20.03.1937
Efri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í C-deild Alþingistíðinda. (2098)

69. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Það hefir verið orðað hér, að þetta frv. gengi skammt, en á þessum fundi var útbýtt frv. um svipað efni frá hv. þm. í Nd. Ég vissi um það, eins og ég gat um í gær, að þetta frv. myndi koma fram. Mitt frv. er borið fram sökum þess, að flm. hins frv. vildi ekki fallast á allar þær tekjuöflunarleiðir, sem ég vildi halda, úr frv. frá í fyrra, og sumpart fara aðrar leiðir að því er snertir skatt ríkisstofnananna. Menn verða að skoða frv. í því ljósi, að það er aðeins partur af málinu.

Ég segi fyrir mig, og gerði grein fyrir því í gær, að I. kafla í frv. hv. 6. landsk. mun ég samþ., ef hann kemur undir mitt atkv., sem ég vona að verði, og ég hefði haft þennan kafla í mínu frv., ef ég hefði ekki vitað, þegar ég samdi það, að þetta átti að koma fram annarsstaðar. Hv. 2. þm. Rang. sagði út af þeim aðflutningsgjöldum, sem ég legg til, að sett verði, að þau væru auðvitað ekki annað en nefskattur. Það má segja það yfirleitt um þá tolla, sem ekki hvíla á hreinum munaðarvörum, að þeir séu hreinir nefskattar, en ég hygg, að þó að farin yrði sú leið, að ríkið léti bæjar- og sveitarfélögunum eftir t. d. tekjuskattinn og hækkaði í þess stað þessa tolla um sömu upphæð, sem því næmi, sem gengi í ríkissjóðinn, þá kæmi það í sama stað niður fyrir gjaldendurna. Þó að þetta væri kallaður nefskattur, sé ég ekki, að verra væri að greiða hann í bæjar- eða sveitarsjóð en í ríkissjóð. Hv. þm. vildi álíta, að ef fólkið á annað borð gæti staðið undir því að greiða þennan tollaviðauka, sem hér er farið fram á, þá gæti það eins staðið undir því að greiða útsvörin, því að það kæmi í sama stað niður á hvern hátt þetta sé greitt. Ég er honum ekki sammála um þetta. Ég er viss um, að hv. þm. veit það, að þó að segja megi, að um sömu peningaupphæðina sé að ræða, þá er samt sem áður léttara að greiða oft mjög lágar upphæðir en að greiða í einn eða tvennu lagi. Ef þessi röksemd hans væri rétt, mætti að sjálfsögðu ganga inn á skattapólitík sósíalista, því að skv. þessari kenningu ætti að mega afnema alla tolla og hafa tóma skatta. (SAÓ: Er það skattapólitík íslenzkra sósíalista?) Ég átti við sósíalistastefnuna eins og hún kemur fram í fræðibókum.

Hv. þm. fannst reyndar ekki þýða mikið að ná tekjum bæjar- og sveitarfélaga á þennan hátt, heldur væri alveg eins hentugt, að ríkið hlypi beinlínis undir bagga á þeim stöðum, sem þess væri sérstaklega þörf. Það er nú svo. En ég held, að það sé töluvert varhugaverð leið, að ríkið sé að hlaupa undir bagga fyrr en í fulla hnefana, einmitt vegna þess, að slíkt sljóvgar ábyrgðartilfinninguna og viðleitnina til þess að bjarga sér sjálfur, ef það færi að tíðkast öllu meira en nú er. Ég held, að það sé hyggilegra, að gefa bæjar- og sveitarfélögunum einhverja aukna möguleika til þess að geta bjargað sér sjálf, heldur en að vísa á þessa beinu hjálp ríkisins. Það má vel vera, að það komi í sama stað niður fyrir ríkissjóð, þó að hann gæfi eftir eitthvað af þeim tekjum, sem hann hefir nú, en hækkaði tollana til sín í þess stað, en eins og ég hélt fram í gær, og hv. þm. gekk að nokkru leyti inn á, kemur það ekki í sama stað niður fyrir sveitarfélögin. Ég vissi um það — en það eru að vísu nokkur ár síðan —, að eitt árið varð tekjuskatturinn úr heilum hreppi 13 krónur, svo að ég geri ráð fyrir, að það munaði ákaflega lítið um það, þó að þessi hreppur fengi þessar 13 kr.

Ég ætla ekki að fara að deila við hv. þm. um það, hve skattur ríkisstofnananna ætti að vera hár. Ég tók somu upphæð eins og samþ. var hér í hv. d. í fyrra, nefnilega 10%, sem skiptist í tvo staði; annar helmingurinn gangi beint í hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarsjóð, en hinn í jöfnunarsjóð.

Mér skildist það á hv. þm., að það væri rétt hjá mér, að ekki væri hægt að bera saman skatt ríkisstofnana og fyrirtækja einstakra manna, því að útsvörin á þeim síðarnefndu kæmust jafnvel upp í 100%. (PM: Tekjuskattur og útsvar). Ég er þessu ekki svo kunnugur, að ég geti neitt um það fullyrt, en ég veit, að mörg fyrirtæki hér í Reykjavík a. m. k. og víða annarsstaðar geta staðið og sum hagnazt. En ef útsvörin og tekjuskattur næmu 100% af ágóðanum, (PM: Þegar hann er kominn upp í 28 þús. kr.) þá fæ ég ekki séð, að neitt fyrirtæki gæti þrifizt, en sem betur fer, fara ekki öll fyrirtæki með háar tekjur á hausinn. (PM: Þau færu öll á hausinn). Ég er ekki sérstaklega á móti því, þó að skatturinn á ríkisstofnununum væri eitthvað hækkaður, og mér fannst tala sú, sem hv. þm. nefndi, ekki vera nein fjarstæða.

Hv. þm. fannst Siglufjörður njóta sérréttinda hjá mér, þar sem gert sé ráð fyrir því í frv. að skatturinn af síldarverksmiðjum ríkisins gangi í hlutaðeigandi bæjarsjóð. Það eru vitanlega fleiri staðir en Siglufjörður, sem myndu njóta góðs af þessu; það eru a. m. k. 3 staðir. Ég lít svo á, að starfsemi eins og síldarverksmiðjurekstur ríkisins sé svo nákvæmlega hliðstæður atvinnurekstri þeim, sem einstaklingar yfirleitt reka í bæjarfélögunum, að sjálfsagt sé að hlutaðeigandi bær fái einhverjar tekjur af þeim atvinnurekstri (Rödd af þingbekkjum: Gildir ekki sama um verzlunina?) Það gildir ekki sama um hana, sízt þann hluta ágóðans, sem skoða má sem skatt á landsmenn; auk þess er mikill munur á því, hve síldarverksmiðjurnar þurfa meira á eignum bæjarins að halda, sem hann hefir kostað til, heldur en verzlanir ríkisins, sem eru yfirleitt með vörur, sem fer ekki neitt sérstaklega mikið fyrir eða sérstaklega þungar samanborið við veituna. — Annars var hv. þm. sammála mér um það, að einhverjar ráðstafanir þyrfti að gera í þessum efnum, og þó að hann nefndi ekki, hvaða ráðstafanir það væru, vonast ég til, að fram komi till. frá honum um það; fyrirfram skal ég ekki fordæma þær. Það getur verið, eins og ég sagði í gær, að ég geti fallizt á ýmsar breyt. og sérstaklega viðauka á frv., því að ég hefi borið frv. fram af þeim ástæðum, sem ég hefi nefnt, ekki sízt til þess að koma þessu máli af stað, því að nú er svo komið, að þingið verður að afgreiða þetta mál, því að þótt ekki náist kannske nema hluti af því, sem mþn. fór fram á í fyrra, þá verður þegar á þessu þingi að gera einhverjar ráðstafanir til að afla bæjar- og sveitarsjóðunum aukinna tekna.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að hann væri sem þm. Reykvíkinga óánægður með þetta frv. og að tilgangurinn með frv. væri sjáanlega sá, að sækja peninga til Reykjavíkur, en ekki til þess að hjálpa þeim bæ neitt. Mér er ómögulegt að fallast á, að það sé rétt, sem hann sagði, því að í frv. er ekki gerður nokkur munur á bæjar- eða sveitarfélögum í landinu, hvað hlunnindi snertir, nema ef telja skyldi það, að Siglufjörður og þeir staðir, sem eins stendur á með, hefðu kannske hvað mest upp úr frv., að öðru leyti er það ekki. Hvernig á það að vera, að þessi gjöld komi þyngra niður á Reykvíkingum en öðrum landsmönnum? Ég skil það ekki. Ég hugsa, að Reykvíkingar noti ákaflega svipað af þeim vörum, sem í 1. gr. frv. er ráðgert að tolla, eins og aðrir landsmenn.

Ég vona, að hv. þm. sé ekki haldinn af þeirri hégilju, að miða þetta við það, hvar tollarnir eru greiddir, heldur hvar vörunnar er neytt, því að það eru neytendurnir, sem borga þessa tolla raunverulega. Kaupmaðurinn er vitanlega ekki annað en milliliður að því leyti, að hann greiðir tollinn í upphafi. Ég hygg, að tollarnir komi svipað niður á Reykvíkinga eins og aðra landsmenn. Hv. þm. komst að þeirri niðurstöðu, að Reykjavík myndi borga 500 þús. kr. af þessum rúml. 800 þús. kr., en fengi 130 þús. kr. Þetta er náttúrlega hreinasta fjarstæða. Ég hugsa, að Reykjavík borgaði raunverulega jafnmikinn hluta af þeim gjöldum, sem þarna kæmu á landsmenn, eins og þeir eru mikill hluti af þjóðinni. Það stendur nákvæmlega í sama hlutfalli eða mjög nálægt því a. m. k.

Að frv. myndi stórhækka gjöldin á Reykvíkingum fremur en öðrum landsmönnum er því ekki annað en fjarstæða. Um hlunnindin af frv. gegnir að vísu ofurlítið öðru máli, Þar sem ekki á að skipta öllum tekjunum eftir fólkstölu, heldur á nokkur hluti teknanna að ganga til þess að styrkja þá, sem verst eru settir, en ef Reykvíkingar fá aldrei styrk, þá er það fyrir það eitt, að þeir verða aldrei svo illa settir og mér finnst, að hv. þm. mætti vel við það una f. h. síns kjördæmis. Það má benda á það — þó að ég vilji ekki vekja deilur um það atriði — að Reykjavíkurbær hefir raunverulega aðstöðu í miklu ríkara mæli en önnur bæjar- og sveitarfélög til að skattleggja ríkissjóðinn óbeinlínis, í gegnum útsvörin á þeim fjölda starfsmanna ríkisins, sem hér eru, svo að það er ekki sambærilegt á neinum stað öðrum á landinu; enn fremur er hér ýmiskonar atvinna og tekjur, sem ríkið skapar bænum, einmitt vegna þess, að allar stærstu ríkisstofnanirnar eru hér í Reykjavík. Ég er ekki að telja þetta eftir, en þegar hv. þm. heldur slíkri fjarstæðu fram, að frv. sé borið fram til þess að hafa peninga af Reykvíkingum til þess að láta aðra landsmenn hafa, má þó benda á þetta. Það er ekki hægt að neita því, að frv. gerir öllum landsmönnum jafnhátt undir höfði, það leggur sömu gjöld á alla landsmenn og ætlar þeim öllum sömu hlunnindi, sumpart með beinni skiptingu, sumpart með rétti til þess að geta fengið styrk, ef á þarf að halda, Reykvíkingum alveg eins og öðrum.

Hitt er aftur annað mál, að ég get játað, að það er ekki nógu langt gengið með þessu frv. mínu, en ég vona, að eitthvað af því frv., sem komið er fram í hv. Nd., geti lifað, og þá gætu þessi bæði frv. í sameiningu orðið dálítil réttarbót fyrir bæjar- og sveitarfélögin.

Það féllu einhver orð um það hér áðan, að það myndi vera óheppilegt, að þetta mál kemur fram í tvennu lagi. Ég er ekki viss um, að það sé svo óheppilegt, því að eitt atriði, sem menn væru óánægðir með, gæti e. t. v. orðið heilu frv. að falli. Ég álít það öruggara, að einhver hjálp komist fram, ef málið er borið fram í tveimur eða fleiri frv. heldur en ef það er borið fram í einn. Ég hygg því, að þetta séu ekkert óhyggileg vinnubrögð, að við tveir þm. höfum borið fram sitt frv. hvor.