

53. mál, Háskóli Íslands

*Flm. (Jónas Jónsson):

Ég get verið stuttorður um þetta frv., af því að í grg. er nokkurnveginn það, sem um það er að segja. Þetta frv. er hugsað eins og partur af stóru verki viðvíkjandi háskólanum, og gert er ráð fyrir, að innan skamms komi fram það, sem boðað er í grg. um gagngerðar breyt. á þessari stofnun.

Það hefir komið í ljós, að það, sem menn ætluðu sér með því að lengja starfstímabil háskólarektors úr einu ári upp í 3 ár, er þýðingarlaust frá því sjónarmiði, sem þarf að vinna að, nefnilega að háskólinn fái sterka stjórn. Þess vegna er lagt til að gera þessa einföldu breytingu, að gera þetta eins og það var, enda mun það koma sér vel, því að allir eru samdóma um, að hafa þurfi fastan embættismann, sem vinni að skyldustörfum við háskólann, en rektorsembættið sé aðeins tignartitill, sem flyzt milli prófessoranna frá ári til árs.

Ég vil svo mælast til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og menntmn.