19.03.1937
Efri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í C-deild Alþingistíðinda. (2080)

66. mál, húsmæðrafræðsla

*Flm. (Páll Hermannsson):

Eins og sjá má á þessu frv., er það flutt eftir tilmælum hæstv. landbrh. Eins og menn vita, er engin löggjöf til í þessu landi um húsmæðrafræðslu. Sú húsmæðrafræðsla, sem farið hefir fram í landinu að undanförnu, hefir þess vegna ekki stuðzt við ákveðna lagareglugerð, og hefir fjárframlag ríkisins til þeirrar starfsemi leikið töluvert í lausu lofti, og stundum er varla hægt annað að segja en að þar hafi gætt mikils ósamræmis. Þetta frv. ætlast til þess, að sett verði lög og fyrirmæli um húsmæðrafræðsluna, að því leyti er snertir sveitafólkið. Það er sem sé gert ráð fyrir því, að húsmæðraskólarnir verði framvegis, eins og þeir reyndar eru nú, sjálfseignarstofnanir, sem eigi aðgang að ákveðnu fjármagni frá ríkinu. Að því leyti, er snertir stofnkostnaðinn, er gert ráð fyrir, að haldið verði þeirri reglu, sem reyndar hefir að nokkru leyti verið farið eftir, sem sé þeirri, að ríkið kosti byggingu og undirbúning skólanna að hálfu leyti, en héruðin að hálfu leyti. Hinsvegar eru sett þau skilyrði um rekstur skólanna, að ríkið leggi fram ákveðna fjárupphæð, miðuð við nemendafjölda.

Þegar litið er á húsmæðrafræðsluna hér á landi að undanförnu og svo bændafræðsluna, þá sér maður gríðarmikinn mun. Bændaskólar hafa nú um allangt skeið, hér um bil það, sem liðið er af þessari öld, verið reknir tveir hér á landi á ríkisins kostnað, en hinsvegar hefir húsmæðrafræðslan verið rekin á kostnað héraðanna og nemendanna, að svo miklu leyti sem framlag ríkissjóðs hefir ekki hrokkið til. Ég geri ráð fyrir, að menn séu sammála um, að nauðsynlegt sé að hlúa að menntun bændaefnanna, og ég býst við, að menn séu líka sammála um, að það sé engu síður gagnlegt að hlúa að menntun væntanlegra húsmæðra og mæðra í landinu, og ég geri ráð fyrir, að menn sjái, að hér er nokkuð misjafnlega skipt, þar sem húsmæðraefni verða, auk þess sem þær verða að greiða mikil skólagjöld, einnig að leggja sérstakt með sér við kennsluna, en húsbændaefnin geta notið kennslunnar algerlega ókeypis að öðru leyti en því, að þeir verða að greiða fæðiskostnað, og fá jafnvel styrk úr ríkissjóði, þegar um verklegt nám er að ræða.

Ég vil nú enganveginn fullyrða, að þetta frv. sé þannig útbúið, að menn geti fallizt á form þess og ýms smærri atriði, en ég vil gera mér vonir um, að hv. þm. fallist á þá stefnu, sem í frv. felst. Ég sé ekki ástæðu til að fara langt út í að lýsa þessu frv. Því fylgir allýtarleg grg. og skýrslur, og þar er náttúrlega hægt að sjá þær upplýsingar, sem ég mundi nefna hér, ef ég héldi um þetta langa ræðu. Ég vil þó benda á það, að þessu frv. er ætlað að hafa tvennskonar tilgang. Það er í tveimur köflum, sem eru nokkuð aðskildir. Í fyrsta lagi er gengið út frá þeirri almennu húsmæðrafræðslu og settar um hana ýmsar reglur, það er fjárframlög, námsgreinir og því um líkt. Í öðru lagi er gengið út frá því, að koma á stofn, áður en langt um líður, skólum, sem geti lagt þeim almennu húsmæðraskólum til forstöðukonur og kennslukonur. Það er svo um alla skóla og ekki sízt skóla, sem kenna jafnmikið verklegt og húsmæðraskólarnir, að þeir koma svo bezt að gagni, að hægt sé að láta þeim í té hæfa kennara og forstöðumenn. Ég vil svo sérstaklega benda á það, að tilætlunin er að setja ákveðnar reglur um fjárframlög úr ríkissjóði. Það er gengið út frá því, að á 15 nemendur í hverjum húsmæðraskóla leggi ríkið til 450 kr. á hvern nemenda, og er það þó nokkuð lægri upphæð heldur en ríkið hefir kostað til hvers nemanda á bændaskólunum að undanförnu. Síðast er gert ráð fyrir, að skólarnir kynnu að þola heldur lægri framlög á nemanda, eftir því sem þeim fjölgar, og það er ætlazt til þess, að þegar nemendur eru orðnir fleiri en 15, komi 400 kr. á hvern nemanda fram yfir 15. Sömuleiðis er gengið út frá því, að það misrétti og sá ósiður hverfi alveg, að nemendur á húsmæðraskólunum þurfi að borga kennslugjald. Það er ætlazt til þess, að því leyti sem ríkisstyrkurinn ekki hrekkur til rekstrar húsmæðraskólanna, að þá hljóti viðbót að koma einhversstaðar annarsstaðar að úr þeim byggðalögum, sem skólarnir starfa í.

Það er ekki ástæða til að fjölyrða meira um þetta frv. Ég geri ráð fyrir, að það muni eftir eðli sínu eiga að ganga til hv. landbn., og ég geri það að till. minni, að því verði vísað til þeirrar n. að þessari umr. lokinni.