18.03.1937
Efri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í C-deild Alþingistíðinda. (2070)

53. mál, Háskóli Íslands

*Magnús Jónsson:

Ég ætla ekki að vaða í gegnum allan þennan gashnött, sem hv. þm. hefir búið til. Ég get sett á mig gasgrímu og náð í eitt eða tvö korn. — Hann sagði, að ég hefði sigrað í samkeppninni, af því að einn af kennurum guðfræðideildar hefði öfundað föður og tengdaföður Tryggva Þórhallssonar. Ég skal upplýsa það, að tveir menn utan guðfræðideildar, þeir Björn Ólsen og Jón Aðils, voru kvaddir til, af því að um sögulega ritgerð var að ræða, og þeir kváðu upp úr með dóminn. Hinir voru svo sammála. Ég hygg, að eitt atkv. hafi verið á móti mér, annaðhvort í ritgerðinni eða fyrirlestrinum, eftir því sem mér hefir verið tjáð. Annars voru atkv. alveg sammála, og sagnfræðingarnir utan d. réðu dómnum um söguritgerðina. Þetta er fullt eins satt og það, sem hv. þm. S.-Þ. sagði, því að ræða hans var þessi dæmalausi vaðall.

Það er leiðinlegt, að Dungal skuli ekki vera hér viðstaddur, svo að maður gæti haft sanna sögu af rannsóknum hans. Ég held, að bændur í Borgarfirði séu fullt svo dómbærir í þessu máli og hv. þm. S.-Þ., og mér sýnist, að þeir hafi mikla trú á Dungal. Ég er ekki viss um, að hv. þm. afli sér mikilla vinsælda hjá bændum landsins með því að sýna fram á, að Dungal sé alveg gagnslaus maður í sínu starfi. Ég held, að honum endist ekki lengi það blaður.

Þessar umræður hafa ekki verið gagnslausar. Þær sýna, hvers vegna þetta frv. er borið fram. Það er borið fram af því, að Dungal er núna rektor háskólans. Það er eingöngu borið fram af því, að hinn hlaut kosningu til þriggja ára. Þess vegna er svo fyrirskipað í frv., að rektorskosning skuli fara fram þegar í vor. Hann virðist hafa von um, að hann geti unnið að því, að Dungal verði ekki endurkosinn. Bara að Dungal verði þá ekki endurkosinn! Svo hafa þessar umræður gert það að verkum, að maður hefir enn einnusinni fengið kvikmynd af Gróu frá Leiti. Hann blandar erlendri konu í þetta mál, og manni átti víst skiljast svo, að hún hefði elt Dungal hingað. Hann talaði um þetta aðdráttarafl hans. Ég held, að hann hafi með því, að bæta þessari skömm ofan á það, sem hann hefir áður sagt, slegið met með þessu.