20.03.1937
Efri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í C-deild Alþingistíðinda. (2143)

76. mál, Kreppulánasjóður

*Flm. (Páll Hermannsson):

Eins og sjá má af grg. frv., þá er það flutt fyrir tilhlutun landbrh. Það, sem ég sagði um það, er þó allt á mína ábyrgð, en ekki hans. Ég verð að segja eins og mér finnst vera, að ég tel það skipta litlu máli, hvað framkvæmdastjóri sjóðsins er nefndur; aðalatriðið er, að hans sé þörf, eins og mér virðist óneitanlega vera, eins og starfssvið kreppulánasjóðs er nú orðið. Útlán úr sjóðnum munu nú vera um 10 millj. króna, svo að árleg innheimta hlýtur að vera töluvert mikið og erfitt verk. Og þegar fram líða stundir, gæti ég ímyndað mér, að hún yrði þó töluvert erfiðari en hún þó er nú, og til þess að sannfærast um það, þarf ekki annað en athuga veð þau, sem sjóðurinn hefir, og einnig útlánstímann.

Hv. 2. þm. Rang. sagði, að störfum kreppulánasjóðs væri lokið fyrir ári síðan. Þetta er að sumu leyti rétt. Það er lokið útlánstíma þess kreppulánasjóðs, sem byggður var á lögum nr. 78 frá 1933. En mér skilst, að kreppulánastarfsemin hafi töluvert fært kvíarnar út síðan, a. m. k. hefir allmikið fé verið lánað úr kreppulánasjóði til bæjar- og sveitarfélaga, sem ég fæ ekki betur séð en að heyri einnig undir þetta frv. Annars hefir kreppulánastarfsemin þanizt út miklu meira en gert var ráð fyrir, þegar lögin um kreppulánasjóð voru fyrst sett, og jafnframt fjarlægzt að töluverðum mun sína upphaflegu hugmynd, því að í eðli sínu er kreppuhjálp til bæjarfélaga t. d. allfjarskyld kreppuhjálp til bænda. Þegar hv. 2. þm. Rang. fer að athuga þetta mál betur en hann virðist hafa gert, þá trúi ég ekki öðru en að honum skiljist, að það fer ekki vel saman, að bæta störfum á stjórn Búnaðarbankans, um leið og bankastjórunum er fækkað svo, að aðeins einn á að verða eftir, en því mun vart verða í móti mælt, að störf þau, sem af kreppulánasjóði myndu leiða fyrir hann, myndu auka störf hans að miklum mun. Þá getur mér dottið í hug, að það muni vera töluvert vinsælla starf að úthluta peningum úr kreppulánasjóði en innheimta þá aftur, og það jafnvel þó að kreppuhjálpin hafi verið mörgum hagkvæm, þar sem stórar upphæðir voru strikaðar út og það, sem eftir var af skuldunum, fært yfir í föst og hagkvæm lán. Ég get því haldið, að það yrði erfitt fyrir Búnaðarbankann að annast þessa innheimtu, og ekki sízt þegar bankastjórinn er aðeins orðinn einn. Þá finnst mér og ekki nema rétt, að allir aðalaðiljarnir, sem þetta kreppulána „væsen“ kemur mest við, hafi sína íhlutun um stjórn sjóðsins, enda þótt það komi ríkissjóði að sjálfsögðu mest við, hvernig fer um stjórn hans.