18.03.1937
Efri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í C-deild Alþingistíðinda. (2071)

53. mál, Háskóli Íslands

*Flm. (Jónas Jónsson):

Ég er ánægður yfir því að hv. þm. finnur til nokkurs sviða undan því, að hafa fengið dósentsembættið ranglega. Nú segir hann, að aðkomumenn utan úr bæ, sem ekki voru guðfræðingar, hafi dæmt um þetta.

Það, sem hann hefir sagt um þetta hér, skiptir ekki máli. Það, sem máli skiptir, er, að sá eini guðfræðingur, sem hafði nokkurt álit, en það var Haraldur Nielsson, var á móti þessum hv. þm. og með Tryggva Þórhallssyni. Það var þess vegna, sem þetta var svo þungt fyrir hv. þm., því að þótt hann hefði með sér sagnfræðingana, þá hafði hann ekki með sér þann mann, sem mestu máli skipti að hafa með sér.

Þá hefir hv. þm. farið að tala hér um vísindalega „kvalifikation“ ýmsra, meðal annars Dungals, svo að hann á það upp á sjálfan sig, að hafa byrjað á því, að ræða um þessa hluti hér. Hann talaði um Helga Tómasson og ýmsa aðra, sem ekki hafa verið rektorar Háskólans, og þeirra vísindalegu „kvalfikation“ kom líka til umræðu hér. En það, sem hv. þm. vill ekki skilja. er, að þau vinnubrögð í háskólanum, sem staðið hafa í sambandi við útnefningu Bjarna Benediktssonar og Gunnars Thoroddsens, þurfa að hverfa.

Þá heldur hv. þm., að bændur landsins standi á blístri út af því, hvað Dungal vilji fyrir þá gera. Sannleikurinn er sá, að Dungal hefir gert bændum mikið ógagn, með því að þykjast vita, hvað borgfirzka veikin væri. Hann þóttist vita, hverjar sóttkveikjurnar væri, og sendi falsskýrslur um veikina út um land. Sannleikurinn er sá, að Dungal er orðinn nokkuð framlágur upp á síðkastið, enda er hann á sömu leið og vinur minn Helgi Tómasson. Deildartunguveikin hefir gert Dungal sama gagn og mér tókst að gera Helga Tómassyni með því að liggja í hálsbólgunni. Það var nokkurskonar Deildartunguveiki, sem gekk að Helga Tómassyni og hefir gert það að verkum, að hann hefir síðan lifað í nokkurskonar Hadesarheimi og fyrirlitið sjálfan sig og verið fyrirlitinn af öðrum.

Hv. þm. heldur, að bændastéttin sé þakklát þessum manni, sem búinn er að gefa henni ósannar upplýsingar og búinn að hindra það, að fenginn væri hingað erlendur maður, og nú hefir fengið þá ánægju, að allir dýralæknar landsins hafa risið móti honum og vilja ekkert með hann hafa. Þeir dýralæknar, sem eru sérstaklega íhaldsmenn, vilja, að hingað sé fenginn maður frá Englandi til þess að standa fyrir rannsóknunum, af því að þessi mikli vísindamaður er svo fallinn í gegn, að þeir vilja ekki líta við honum. Ósigur hans er svona fullkominn.

Að síðustu vil ég segja þetta við hv. þm.: Ef hann getur neitað því að „specialistinn“ frá Suður-Ameríku hafi sent konu sína hingað, þá eru það náttúrlega rök. Sannleikurinn er sá, að þetta er það eina, sem Dungal hefir gert, og það er svo hlægileg ráðstöfun, að annað eins þekkist varla. Ef hv. þm. leggur annað í þetta en ég, þá er það hans innræti og þekking hans á Dungal, sem sest á því.