10.04.1937
Efri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í C-deild Alþingistíðinda. (2128)

71. mál, búfjársjúkdómar

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég vil þakka flm. þessa frv. fyrir þær góðu undirtektir, sem brtt. mínar hafa fengið. Okkur greinir ekkert á nema um fyrstu brtt., og mér skildist það á hv. flm., að hér hafi verið um einhverja fyrirframsamninga að ræða. Ég geri ráð fyrir, að það sé ekki rétt að gera samninga um atriði, áður en þau eru borin undir þingið. (PHerm: Engir samningar nefndir). Það, sem eðlilega felst í minni brtt., er, að menn gefi reikning yfir sinn ferðakostnað, eins og ég held, að flestir ráðunautar Búnaðarfélags Íslands geri. Ef reikningar liggja fyrir, er hægara að hafa eftirlit með því, að dýralæknarnir hafi farið þessar ferðir eins og til er ætlazt í l., og mér finnst í raun og veru sanngjarnt og sjálfsagt að hafa hér einhver takmörk og að hámarkið sé ekki meira en þetta.