24.03.1937
Efri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í C-deild Alþingistíðinda. (2167)

96. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Mönnum mun vera það í fersku minni, að í fyrra var ekki sem bezt ástand innan stjórnar síldarverksmiðja ríkisins. Ágreiningur var þar mikill, og það gekk svo langt, að stjórnarnm. deildu mjög harkalega hver við annan í opinberum blöðum og báru hvern annan þungum sökum. Stjórnarstörfin á þessu tímabili fóru náttúrlega eftir því, og má segja, að svo væri komið, að stjórn þessa stóra ríkisfyrirtækis hafi ekki verið starfhæf. Það voru gerðar tilraunir, meðan þing stóð yfir í fyrra, að finna sæmilega lausn á þessu deilumáli, en þær tilraunir mistókust. Í stuttu máli skeður það svo eftir þingslit, að 2 af hinum þingkjörnu stjórnarnm. lögðu niður umboð sín, og voru engin ákvæði í l. um það, hvernig þá skyldi að fara. Þess vegna var það, að gefin voru út bráðabirgðalög um breyt. á síldarverksmiðjulögunum, þess efnis að stjórn verksmiðjanna skyldi skipuð 3 mönnum, sem allir væru stjórnskipaðir.

Ég vil nú taka það skýrt fram, sérstaklega vegna blaðaummæla, sem fallið hafa, að við flm. þessa frv., og Framsfl. allur, teljum, að eins og á stóð hafi verið rétt að setja þessi bráðabirgðalög, því að ástandið í stjórn síldarverksmiðjanna var þannig, að það varð að ráða einhverja bót á því. Tilgangurinn var sá, þegar þessi bráðabirgðalög voru sett, að í stjórn verksmiðjanna yrðu skipaðir 3 menn, sem væru sinn úr hverjum aðalstjórnmálaflokki þingsins, og atvmrh., sem gaf bráðabirgðalögin út, skipaði líka stjórnina þannig. En eins og alkunnugt er, varð þó ekki af því, að í stjórn verksmiðjanna ættu sæti fulltrúar allra flokka, og ástæðan til þess var sú, að Sjálfstfl. lagði bann við því, að sínir menn tækju sæti í þessari stjórn. Ég lít því svo á, að Sjálfstfl. eigi sök á því, að stjórn síldarverksmiðjanna er ekki þannig skipuð sem sanngjarnast er og tilætlunin var. Ég hygg, að flestir sanngjarnir menn séu sammála um það, að hæstv. atvmrh. hafi tekizt svo val mannanna í verksmiðjustjórnina og val þess manns, sem í fyrstu atti að vera fulltrúi sjálfstæðismanna þar, að flokkurinn hefði mátt vel við una. En Sjálfstfl. kaus nú þá leið, að hafna því að eiga fulltrúa í verksmiðjustjórninni, skipaðan á þennan hátt, og bar því við, að þetta væri eftir bráðabirgðalögum, sem hann vildi ekki viðurkenna, að rétt hefði verið að setja.

Nú lítum við flm. svo á, að þrátt fyrir það þótt kenna megi Sjálfstfl. um, að verksmiðjustjórnin er skipuð eins og hún er nú, þá sé það svo áríðandi, að öll sjónarmið komi fram í stj. þessa fyrirtækis, að taka verði það til greina og búa svo um, að allir flokkar eigi þar fulltrúa. Ef einn af 3 aðalstjórnmálaflokkunum hefir engan fulltrúa, hlýtur svo að fara, að annar hinna flokkanna hafi aðalvaldið, m. ö. o. að verksmiðjurnar séu að mestu leyti undir stjórn eins flokks, og slíkt vekur alltaf tortryggni, sem getur verið mjög óheppileg. Ég hefi enga ástæðu til að segja, að stj., sem skipuð var samkv. bráðabirgðalögunum í vor, hafi ekki unnið sitt verk sæmilega, og það er vitanlegt, að að einu leyti skipti um til batnaðar, því að þá komst á friður innan verksmiðjustjórnarinnar, sem ekki hafði verið áður. En hitt er líka jafnt vitað, að það ríkir tortryggni gagnvart núv. verksmiðjustj. meðal þeirra manna, sem ekki eru Alþýðuflokksmenn, sérstaklega á Siglufirði. Er litið svo á þar, að Alþýðuflokksmenn standi æði mikið betur að vígi með að fá atvinnu við verksmiðjurnar heldur en aðrir. Ég hefi ekki aðstöðu til að leggja dóm á, hvort þessi tortryggni hefir við rök að styðjast, en hún á sér stað, og það er óheppilegt fyrir stofnun eins og síldarverksmiðjurnar, að slík tortryggni eigi sér stað og hafi a. m. k. við sterkar líkur að styðjast.

Eins og ég tók fram áðan, lítum við flm. svo á, að það hafi verið, eins og á stóð, rétt að gefa út bráðabirgðalögin um stjórn síldarverksmiðjanna. Þau voru sett til þess að ráða bót á illþolandi ástandi, sem áður var, og vitanlega voru þau sett til bráðabirgða. En þótt við lítum svo á, að þetta hafi verið rétt, eins og á stóð, þá finnst okkur ekki sjálfsagt, að nákvæmlega sama fyrirkomulag sé haft eftirleiðis. Það er ekki einasta svo, þegar bráðabirgðalög eru sett, að því fyrirkomulagi, sem þau ákveða, geti verið eðlilegt að breyta á næsta þingi, heldur er það oft, þótt Alþingi setji sjálft lög um eitthvert efni, að eftir árið sjá menn, að annað má betur fara og taka þá nýtt fyrirkomulag upp. Og með þessu frv., sem við þm. Eyf. höfum borið hér fram, reynum við að benda á heppilegra skipulag á stj. síldarverksmiðja ríkisins heldur en það, sem bráðabirgðalögin ákveða, þótt við jafnframt játum, að bráðabirgðalögin hafi verið til bóta frá því, sem áður var. Með þessu frv. reynum við fyrst og fremst að tryggja það, að aðalstjórnmálaflokkar landsins hafi jafnrétti í stjórn síldarverksmiðjanna. En jafnframt reynum við að sníða af þá galla, sem áður fylgdu og voru bein afleiðing af jafnrétti flokkanna.

Menn hafa nú sjálfsagt kynnt sér þetta frv., svo að ég þarf ekki mikið að ræða um einstök atriði þess, enda á það ekki við við þessa 1. umr. En í aðalatriðum er till. okkar í þessu efni sú, að yfirstjórn verksmiðjanna sé í höndum 12 manna verksmiðjuráðs, og séu 9 þessara manna kosnir í sameinuðu þingi, að viðhafðri hlutfallskosningu. Af hinum 3 er ætlazt til, að einn sé tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, annar af Fiskifélagi Íslands og hinn þriðji af Sís. Tilgangur með þessari tilnefningu er sá, að þessir 3 fulltrúar verði ekki beinlínis fulltrúar pólitískra flokka. Nú mun verða sagt, að þessir menn muni án efa verða pólitískir, og ég geri ráð fyrir, að svo verði, að erfitt verði að finna stj. fyrir nokkra n. eða fyrirtæki hér á landi, sem ekki sé pólitískt, því að allir Íslendingar eru í ranninni pólitískir Ég geri meira að segja ráð fyrir, að þessir 3 aðiljar tilnefni menn, sem séu hver úr sínum stjórnmálaflokki. En þó að ég geri ráð fyrir þessu, er þó nokkur munur á því, hvort maður er tilnefndur til að gæta hagsmuna ákveðins flokks, eða kosinn að stofnun, sem á að hafa atvinnuveginn og hag hans eingöngu fyrir augum. — En hvað sem um það er, þá er hitt víst, að með þessari skiptingu myndi fást jafnrétti milli stjórnmálaflokka.

Það mætti segja, að í þessu ráði geti verið hætta á sömu pólitískri togstreitu og verið hefir í stj. síldarverksmiðjanna. En ég tel ekki svo mikla hættu á því. Ef slíkt ráð hefði verið til í fyrra, þegar deilur voru sem mestar í verksmiðjustj., þá tel ég miklar líkur til, að ráðið hefði getað sett deilurnar niður.

Þá virðist ástæða til, að einhver stofnun sé til að leggja úrskurð á verksmiðjureikningana. Það er verksmiðjuráðinu ætlað að gera. Og sérstaklega teljum við eitt unnið með þessu verksmiðjuráði, sem sé það, að með því er hægt að koma út úr Alþingi ýmsum deilum um stj. verksmiðjanna. Í frv. er gert ráð fyrir, að þetta 12 manna ráð kjósi 3 menn í stj. verksmiðjanna, og aðra 3 til vara, en ráðh. tilnefni svo einn þeirra til að vera formann verksmiðjustj.

Þá er það nýmæli í frv., að framkvæmdarstjórar geti verið 2. við álítum störf verksmiðjanna svo umfangsmikil, að óviturlegt sé að fyrirbyggja, að framkvæmdarstjórar geti verið fleiri en einn. En hér er það aðeins heimilað. Ég hefi ekki sérþekkingu á þessu, en ég álít þörf á, að framkvæmdarstjóri sé jafnan á Siglufirði, meðan verksmiðjurnar eru þar í gangi. En auk þess eru verksmiðjur t. d. á Raufarhöfn og Vestfjörðum, sem ástæða er til, að líka sé lítið eftir. Þá er og gert ráð fyrir, að framkvæmdarstjórar skuli hafa umsjón með sölu afurðanna, og sé ég ekki, að einn maður geti annað öllum þeim störfum.

Við flm. höfum haft landsbankan. til fyrirmyndar um þetta verksmiðjuráð. Hún var sett með það fyrir augum, að stjórnmálaflokkarnir skipuðu hana og hefðu jafnan rétt til þess í hlutfalli við styrkleik sinn, en var þó jafnframt gert ráð fyrir því, að slík n. miðaði ekki starf sitt eins mjög við pólitíska hagsmuni og stjórnmálaflokkarnir sjálfir. Ég álít því rétt það, sem í grg. stendur, að jafnframt því, sem flokkunum sé tryggt jafnrétti, beri að draga úr því, að pólitísk sjónarmið geti orðið alls ráðandi um meðferð málanna.

Kostnaðarauka gerum við ekki ráð fyrir af þessum breytingum. við gerum ráð fyrir, að fulltrúar í ráðinn vinni kauplaust, en fái greiddan ferðakostnað, ef þeir þurfa að sækja fundi til annara staða. Það þykir ef til vill hart, að ætlast til, að þeir vinni kauplaust, en ég skil ekki annað en stjórnmálaflokkarnir geti fundið menn, sem af áhuga á málunum sjálfum vilja taka þetta að sér. Af þessu hafa engin vandkvæði orðið í landsbankan., og hefir hún nú starfað um 9 ára skeið.

Þá er eitt nýmæli í 2. gr., sem leiðir af því, að verksmiðjuráð þetta er tekið upp. Þar er gert ráð fyrir, að ef verksmiðjurnar kaupa hráefnin af framleiðendum, þá skuli verksmiðjustj. ákveða verðið í samráði við verksmiðjuráð. En ef upp kemur ágreiningur milli verksmiðjustj. Og verksmiðjuráðs um það, hvert verðið skuli vera, þá skal fjmrh. skera úr. Að öðru leyti er ætlazt til, að sá ráðh., er fer með útvegsmál, sé yfirmaður verksmiðjanna. En ákvæðið um það, að fjmrh. skeri úr um þetta atriði, er af því, að þetta getur haft svo mikil áhrif á hag ríkissjóðs, að ekki er nema rétt, að þetta heyri undir fjmrh. Ef verksmiðjurnar eru reknar með halla, er það ríkissjóður, sem ber þann halla.

Í bráðabirgðaákvæði leggjum við til, að kosning þessara 9 manna í verksmiðjuráðið fari fram á því þingi, sem samþ. þessi l., en tilnefning annara fulltrúa í verksmiðjuráðið fari fram svo fljótt sem auðið er.

Ég vona, að þetta frv. fái að ranga til n. óhindrað. Ég held því ekki fram, að við höfum í öllum atriðum fundið það réttasta, en það stendur þá væntanlega til bóta. Þó að eitthvað megi sjálfsagt að till. okkar finna, held ég þó, að það sé betur tryggt með þeim en núverandi fyrirkomulagi, að þetta mikla fyrirtæki landsins hafi tiltrú allra aðilja, er við það vinna, útgerðarmanna, sjómanna og verkamanna, og að þjóðin almennt geti treyst stj. þess til þess, að ekki verði gálauslega að farið.

Legg ég svo til, að frv. verði vísað til sjútvn.