19.03.1937
Efri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í C-deild Alþingistíðinda. (2093)

69. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Magnús Guðmundsson:

Ég mun ekki lengja umr. mikið um þetta mál. Þó þykir mér rétt að segja frá, hvers vegna ég er ekki meðflm., að þessu frv., þótt ég ætti sæti í þeirri n., sem átti að undirbúa lög um það; það er af því, að mér finnst frv. hvorki vera fugl né fiskur, eða með öðrum orðum ekki til þess hæft að hjálpa til að geta staðið undir þeim byrðum, sem á kauptúnunum og kaupstöðunum hvíla.

Ég verð að endurtaka það, sem ég sagði í fyrra, að það er ekki hægt að ná þessu marki nema innleiða vörugjöld, og ég hygg, að síðan í fyrra hafi hugir manna breytzt í þessu efni. Mér er kunnugt um stór verzlunarfyrirtæki hér á landi, sem viðurkenna þörfina í þessu, þótt það kunni að koma mest niður á þeim, ef til þess þyrfti að taka.

Ég held, ef það er tilætlunin, eins og kemur fram í aths. við frv., að hinn parturinn af frv., sem fluttur var í fyrra, verði fluttur í Nd., að þó sé málinu stefnt í tvísýnu, því að það eru ekki líkur til, að mál, sem er jafnumdeilt og þetta, sé rétt að bera fram í 2 pörtum, og það sinn í hvorri deild. Ég vil sterklega benda á, að það getur ekki gengið lengur að vísa kaupstöðum og kauptúnum á tekjustofna, sem allir viðurkenna, að séu orðnir þannig, að ómögulegt sé með þeim að ná inn því, sem þarf. Það er svikamylla, sem hlýtur að leiða til þess fyrr eða seinna, að ríkissjóður verður að taka sveitar- og bæjarfélögin að meira eða minna leyti á sínar herðar, eins og nú er komið á daginn með einstök sveitarfélög. Ég veit ekki betur en að til séu sveitarfélög, sem eru á beinni ríkisframfærslu með föstum mánaðarlegum styrk, og það er víst, að þau eru fleiri á leiðinni.

Þá verður líka í löggjöf bæjar- og sveitarfélaga að taka tillit til þess, hversu fátækraframfærið hefir flutzt til með framfærslulögunum nýju. Það er vitað, að það eru þyngst gjöld til fátækraframfæris í kauptúnum og kaupstöðum, en á þeim stöðum býr meira en helmingur þjóðarinnar, og það er lítil sanngirni í því, að gleyma þessum hluta þjóðarinnar, þegar setja á löggjöf um þetta efni. Öllum er kunnugt, að kaupstaðir og kauptún landsins eru yfirleitt byggð upp af verzlun og viðskiptum, og þeirra tilveruréttur grundvallast á því, og þegar svo fer, að verzlunin færist öll yfir til samvinnufélaganna, sem eru skattfrjáls eða a. m. k. borga minna en verzlun einstakra manna, þá hlýtur það að leiða til þess, að kaupstaðir og kauptún komist í vandræði.

Það er eftirtektartvert að lesa þau svör, sem komið hafa frá hreppsnefndum við fyrirspurnum hæstv. atvmrh. viðvíkjandi þessu máli. Ég ætla, að hv. 4. þm. Reykv. hljóti að vita af því, að sumir af flokksmönnum hans hafa beðið um að fá að innleiða vörugjöld til þess að geta haldið sínu sveitarfélagi gangandi næstu árin. Það er leiðinlegt að þurfa að leggja á ný gjöld í árferði eins og nú er, en það er ljóst mál, að hér er ætlazt til, hvort sem það verður í reyndinni eða ekki, að útsvörin verði lækkuð sem nemur þeim gjöldum, sem á eru lögð með þessu frumvarpi.