24.03.1937
Efri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í C-deild Alþingistíðinda. (2169)

96. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég ætla ekki að fara út í efni frv., sem fer væntanlega til þeirrar n., sem ég á sæti í. Það var undarlegt, að hv. frsm. skyldi í framsöguræðu sinni leggja áherzlu á að kenna Sjálfstfl. um hina illu stjórn, sem nú væri á verksmiðjunum. Hann sagði, að það væri svo mikil tortryggni í kringum þær, þótt þar ríkti friður, að það væri óhafandi og ótækt. Mér skildist eftir hans orðum, að Alþfl. réði þar öllu og misnotaði aðstöðu sína á Siglufirði til þess að koma sínum flokksmönnum að störfum við þessar verksmiðjur og notaði sér þannig sem bezt þetta ríkisfyrirtæki undir þeim kringumstæðum, sem nú eru. Hann vildi kenna Sjálfstfl. um þetta, vegna þess að hann hefði ekki viljað taka þátt í útnefningu manns í verksmiðjustjórnina samkvæmt bráðabirgðal. En hv. þm. ætti væntanlega að skiljast, að ef nokkur flokkur í landinu rís gegn því, að þingræðisreglur séu brotnar á svo herfilegan hátt sem gert var með setningu þessara bráðabirgðal., þá er það Sjálfstfl. Hv. þm. segir nú, að hann hafi verið samþykkur því, að bráðabirgðal. voru sett. En þetta gæti orðið til þess, að ráðh. fyndu upp á því að setja bráðsbirgðal. og brjóta niður þau 1., sem þingið hefði sett, ef þeim ekki líkaði lagasetningin að öllu leyti. Þeir gætu þá sett bráðabirgðal., þegar þm. væru komnir heim, eða kannske ekki einu sinni það, eins og átti sér stað með þessi bráðabirgðal. Þessir flokkar, sem að þessu standa, hafa stundum keyrt frv. í gegnum þingið á 3 til 4 dögum, þau hafa ekki fengizt rædd og ekki farið til n., en verið keyrð áfram í þinglok. Það eru mörg dæmi þess frá þingunum 1934 og 1935. Nú er það óverjandi að keyra þannig áfram stórar lagasetningar, en hvað er það á móti því, að setja bráðabirgðal., þegar þm. eru ekki einu sinni farnir heim? Hv. þm. má á engan hátt kippa sér upp við það, þótt Sjálfstfl. reyni að spyrna á móti því einræðisbrölti og gerræði, sem hinir ráðandi flokkar hér á landi beita.

Hv. þm. segist vilja koma á sem mestu jafnrétti við hlutdeild í stjórn þessa fyrirtækis. Hann gleymir þó einum flokki, sem á 2 eða 3 fulltrúa að réttum landslögum, svo að jafnréttið hefir ekki verið aðalatriði hjá hv. þm. Það er sýnilegt. En ég ætla ekki að ræða hér efni frv.

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að það væri vanalega miklu ópólitískari útnefning ráðh. heldur en Alþ., þá voru þó völdin í þessu efni hjá Alþ. að landslögum, þangað til að bráðabirgðal. komu. Ég held, að það mundu fáir vilja sleppa völdum Alþ. í hendur þessa ráðh., sem nú talaði, eða annars manns, sem hefði brotið svo freklega allar þingræðisreglur eins og hann hefir gert.

Það er undarlegt, að framsóknarmenn skuli endilega þurfa að hnýta í Sjálfstfl. í þessu efni og kenna honum um þau vandræði, sem væru á hinni illu verksmiðjustjórn, af því að flokkurinn hefði ekki útnefnt mann í hana. Það er auðvitað rétt hjá hv. þm., að ef sjálfstæðismaður hefði tekið sæti í stjórninni, þá hefði hún verið miklu vetri. Sjálfstfl. hefði auðvitað ekki látið annan mann í stjórnina en þann, sem hefði verið hæfur og góður til þess starfs, sem hér um ræðir. Að þessu leyti er það rétt, sem hv. þm. sagði. En þetta var ekki hægt. Ef á að vernda þingræðið í landinu, þá verður að veita viðnám þeim valdhöfum, sem eru að brjóta það niður.