09.04.1937
Efri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í C-deild Alþingistíðinda. (2121)

71. mál, búfjársjúkdómar

Jón Baldvinsson:

Þótt við höfum rætt um þetta í n., hv. 1. þm. N.-M. og ég þá finnst mér vel við eiga, að það komi fram í opnu þingi til þessað upplýsa fyrir d., hvað hér er á ferðinni. Ég veit ofurvel, að hv. 1. þm. N.M., sem er form. n., hefir svarað þessu samvizkusamlega. Heimildin er takmarkalaus, svo að þetta getur oltið á hundruðum þúsunda og kannske milljónum, og þetta getur kannske heldur ekki orðið nema lítið eitt! (PHerm: Og gæti borgað sig). Ég ætla ekkert að segja um það. En ég vil aðeins út af því formi, sem hér er haft, að menn taki það til athugunar við samningu frv., að í stað þess að binda sig við t. d. 2–3 milljónir, þá hafi þeir heimildir fyrir ríkisstj. takmarkalausar, svo að hún geti gert það, sem nauðsynlegt er, því að í 7. gr. frv. segir, að landbrh. sé heimilt að gera „hverskonar nauðsynlegar ráðstafanir“, þegar skæðir húsdýrasjúkdómar brjótist út, og í 4. og 5. gr. er líka takmarkalaus heimild til fjárútláta úr ríkissjóði, því að í 6. gr. segir, að kostnaður sá, sem leiði af ráðstöfunum þeim, sem gerðar séu samkvæmt 4. og 5. gr., greiðist úr ríkissjóði. Það er eins og gengur og gerist, að menn eru misjafnlega fúsir á að leggja takmarkalausar heimildir í hendur ríkisstj.; það fer náttúrlega eftir því, hvort menn treysta ríkisstj. vel eða ekki. En ég sé, að hér er tekið upp form, sem sjálfsagt er að taka til athugunar að viðhafa!