20.03.1937
Efri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í C-deild Alþingistíðinda. (2144)

76. mál, Kreppulánasjóður

*Pétur Magnússon:

Mér skilst, að það séu aðallega tvenn rök, sem hv. flm. færir fram fyrir þessari breyt. n stjórn kreppulánasjóðs. Annarsvegar heldur hann því fram, að stjórn Búnaðarbankans muni eiga erfiðara með að leysa af hendi störf þau, sem kreppulánasjóðnum fylgja eftir við bankastjórinn sé orðinn einn. Þessu er því fyrst til að svara, að samkv. frv. um breyt. á l. Búnaðarbankans á bankastjóri hans ekki að vera einn um stjórn bankans, heldur á gæzlustjóri, skipaður af ráðh., að annast stjórn bankans ásamt bankastjóra. Hvað snertir þessa tvo meðstjórnendur, sem bankastjóri Búnaðarbankans á að fá frá hinum bönkunum, til þess að annast stjórn kreppulánasjóðs, þá er ég helzt þeirrar skoðunar, að þeir létti lítið undir með störfin, heldur er mér nær að halda, að þeir verði til þess að vera honum starfið erfiðara, því að sjálfsögðu yrði að bera öll vafaatriði undir þá, og það yrði til þess að gera honum starfið umfangsmeira og stirðara. Þetta hljóta allir að skilja, sem eitthvað hafa fengizt við almenn opinber störf. Venjan er nefnilega sú, að það er oft léttara að framkvæma störfin upp á eigin spýtur en þurfa að bera sig saman við aðra. Annars er það svo, að eftir því sem nú er komið með kreppulánasjóð, þá er mjög lítið af störfum við hann, sem þurfa að koma til stjórnarinnar. Störfin eru mest venjuleg afgreiðslustörf, sem ganga „automatiskt“ í bankanum. Ég verð því að segja, að ef stjórn Búnaðarbankans hefir ekki verið um of hlaðin störfum með því að hafa á hendi lánveitingarnar úr kreppulánasjóði, þá er það sízt ofmikið á hana lagt, þó að hún þurfi að hafa eftirlit með innheimtunni.

Þá er hitt atriðið, sem hv. flm. vildi láta skína í, að innheimta kreppulánanna myndi verða óvinsæl, og því gæti verið heppilegt fyrir Búnaðarbankann að vera lausan við hana. Það er að sjálfsögðu rétt, að það er alltaf óvinsælt verk, að krefja inn skuldir, og ekki sízt hjá þeim mönnum, sem eiga erfitt með að borga. En að það sé nokkur ástæða til þess að fara að dreifa óvinsældunum með því að koma á þessu þunglamalegu skipulagi, fæ ég hreint ekki seð. Ég tel það þvert á móti slíkar fjarstæður, að ég trúi því ekki ennþá, að hv. flm. sé alvara með það.

Þá sagði hv. flm., að sér væri sama, hvað sá maður væri kallaður, sem sæi um innheimtuna; það skipti engu máli, hvort hann væri kallaður framkvæmdastjóri eða eitthvað annað. Þetta má vel vera. En það, sem skiptir máli í þessu tilfelli, er, hvort binda á starfssvið þessa manns við þetta eina starf. Það er að sjálfsögðu mikið atriði fyrir hverja stofnun, að geta notað starfsmenn sína sitt á hvað, eftir því sem störfin kalla að. Það er því þetta, að binda þennan mann við þetta eina ákveðna starf, sem ég tel óheppilegt, en ekki hitt, hvort hann er kallaður framkvæmdastjóri eða eitthvað annað.

Að endingu vil ég svo segja það, að rökfærsla hv. flm. var á þann veg, að hún verkaði ekki á mig. Ég var engu nær um nauðsyn málsins en ég var áður.