20.03.1937
Efri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í C-deild Alþingistíðinda. (2142)

76. mál, Kreppulánasjóður

*Pétur Magnússon:

Eins og hv. flm. sagði, eru viss tengsl á milli frv. á þskj. 88 og 89, en þó eru þessi tengsl fremur óbein en bein. Ég vona, að hæstv. forseti taki það ekki illa upp, þó að ég viki að hinu frv., af því að það var ekkert rætt í gær. Ég álít, að sú breyt., sem þar er farið fram á að gera á stjórn Búnaðarbankans sé réttmæt og sjálfsögð. Ég hefi satt að segja alltaf verið þeirrar skoðunar, að stjórnarfyrirkomulag Búnaðarbankans væri mjög óheppilegt. Það liggur í hlutarins eðli, að stjórn bankans hlýtur að hvíla á aðalbankastjóranum; það er hann, sem ber ábyrgð á stjórn bankans, og þessir tveir aðstoðarbankastjórar geta leyst ýms störf af hendi, sem við koma rekstri og stjórn bankans, en að öðru leyti geta þeir ekki á neinn hátt haft aðstöðu til þess að marka þar neina línu, og auk þess sem þeir hafa ekki aðstöðu til þess að bera ábyrgð á rekstri bankans, sem ef til vill hefir upphaflega verið ætlazt til að einhverju leyti, að hvíldi á þeim, þá vil ég segja, að sú ábyrgð verði enn minni fyrir það, að þeir eru tveir, þannig að störfin skiptast á milli þeirra, svo að þeir fylgjast verr með öllu því, sem gerist í bankanum heldur en ef aðstoðarbankastjórinn væri aðeins einn og liti eftir öllu með aðalbankastjóranum. Og ég held, að þetta gæti orðið til þess, að þessi aðstoðarmaður, hvort sem hann er nefndur gæzlustjóri eða aðstoðarbankastjóri, finni til einhverrar ábyrgðar. Ég get a. m. k. í höfuðatriðunum lýst yfir fylgi mínu við þetta frv. um Búnaðarbankann. Að vísu er einstaka atriði í frv., sem getur orkað tvímælis, en það verður tækifæri til að athuga það í nefndinni. Aftur á móti verð ég að játa það, að mér er engan veginn ljóst, á hverjum rökum þær till. eru reistar, sem fram koma í frv. á þskj. 89, um breyt. á stjórn kreppulánasjóðs. Ég verð að játa, að ég er jafnófróður um þetta, eftir að hv. flm. hefir reifað málið, því að mér fannst hann ekki gera grein fyrir því, hver nauðsyn knýr til þess að koma þessu stjórnarfyrirkomulagi á kreppulánasjóðinn, sem gert er ráð fyrir í frv. Eins og hv. þdm. er kunnugt, er lánveitingum kreppulánasjóðs lokið fyrir meira en ári síðan. Þar er því ekki um neitt annað að ræða en venjulegt innheimtustarf. Náttúrlega geta komið þar fram vafaatriði eins og gefur að skilja; t. d. er oft álitamál, hvenær á að ganga að eignum og hvenær á að gefa frekari gjaldfrest, en ég held, að það sé venjulega ekki meira vandamál en svo, að það ætti að vera óhætt að trúa þeim manni, sem falin er stjórn Búnaðarbankans, fyrir því að ráða fram úr slíkum vafamálum, sem kunna að koma fyrir í kreppulánasjóði.

Ég get ekki betur séð en að till. þær, sem hér eru gerðar, séu afturför. Það liggur í augum uppi, að það er ekki hentugt fyrirkomulag, að setja til forstöðu yfir stofnun menn, sem ekki er einu sinni líklegt, að hafi tækifæri til að hafa nokkurn sameiginlegan skrifstofutíma. Það er ætlazt til, að einn verði frá Landsbankanum, annar frá Útvegsbankanum og oddamaðurinn frá Búnaðarbankanum. Eftir því sem störfum kreppulánasjóðs er nú farið, geri ég ekki ráð fyrir að þessir þrír stjórnendur mundu koma saman daglega eða hafa ákveðinn skrifstofutíma. Svo framarlega sem afgreiðslan verður áfram í Búnaðarbankanum, og ég tel það sjálfsagt, að það verði, því að ég álít, að það sé til hagsbóta fyrir Búnaðarbankann og kreppulánasjóð að hafa þetta saman, þá hlýtur þetta að vera framkvæmt þannig, að bankastjórinn í Búnaðarbankanum verði að leysa af hendi þá daglegu afgreiðslu, sem nauðsynlegt er að inna af hendi í kreppulánasjóði. Og það eru litlar líkur til þess, að hann færi í hvert skipti að kalla saman þessa tvo meðstjórnendur til þess að leggja malið fyrir þá. Ennfremur mundi þetta fyrirkomulag án efa gera afgreiðsluna heldur þunglamalega. Ef forsvaranlegt er að lata einn bankastjóra stjórna Búnaðarbankanum, þá er ekki síður forsvaranlegt að láta hann stjórna innheimtustarfseminni í kreppulánasjóði.

Að því er snertir þá breyt., að setja framkvæmdarstjóra fyrir kreppulánasjóð, vil ég taka það fram, að mér er algerlega óskiljanlegt, hver meiningin er með því, að setja fyrst þriggja manna bankastjórn yfir þessa innheimtustarfsemi og svo framkvæmdarstjóra fyrir þessa sömu innheimtustarfsemi. Ég get ekki séð, að hér sé um að ræða neitt annað en venjulegt afgreiðslustarf, og það liggur í hlutarins eðli, að það fer bezt á því, að starfsmenn Búnaðarbankans eða þeirrar stofnunar annarar, sem kynni að verða falin innheimtan, hafi þetta starf með höndum, og ég skil alls ekki, hver nauðsyn knýr til þess að setja sérstakan framkvæmdarstjóra yfir þetta starf undir því fyrirkomulagi, sem ætlazt er til, að komið verði á, og raunar, þótt haldið yrði því fyrirkomulagi, sem er. Ég skil ekki, hvert starf þessa framkvæmdarstjóra ætti að vera annað en venjulegt skrifstofustarf. Allar bindandi ákvarðanir fyrir kreppulánasjóð á stjórnin að taka, t. d. hvort ganga á að veðum, hvort gefa skuli gjaldfrest, hvort skrifa skuli af skuldum o. s. frv. Mér þætti æskilegt, áður en málið fer til 2. umr., að hv. flm. lofaði okkur þdm. að heyra, á hverju þessi breyt. er byggð.